24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (2672)

211. mál, húshitunaráætlun

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er e.t.v. ekki gustukaverk að koma hér í stólinn enn einu sinni út af ummælum hæstv. ráðh. Svo vandlega hefur hann verið kveðinn í kútinn að varla verður gerður úr honum virkjunarkostur úr þessu.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að í tillögum hans í upphafi voru mun hærri tölur en þær sem sáust í fjárlagafrv. Málið snerist þannig í hæstv. ríkisstj. að þær tölur voru lækkaðar. Tillögur hæstv. iðnrh., sem er félagi í Alþýðubandalaginu, voru lækkaðar af fulltrúum hæstv. fjmrh., sem er í sama stjórnarflokki. Svo leyfir þessi hæstv. ráðh. sér að koma á fund í Sþ. og tala um að það sé fjvn. sem hafi haft úrslitavaldið í þessum efnum. En hver skyldi vera formaður fjvn. annar en Geir Gunnarsson, samflokksmaður hæstv. ráðh., sem því miður er ekki staddur á þessum fundi í dag.

Það kemur æ oftar fyrir í þessari hæstv. ríkisstj., hvort sem um er að ræða Þórshafnarmál, virkjunarframkvæmdir, umræður um flugskýli og flugstöðvar eða orkumál og rafvæðingu, að ráðh. í hæstv. ríkisstj., sem hér starfar, tala sinn í hvora áttina. Einn segir þetta og hinn hitt. Aðeins eitt eiga hæstv. ráðh. sameiginlegt. Þeir reyna að koma sökinni á einhverja aðra en sjálfa sig. Á þetta þarf auðvitað að leggja áherslu aftur og aftur hér á hæstv. þingi til að koma í veg fyrir að svínaríismálflutningur á borð við þennan eigi sér stað oftar á hæstv. Alþingi.