24.02.1981
Sameinað þing: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2510 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

376. mál, kjör og aðbúnaður farandverkafólks

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Karl Steinar Guðnason, hv. 3. landsk. þm., hefur borið fram fsp. til mín um könnun á kjörum og aðbúnaði farandverkafólks. Hann víkur í fsp. sinni að nefnd sem ég skipaði 18. mars s.l. til að fjalla um þau mál.

Nefndin fékk það verkefni fyrst og fremst að vinna að því að semja frv. um erlent verkafólk, réttindi þess og skyldur, og að semja tillögur að breytingum á reglugerðum vegna aðbúnaðar í verbúðum. Þar var um að ræða heilbrigðisreglugerð annars vegar, sem gefin hefur verið út af heilbr.- og trmrn., og hins vegar veitingahúsareglugerð, sem er á vegum dómsmrn.

Það var strax ljóst eftir að nefndin hafði hafið störf, að hún gæti fyrir sitt leyti lokið þessari endurskoðun á 2-3 mánuðum. Hins vegar kom fram ósk um það frá fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar í nefndinni, að fram færi sérstök könnun á aðbúnaði farandverkafólks í landinu, og ósk var komið á framfæri við mig um að útgáfu reglugerðar yrði frestað þar til sú könnun lægi fyrir. Ég féllst á þessa málaleitun nefndarinnar og verkalýðssamtakanna. Jafnframt var tekin ákvörðun um það í heilbr.- og trmrn. að fela Heilbrigðiseftirliti ríkisins að láta þessa könnun fara fram á aðbúnaði farandverkafólks víðs vegar í landinu, og var gerð könnun á 70–80 stöðum.

Ég gerði ítarlega grein fyrir þessari könnun í framsöguræðu í gær fyrir frv. til l. um erlent verkafólk á Íslandi. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til að endurtaka niðurstöður könnunarinnar hér, en á grundvelli þeirrar könnunar hefur síðan verið unnið að nýrri tillögugerð um breytingar á heilbrigðisreglugerð í þessum efnum svo og á veitingahúsareglugerð að svo miklu leyti sem hún á hér við. Geri ég ráð fyrir að unnt verði næstu daga að ganga frá þeirri reglugerð sem hér um ræðir. En þeir aðilar, sem eru í nefndinni sem undirbýr reglugerðina, þ.e. fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og fleiri aðilum, hafa nú haft reglugerðardrögin til athugunar, þannig að ég bíð í rauninni eftir niðurstöðu þeirra og síðan yfirferð nefndarinnar á niðurstöðum þeirra síðan athuga ég málið áður en ég get gengið frá þeirri reglugerð sem hv. þm. hefur hér lagt fram fsp. um.