24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

211. mál, húshitunaráætlun

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það voru aðallega þau ummæli hæstv. iðnrh., sem hann lét hér falla og hv. þm. Friðrik Sophusson var hér að ræða um, sem ollu því að ég kvaddi mér hljóðs.

Það er í raun og veru furðulegt að heyra ráðh. tala eins og hæstv. iðnrh. talaði hér áðan. Hann var beinlínis að saka fjvn. um að hafa ekki séð fyrir meira fjármagni til sveitarafvæðingar. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðh. hafi með fjárlagafrv., sem lagt var fram í haust, sjálfur ákvarðað og lagt til hvað átti að fara í þessa sveitarafvæðingu. Hann rýkur síðan upp til handa og fóta í sýndarmennsku eftir að hann sjálfur hefur lagt til í fjárlagafrv., hve mikið fé þarna ætti að veita, og skrifar fjvn. bréf og óskar eftir meira fjármagni en hann sjálfur lagði til sem ráðh. í ríkisstj. að fjárlagafrv. hefði inni að halda í þessum efnum. Hér er því hrein sýndarmennska á ferðinni hjá hæstv. ráðh. Það var hann sem lagði það til, að svo til engin nýframkvæmd í sveitarafvæðingu yrði framkvæmd á árinu 1981. Því ömurlegra er að hlusta á hæstv. ráðh. tala með þessum hætti þegar allur þingheimur og öll þjóðin veit miklu betur. Það var tillaga hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstj. í fjárlagafrv. að ekki yrði meira fjármagn veitt til sveitarafvæðingar en það frv. hafði að geyma. Ég vísa því alfarið á bug þeim ummælum hæstv. ráðh. sem hann viðhafði hér áðan og vildi láta taka sem svo að það hafi staðið á fjvn. að veita meira fjármagn til þessara mála. Það var beinlínis óskað eftir því, a.m.k. af minni hl. fjvn., að þarna fengist meira fjármagn, en stjórnarliðið með hæstv. ráðh. í broddi fylkingar neitaði því atfarið. Svona málflutningur hér á Alþingi er auðvitað fyrir neðan allar hellur og allra síst ætti þetta að koma frá hæstv. ráðh., en eigi að síður kemur það fyrst og fremst frá honum í þessu tilfelli.

Aðeins nokkur orð til viðbótar, herra forseti, ég skal brátt ljúka máli mínu.

Það mál, sem er hér fyrst og fremst til umr., er hinn geysilegi vandi sem fylgir kostnaði við upphitun hér á landi. Það er út af fyrir sig rétt, að gert hefur verið nokkurt átak til þess að þeim fækkaði sem þurfa að bera þann geigvænlega bagga sem olíukynding við upphitun íbúðarhúsnæðis er. Eftir sem áður eru þeir margir sem ekki á þessu ári, ekki á næsta ári og þarnæsta ári fá bætt úr þessu böli. Eftir sem áður verður kyndingarkostnaðurinn geigvænlegur baggi á herðum þessa fólks, og verður af hálfu hins opinbera — þjóðfélagsins í heild — að koma til móts við það og létta þennan bagga eins og mögulegt er.