23.02.1981
Neðri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

201. mál, sérhannað húsnæði aldraðra og öryrkja

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa fögnuði mínum yfir því sem kom fram í orðum hæstv. ráðh. þegar hann skýrði frá því átaki sem virðist vera fram undan til þess að bjarga út úr því neyðarástandi sem við erum í með hjúkrunarþurfandi eldra fólk. Ég vona sannarlega að það takist að gera þetta á þann veg sem hér hefur verið nefndur, þó að ég geri mér fulla grein fyrir því líka, að sumt af þessu húsnæði mun að sjálfsögðu verða bráðabirgðahúsnæði eins og þegar er nýtt í dag af þessu fólki.

En ég vil enn á ný taka fram það sem ég hef áður sagt í þessari umr. og frv. sem ég er 1. flm. að og hér er til umr., og það er það, að þegar við erum komnir út úr þessum vítahring ber okkur að horfa til framtíðarinnar. Ég var á fundi í gær með stjórn félags sem hefur fengið úthlutað lóðum hjá Reykjavíkurborg til þess að byggja íbúðir aldraðra á. Þarna er fólk á ferðinni sem er farið að hugsa alvarlega til þess, — það er enn þá á góðum aldri, það er á miðjum aldri, það er fólk sem er enn þá í vinnu, —það er að hugsa um staðreyndina að við eigum eftir að eldast. Við vitum hvernig ellin leikur okkur öll, og allir förum við á sama veg. En þetta fólk vill koma sér inn í sérhannað húsnæði sem hentar því ekki aðeins í dag, heldur veit það að húsið eða íbúðin er þannig úr garði gerð, að ef eitthvað b játar á heilsunnar vegna í framtíðinni, þá verður mögulegt fyrir starfslið heimilisþjónustu og heimahjúkrunar að koma og veita þessu fólki þjónustu. Ég tel að slíkar íbúðir víðs vegar um landið, en þó fyrst og fremst þar sem hægt er að veita þjónustu, verði til þess að aðsóknin að hjúkrunarheimilunum og síðan að spítölunum, langlegudeildunum, minnki. Það dregur úr og um leið vinnst það, að þetta fólk getur verið áfram innan um sínar eigur, í eigin íbúð. Það er búið að skipta um eftir að það komst yfir miðjan aldur, frá því að börnin eru farin frá því, það þarf minna að hafa umleikis, minna í kringum sig. En það vill samt sem áður hafa mikið í kringum sig af sínum gömlu munum og geta tekið á móti sinni fjölskyldu, um leið og það er að hugsa til þess, að í ellinni geti það verið þar þangað til yfir lýkur. Það vonar að það þurfi ekki á því að halda að fara hvorki inn á spítala né hjúkrunarheimili aldraðra, og setur sína peninga í að búa svona um sig. Þetta finnst mér svo virðingarvert, að ég vil að Alþingi Íslendinga komi á móti slíku fólki, einstaklingum og samtökum, sem vinna að þessu, eða sveitarfélögum, til þess að hjálpa til að ná þessari stefnu fram og gera hana að raunveruleika. Þá held ég að við séum komnir yfir þetta vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag, öldrunarvandamálið, sem kallað hefur verið hér á Íslandi. Við erum allir sammála um það, að við þurfum að ná upp heimilum núna til þess að bæta úr neyðarástandinu, en við þurfum að horfa til framtíðarinnar líka.