24.02.1981
Sameinað þing: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (2694)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þessar umr. eru nú þegar að gerast sögulegar, því það er veigamikil spurning sem fram var lögð þegar formaður eins þingflokkanna óskaði eftir að fá að vita hvort það væri eitthvert formlegt samkomulag milli stjórnarflokkanna annað en birt hefur verið. Þetta er slíkt grundvallaratriði að þjóðin hlýtur að eiga heimtingu að fá við henni skýrt svar. Já eða nei. En forsrh. og félagar hans svara þessu engu.

Þetta er ekki spurning um innri vinnubrögð í ríkisstjórn. Þetta er spurning um allt annað og meira, — spurning um hvort það sé annað samkomulag en það sem birt hefur verið. Og hvað er það sem spurt er um frekar? Það er vísað til tiltekins máls þar sem vitað er að einn af stjórnarflokkunum, sem hefur milli 19 og 20% kjörfylgi í landinu, er á annarri skoðun í meginatriðum en hinir flokkarnir. Því er um það að ræða, hvort íslenskt lýðræði sé komið á það stig að flokkur með tæplega 1/5 af kjörfylgi í landinu geti ráðið opinberri stefnu ríkisins með samningamakki í samsteypustjórn.

Í annan stað er löng hefð um þessi atriði eins og fjöldamörg önnur sem varða verkaskiptingu milli ráðuneyta, hvað er í verkahring einstakra ráðuneyta og hvað er í verkahring ráðuneyta sameiginlega. Ráðuneytin eru nú varta nefnd í stjórnarskránni, hins vegar ráðherrar oft, svo að þeirra vald og aðstaða er æðimikið, og það er alvarlegt og mikilvægt mál ef á að taka ráð af einstökum ráðh. og ákveða að viss mál skuli afgreidd af ríkisstj. allri.

Varðandi framkvæmdir í sambandi við varnarliðið hafa ákvarðanir ávallt verið teknar af utanrrh. Ég get minnt á t.d., að olíustöðin í Hvalfirði, sem er hliðstæð framkvæmd við þá sem nú er deilt um, var byggð á þann hátt, að aldrei var um það mál fjallað eða gerð nein ákvörðun í ríkisstj., og var þó ekki fyrir neinn ágreiningur í grundvallarstefnuatriðum í þeim málaflokki innan ríkisstj. þá eins og nú. Síðan hefur það gerst á hverju einasta hausti, að utanrrh. hefur tekið ákvarðanir um þessi mál. Hér hefur verið um að ræða um langt árabil 15–20 millj. dollara framkvæmdir af ýmsu tagi.

Ég vil ítreka það, að ég harma að hæstv. forsrh. skuli láta það koma fyrir og það skuli standa í þingtíðindum héðan í frá, að hann sé ekki reiðubúinn að skýra þjóðinni frá því, hvort gert hafi verið eitthvert leynilegt samkomulag milli stjórnarflokkanna eða ekki. Við slíkt getur þjóðin alls ekki unað.