24.02.1981
Sameinað þing: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er síður en svo nokkurt aðhlátursefni eða gamanmál sem hér er á ferðinni. Hér er um það að ræða að látið hefur verið í veðri vaka opinberlega, þ. á m. af einu málgagni núv. hæstv. ríkisstj., að í gildi sé samkomulag milli þeirra aðila sem að ríkisstj. standa, til viðbótar við það samkomulag sem hefur verið gert þjóðinni kunnugt héðan frá Alþingi. Það er látið í veðri vaka af þessu sama blaði og þessum sama flokki að samkomulagið sé á þann veg, að einum aðila ríkisstj., sem aðeins, eins og komið hefur fram, nýtur stuðnings innan við fimmta hvers kjósanda í þessu landi, sé selt sjálfdæmi, sé afhent neitunarvald í málum sem falla undir forræði ráðh. úr öðrum flokki. Hæstv. forsrh. var spurður að því héðan úr ræðustól á Alþingi hvort þetta væri rétt. Hæstv. forsrh. vék sér undan að svara þessari spurningu.

Herra forseti. Það þarf ekki að skipa neina rannsóknarnefnd til að teita að leynisamningum. Hæstv. forsrh. getur með einu orði sjálfur kveðið upp úr um hvort eitthvað svona samkomulag sé gert. En þó að hæstv. forsrh. hafi komið tvívegis hingað upp í ræðustólinn skýtur hann sér undan að gera það.

Hæstv, félmrh. og formaður Alþb. gekk hingað upp í ræðustól í fótspor hæstv. forsrh. til að ítreka þann skilning sinn og Þjóðviljans að slíkt samkomulag væri í rauninni fyrir hendi, öðruvísi urðu orð hans ekki skilin áðan en að svo sé.

Það sýnir vinnubrögðin. Sá maður, sem á þarna mest í hættu og mest í húfi, maðurinn sem á að fara með stjórn utanríkismála í þessu landi og hefur verið valinn til þess af flokksbræðrum sínum, hagar orðum sínum svo á opinberum vettvangi, að það verður ekki séð betur en hann hafi seint og um síðir fengið nasasjón af því að gert hafi verið af formanni hans eigin flokks eitthvert samkomulag sem hann ekki veit um, en sviptir hann að verulegu leyti forræði í því starfi sem hann hefur verið valinn til og tekið að sér. Það er dæmi um hvernig að málum er nú staðið í Framsfl., að hv. formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, og formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Páll Pétursson, skuli geta látið það á sig sannast að forráðamenn annarra flokka gangi á þeirra fund til að bera upp kvartanir og kæra fyrrv. formann Framsfl., Ólaf Jóhannesson, fyrir núv. formanni flokksins án þess að gefa honum tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér hvað þá annað. Þetta sýnir þvílíkt ógnartak Alþb. hefur á Framsfl., að formaður flokksins, Steingrímur Hermannsson, skuli geta látið það á sig sannast, að forveri hans, hinn gamli leiðtogi Framsfl., sé kærður fyrir honum af kommúnistum án þess að hafa svo mikið sem tækifæri til að vera viðstaddur þann kærufund. Það sýnir hvert risið á Framsfl. er orðið, að Ólafur Jóhannesson skuli vera kærður fyrir Páli Péturssyni. Ekki eru það glæsileg örlög fyrir þann gamla foringja né þann gamla flokk.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara öllu fleiri orðum hér um, en það er ljóst eftir þessar umr., þar sem því hefur ekki verið mótmælt, heldur þvert á móti grunur manna styrktur í því, að einhvers konar samkomulag hafi verið gert, hvort sem það eru kallaðar vinnureglur eða eitthvað annað, sem gefur Alþb., flokki sem aðeins nýtur stuðnings eins af hverjum fimm Íslendingum, algjört forræði í utanríkismálum landsins um allar framkvæmdir á því sviði með því að afhenda þessum flokki neitunarvald og gera það án þess svo mikið sem láta þess getið við þann mann sem á um málin að fjalla, utanrrh., fyrrum formann Framsfl., sem er nú orðinn að kæruefni hjá núv. formanni Framsfl., Steingrími Hermannssyni.

Það eitt út af fyrir sig sýnir hvílíkt heljartak Alþb. og kommúnistar hafa á Steingrími Hermannssyni og öðrum þeim sem nú hafa valist til formennsku og forustu í Framsfl.