24.02.1981
Sameinað þing: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2514 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Enginn ráðh. í núv. ríkisstj. skorast undan því að svara fsp. hv. þm. utan dagskrár. Hér var eingöngu um að ræða hvort ætti að víkja til hliðar þingmálum einn daginn enn, en marga daga undafarið hafa umræður utan dagskrár verið það langar að þingmál hafa ekki komist að. Nú stendur einmitt þannig á í dag, að frv. um viðnám gegn verðbólgu, staðfesting á brbl. frá því á gamlársdag, er á dagskrá Ed. til 2. umr. og samkomulag um það, eins og kom fram áðan, að reyna að afgreiða það mál bæði við 2. og 3. umr. í dag. Það var eingöngu með það í huga að umr. utan dagskrár eyðilegðu ekki þetta samkomulag um afgreiðslu þingmáls sem búið var að gera, sem þarna var talið hæpið að hefja umr. utan dagskrár. Hins vegar var auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að svara fsp. hv. þm. eftir að hæstv. forseti Sþ. lýsti því yfir, að þessar umr. yrðu ekki leyfðar lengur í dag en til klukkan 4 þannig að fundur hv. Ed. gæti byrjað á þeim tíma.

Í stjórnarsáttmálanum er eitt ákvæði þar sem nefnt er samþykki allrar ríkisstj. Segir þar:

„Áætlanir um flugstöð á Keflavíkurflugvelli verði endurskoðaðar og ekki ráðist í framkvæmdir við hana nema með samkomulagi allrar ríkisstj.

Ég held að í rauninni hljóti allir að hafa verið þá og vera enn sammála um að endurskoðun á áætlunum um byggingu flugstöðvar þar sé óhjákvæmileg þar sem svo mikil óvissa ríkir um Atlantshafsflugið að öllum var ljóst að þær teikningar og áætlanir, sem fyrir lágu áður, gátu ekki átt hér við. Þess vegna hefur hæstv. utanrrh. líka í samræmi við þetta ákvæði látið endurskoða þessar áætlanir.

Að öðru leyti vil ég út af fsp. hv. þm. segja þetta: Frá því er ríkisstj. var mynduð hefur hún kostað kapps um að eiga sem best samstarf í öllum greinum. Hún leitast við að ná samkomulagi um þau mál þar sem skoðanir eru skiptar og menn kann að greina á. Það hefur vel tekist á því röska ári sem stjórnin hefur starfað og það eru engin teikn á lofti um að þar verði breyting á veðurfari.

Um vinnubrögð og vinnulag innan ríkisstj. við afgreiðslu mála tel ég ekki ástæðu til að ræða hér frekar.