24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (2675)

376. mál, kjör og aðbúnaður farandverkafólks

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég ásamt Karvel Pálmasyni og Jóhönnu Sigurðardóttur till. til þál. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun á lögum nr. 39/1951, um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi.

Meginmarkmið endurskoðunarinnar skulu vera:

1. Að leiða í lög fyllri ákvæði um upplýsingaskyldu þeirra, sem vilja ráða erlenda menn í þjónustu sína, gagnvart þeim sem ráðnir eru, um launakjör, vinnutíma og aðbúnað við vinnu hér á landi. Enn fremur um skatta og önnur opinber gjöld svo og hverjar þær skyldur sem erlendir menn takast á hendur við vistráðningu hérlendis.

2. Að tryggja með lögunum félagsleg og kjaraleg réttindi þeirra erlendu manna, sem fá atvinnuleyfi hér á landi, til jafns við heimamenn, eins og þau eru samkvæmt lögum og gildandi kjarasamningum á hverjum tíma.

3. Að skylda þá, sem leita eftir erlendu vinnuafli, til þess að hafa samráð við hlutaðeigandi stéttarfélag áður en erlendir starfskraftar eru vistráðnir.

Við endurskoðun þessa, sem skal hraðað eftir föngum, skal haft samráð við heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins.“

Till. þessi varð ekki útrædd, en í umr. kom fram að mönnum þótti sem athuga bæri fleira en málefni erlends farandverkafólks. Þá var vikið að fæðiskostnaði og lélegum aðbúnaði á ýmsan hátt, sem vissulega var réttmætt. En nokkru eftir að umr. höfðu farið fram var skipuð nefnd til þess að fjalla um þessi mál. Því er það, að nú hef ég ákveðið að spyrjast fyrir um störf þessarar nefndar og hef því lagt fram svohljóðandi fsp.:

„Hinn 18. mars 1980 skipaði félmrh. nefnd til að kanna gildandi lög og reglur um kjör og aðbúnað farandverkafólks, þ.m.t. erlends farandverkafólks, hér á landi og gera tillögur til úrbóta í þeim efnum.

Í fréttatilkynningu er frá því greint, að nefndin skuli skila áliti innan þriggja mánaða.

1. Hefur nefndin skilað áliti?

2. Ef svo er, hvaða tillögur gerir nefndin til úrbóta á málefnum farandverkafólks, þ.m.t. erlends farandverkafólks, hér á landi?“

Fyrir nokkrum dögum var lagt fram frv. til l. um atvinnuréttindi útlendinga, sem vissulega er svar við fsp. minni að hálfu. Ég vil lýsa því hér yfir, að ég er mjög ánægður með það frv. sem liggur fyrir. Það virðist greinilega mjög vel unnið og alveg í dúr við þá þáltill. sem ég flutti á síðasta þingi. Ég þakka það starf sem unnið hefur verið með framlagningu þessa frv., en mig langar að vita hvað líður málefnum innlends farandverkafólks.