24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

211. mál, húshitunaráætlun

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna ummæla hæstv. ráðh., sem talaði hér síðastur, um að fjvn. hefði ekki lagt fram meira fé til þessarar starfsemi, og lét með þeim orðum að því liggja að það væri á valdi nefndarinnar að gera slíkt.

Hæstv. ráðh. veit nákvæmlega jafnvel og allir aðrir hv. þm. að það er takmarkað fé til umráða þrátt fyrir gífurlega skattheimtu þeirrar hæstv. ríkisstj. sem setið hefur að völdum í landinu nú um skeið. Ástæðan fyrir því, að ekki er hægt að leggja til hliðar fjármagn til þessara framkvæmda, er að sjálfsögðu engin önnur en sú, að sú sama hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. á aðild að hefur ákveðið að nota fjármagnið til annars. Ég skora þess vegna á ráðh., áður en hann fer með slíkan boðskap í ræðustól á hv. Alþingi, að kanna vel innan hæstv. ríkisstj. hvort hægt væri að skipta fjármununum með öðrum hætti í því fjárlagafrv. sem lagt er fram á haustin af hæstv. ríkisstj. — Ég veit ekki betur en hæstv. fjmrh. sé, a.m.k. þessa stundina, samflokksmaður hæstv. iðnrh., jafnvel þótt gusti á milli þeirra á stundum.