24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2503 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

211. mál, húshitunaráætlun

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér heyrðist hann nú vera genginn í norðvestrið hérna áðan. Það hefði kannske verið tilvinnandi að reyna að beisla eitthvað af þeim vindi, sem gekk út úr þessum ræðustól hjá hv. fyrirspyrjanda, og taka með í leiðinni eitthvað af þeim nýyrðum sem af vörum hans hrutu. Hann talar um „seinadrátt“ ríkisstj. Það kann að vera vestfirska. Ég hef ekki heyrt það, a.m.k. ekki í þeim landshluta þar sem ég þekki best til.

Mér fannst sá blástur, sem kom frá hv. þm., vera afskaplega lítið rökstuddur. Ég held að ef hv. þm. lítur á framkvæmdir í orkumálum á því ári, sem liðið er, og þær tillögur, sem fyrir liggja um framkvæmdir í orkumálum, komist hann ekki hjá því að sjá að það hefur verið brotið í blað í sambandi við framlög til þessara mála. Áherslan er alveg sérstaklega í sambandi við það að útrýma olíunni.

Við hv. þm. höfum oft verið nokkuð sammála um þær áherslur sem þyrfti að leggja á orkumálin, og ég hef notið góðs stuðnings hans í ýmsum þáttum þeirra mála og vænti þess að svo verði áfram. Það er kannske ágætt að hann veki menn einnig upp í sínum flokki og leggi línurnar þar. Ég ætla ekki að hafa á móti því.

Hann var að gagnrýna að það væri verið að kanna jaðartilvik í sambandi við húshitunarmálin. Ég held að þeir, sem vilja horfa með nokkurri skynsemi á framgang þessara mála, geti tekið undir þýðingu þess, að það fáist skorið úr um hvaða orkugjafa á að nota á þeim stöðum og svæðum þar sem menn eru ekki vissir um hvað hagkvæmast teljist. Þó að það liggi ekki fyrir skýrsla eða fullbúin áætlun samkvæmt lögunum frá því í fyrra þýðir það ekki að ekki hafi verið tekið á þessum málum. Menn hafa verið að taka ákvarðanir í samræmi við niðurstöður af athugunum sem unnar hafa verið og fyrir hafa legið og þar sem ákvarðanir hefur þurft að taka. Það vinnst ekki út af fyrir sig neitt endanlega með því að fyrir liggi skýrsla í máli. Hitt er mest um vert, að menn vinni sig fram úr þeim erfiðleikum og vanda sem hér er við að glíma. Að þessu er unnið og þar á meðal er sú áætlunargerð, sem lögin bjóða, þýðingarmikil í þessu sambandi. Ég held að þeir aðilar í strjálbýli, sem eiga hugsanlega von í jarðvarma, lasti ekki þó það séu kannaðir möguleikar á að hagnýta slíkar auðlindir þótt í strjálbýll sé. Auðvitað varðar þetta líka fjárveitingar til dreifikerfisins á raforkunni, sem þarna á ekki að þurfa að kosta jafnmiklu til ef hægt er að létta á rafhituninni.

Varðandi marga þætti þessara mála mundum við óska þess að við hefðum meira fjármagn til ráðstöfunar, ekki síst þeir sem fyrir þessum málum standa, og það á m.a. við um hina svonefndu sveitarafvæðingu sem hv. þm. nefndi í máli sínu að hefði verið einn þátturinn í framkvæmdaáætlun sem nokkrir hv. þm. Sjálfstfl. báru fram í tillöguformi í fyrra. Ég vænti þess, að hv. þm. vinni að þessum málum og leggi í orkuráði gott til mála, eins og hann hefur yfirleitt gert, og það megi takast gott samstarf um úrlausn þess vanda sem við er að fást í sambandi við hinn mjög mismunandi kyndingarkostnað í landinu, þar sem við þurfum að leggja alla áherslu á að koma innlendum orkugjöfum í gagnið fyrr en seinna.

Það var nefndur hér orkusparnaður. Það er þáttur sem veruleg áhersla hefur verið lögð á í upplýsingarskyni og í almennum áróðri, og það hefur áreiðanlega einnig gefið nokkra raun á þessu tímabili.