24.02.1981
Sameinað þing: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég get tæpast þakkað hæstv. ráðherrum svörin, nema að því leyti að þögn þeirra og efnisinnihaldið, svo rýrt sem það var, segir sína sögu og af því er hægt að draga ákveðnar ályktanir.

Ég vil láta það koma alveg skýrt fram, að þegar ég gerði ráðherrum aðvart um þetta mál í morgun var áskilið að samkomulagið yrði auðvitað haldið um afgreiðslu brbl. eins og formenn þingflokkanna höfðu komið sér saman um. Sannleikurinn er sá, og það sýnir aðdragandi þessara fsp. og undirbúningur þessara umræðna, að hæstv. ráðh. ætluðu að skjóta sér undan að svara. Þetta var feimnismál af þeirra hálfu. Þeir höfðu ekki svörin tiltæk. Þeir eru ekki sammála, að því er virðist, um hvernig svara skuti. Þeim hefur ekki tekist að koma sér saman, eins og hæstv. forsrh. talaði allfjálglega um að þeir legðu áherslu á.

Hér kemur það fram, að hæstv. forsrh. talar fyrir hönd Alþb. og talar fyrir hönd Framsfl. Formenn þessara flokka hafa áður opinberlega sagt sína skoðun í þessum efnum og þeim bar þá ekki saman.

Steingrímur Hermannsson, formaður Framsfl., sagði að það hefði ekki verið gert neitt samkomulag til hliðar við stjórnarsáttmálann um að öll ríkisstj. yrði að standa að þeim málum er hún ynni að. Og nú vil ég spyrja hæstv. sjútvrh., formann Framsfl.:

Stendur hann við þessi orð, sem birtust í Morgunblaðinu 13. febr. ? Er þetta satt? Og ég ætlast til svars. Já eða nei dugar mér.

Þá hefur verið haft eftir hæstv. félmrh., Svavari Gestssyni, og það í Þjóðviljanum, svo varla dregur hann þau orð í efa. Hæstv. félmrh., formaður Alþb., segir 13. febrúar eftirfarandi:

„Jafnframt skal lögð á það áhersla að milli núverandi stjórnaraðila eru auk þess til reglur um vinnubrögð stjórnarinnar almennt sem allir verða að taka tillit til og snerta öll meiri háttar mál.“

Er hér rétt eftir hæstv. félmrh., formanni Alþb., haft í hans eigin blaði? Það segir sína sögu ef svo er. Þá er til leynisamningur, reglur sem ríkisstj. hefur samþykkt að fara eftir — eða með orðalagi hæstv. félmrh.: „sem allir verða að taka tillit til og snerta öll meiri háttar mál.“

Það er ekki hægt að koma þessum orðum hæstv. félmrh. og hæstv. sjútvrh. heim og saman. Og í þeim tilgangi að fá upplýst, hvor þeirra hefði rétt fyrir sér, var hæstv. forsrh. einnig spurður hér í dag, en hann svarar engu. Ég ítreka að þingheimur og þjóðin öll á kröfu á að vita hið sanna og rétta í málinu.

Það verður þó að álykta, meðan annað fæst ekki upplýst, að hæstv. utanrrh. hafi fullt og óskorað vald til að leyfa framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, eins og t.d. byggingu olíugeymanna í Helguvík, eins og t.d. byggingu þriggja flugskýla, og andmæli Alþb.-manna við slíkum framkvæmdum hafi ekkert við að styðjast, þeir hafi engan rétt til þess samkvæmt stjórnarsamningnum er þjóðin hefur fengið birtan, að hreyfa legg né lið gegn framkvæmdum sem þessum. Allt tal þeirra um annað er atgert fleipur.

Ég vil láta þetta koma hér fram og ítreka jafnframt áskorun mína til hæstv. forsrh. og spurningar mínar til annarra hæstv. ráðh. Þeim er skylt að svara þeim fsp. sem ég hef varpað hér fram. Þjóðin og þingheimur eiga kröfu á því.