24.02.1981
Sameinað þing: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (2690)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár í tilefni ummæla og yfirlýsinga nokkurra ráðh. og stuðningsmanna ríkisstj. í fjölmiðlum nýverið nm leynisamning eða óbirt samkomulag aðila ríkisstj. varðandi ákvarðanir um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, varnarliðsframkvæmdir eða jafnvel almennt varðandi afgreiðslu meiri háttar mála í ríkisstj.

Tilefni þessara ummæla ráðh. og fleiri er fyrirhuguð bygging þriggja flugskýla á Keflavíkurflugvelli, sem málsvarar Alþb. hafa mótmælt að hæstv. utanrrh. geti leyft upp á sitt eindæmi. Hæstv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, sagði hins vegar í viðtali við Tímann fimmtudaginn 12. febr., með leyfi forseta:

„Í núverandi málefnasamningi stendur ekki einn stafkrókur um, að Alþb. hafi nokkra sérstöðu í ríkisstj., né heldur nokkurt orð um varnarmál eða varnarliðsframkvæmdir að neinu leyti.“

Og Tíminn heldur áfram:

„Hann“ — þ.e. Ólafur — „sagðist að vísu ekki hafa tekið neinn þátt í gerð núverandi málefnasamnings. En sér hafi heldur ekki verið skýrt frá því að gerður hafi verið neinn leynisamningur um þetta atriði. Alþb. gæti því ekki kennt sér um, ef þeim fyndist þeir eitthvað hafa verið hlunnfarnir í þessu sambandi.“

Hæstv. forsrh., Gunnar Thoroddsen, segir í Morgunblaðinu föstudaginn 13. febr.:

„Ég vil ekkert um það segja“ — þ.e. hvort til sé leynisamningur. — „Ég tel enga ástæðu vera til að fjalla um efni samtala í sambandi við stjórnarmyndunina. Það, sem fyrir liggur opinberlega, er stjórnarsáttmálinn.“

Það er von að sú spurning vakni, hvort eitthvað liggi fyrir, sem ekki hefur verið gert opinbert, þegar þetta orðalag hæstv. forsrh. er haft í huga.

Lúðvík Jósepsson segir í Morgunblaðinu 13. febr., sama dag:

„Ég segi ekkert um þetta mál fyrr en ég er búinn að heyra um það, hvernig þetta mál hefur borið að.“ Steingrímur Hermannsson segir í Morgunblaðinu enn sama dag:

„Nei, það er ekki um að ræða neitt samkomulag milli stjórnarsinna um þessi mál.“

Morgunblaðið segir enn fremur: „Steingrímur sagði, að ekki hefði heldur verið gert neitt samkomulag til hliðar við stjórnarsáttmálann, um að öll ríkisstj. yrði að standa að þeim málum er hún ynni að.“

Hins vegar segir Svavar Gestsson í viðtali við Þjóðviljann sama föstudag, 13. febr.:

„Jafnframt skal lögð á það áhersla að milli núverandi stjórnaraðila eru auk þess til reglur um vinnubrögð stjórnarinnar almennt sem allir verða að taka tillit til og snerta öll meiri háttar mál.“

Þennan sama dag hefur Morgunblaðið eftir ónafngreindum forustumanni Alþb. eftirfarandi:

„Það var gert skriflegt samkomulag um tvö atriði við stjórnarmyndunina. Í fyrsta lagi, að forsrh. beitti ekki þingrofsvaldinu án samþykkis allra aðila stjórnarsamstarfsins og hins vegar um það, að engin meiriháttar ákvörðun yrði tekin gegn vilja neins eins stjórnaraðila. Þetta samkomulag undirrituðu forsrh. og formenn Alþb. og Framsfl.“

Laugardaginn 14. febr. segir Ólafur Ragnar Grímsson í viðtali við Morgunblaðið:

„Því var lýst í þingflokknum hvernig yrði unnið í ríkisstj. er stjórnin var mynduð.“

Ólafur Ragnar var spurður, hvort um væri að ræða skriflegt samkomulag, og hann segir:

„Um það vil ég ekkert segja á þessu stigi, þetta er samkomulag sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um.“

Síðan segir Ólafur Ragnar enn í sama viðtali:

„Ég segi það sama um það og ég svaraði útvarpinu: Ég sagði þar, að þessar hernaðarframkvæmdir, sem Ólafur Jóhannesson stefnir að, flugskýlin, flugstöðin, nýjar flugbrautir og fjórföldun eldsneytisbirgðanna, þetta eru slíkar stórbreytingar, að þær koma ekki til greina af okkar hálfu.

Við höfum lagt þessi mál upp í heild sinni, við teljum þessi mál öll tengd og við teljum þetta vera mál sem þurfi að ræðast milli Framsfl. og Alþb.“

Það vekur raunar athygli að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerir ekki ráð fyrir að mál þetta þurfi að ræðast við þriðja samstarfsaðilann í ríkisstj. Hann er bersýnilega núll og nix að áliti Alþb, og Framsfl.

Með tilvísun til þess, sem ég hér hef rakið, vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. forsrh. Gunnars Thoroddsens, hæstv. sjútvrh. Steingríms Hermannssonar formanns Framsfl. og hæstv. félmrh. Svavars Gestssonar formanns Alþb.:

1. Var gert samkomulag, skriflegt eða munnlegt, við myndun núv. ríkisstj. eða síðar um að framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli eða í þágu varnarliðsins yrðu ekki leyfðar nema með samþykki allra aðila er að ríkisstj. standa?

2. Eru til reglur, sem ríkisstj. eða ráðh. hafa sett sér og ekki hafa verið birtar, um að ríkisstj. taki enga ákvörðun í meiri háttar málum nema allir stjórnaraðilar samþykki?

Herra forseti. Ég tel, að þm. og raunar þjóðin öll eigi kröfu á því að fá skýr og ótvíræð svör við þessum spurningum, og vænti þess, að hæstv. ráðh. séu sama sinnis. Það kom mér því mjög á óvart, eftir að ég hafði í morgun gert ráðstafanir til að kynna hæstv. ráðh. efni fsp. minna, að mér voru borin þau skilaboð frá ráðh. að þeir vildu ekki svara þeim. Ég bað um þau skilaboð til baka, að ég sætti mig ekki við skilaboðin frá ráðh. og mundi halda fast við að bera þessar fsp. fram utan dagskrár. Ég geri mér enn vonir um að hæstv. ráðh. hafi hugsað málið betur, breytt um skoðun og svari fsp. mínum nú hér á eftir.