24.02.1981
Efri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (2700)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur haft þetta frv. til meðferðar og fjallað ítarlega um það í samvinnu við fjh.- og viðskn. Nd. Nefndin hefur fengið á sinn fund fulltrúa Seðlabanka Íslands, Þjóðhagsstofnunar og enn fremur fengið gögn og yfirlýsingar frá ýmsum öðrum aðilum, svo sem Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, auk gagna sem nefndin hefur fengið frá Hagstofu Íslands og yfirlýsingar frá hæstv. viðskrh. Tveir nm., hv. þm. Lárus Jónsson og Eyjólfur Konráð Jónsson, hafa verið svo vinsamlegir að prenta mikið af þessum gögnum í nál. sínu og ber að þakka þeim fyrir þá þjónustu við þingheim. Er sjálfsagt að gera nál. þeirra myndarlegra í hendi með því að láta þessi gögn þar koma fram. Ég sé því ekki ástæðu til að vera að rekja það ítarlega, sem fram kom hjá þessum aðilum, þar eð það liggur fyrir í áliti 1. minni hl. nefndarinnar.

Við, sem myndum meiri hl. fjh.- og viðskn., leggjum til að þetta frv. verði samþykkt og þau brbl., sem ríkisstj. gaf út á gamlársdag, þar með staðfest. Það hefur greinilega komið í ljós, að þessi brbl. njóta yfirgnæfandi stuðnings þjóðarinnar og mikill fjöldi fólks og samtaka hér í landinu hefur með beinum og óbeinum hætti lýst stuðningi sínum við þessa aðgerð. Við erum þeirrar skoðunar, eins og þorri þjóðarinnar, að hér sé um að ræða veigamikið skref í barráttunni gegn verðbólgunni, — skref sem felur í sér verulegan árangur í þeirri baráttu án þess að til atvinnuleysis sé efnt í þessu landi, án þess að kjör almennings í þessu landi séu skert og án þess að efnt sé til ófriðar innanlands milli aðila eða þjóðfélagshópa um efnahagsaðgerðirnar. Það er mjög ánægjulegt og farsælt að ríkisstj. skuli veita þjóðinni slíka forustu að geta lagt upp slíkan árangur í baráttunni gegn verðbólgunni og á sama tíma tryggja kjör alls þorra launafólks í landinu tryggja atvinnuöryggi, tryggja vinnufrið og tryggja þá þjóðfélagslegu samstöðu sem nauðsynleg er eigi slíkar efnahagsaðgerðir að bera árangur.

Ásamt því frv., sem hér liggur fyrir, gaf ríkisstj. út sérstaka efnahagsáætlun, sem unnið er eftir. Hluta þessarar efnahagsáætlunar hefur þegar verið hrundið í framkvæmd og nú þessa dagana er verið að hrinda í framkvæmd ýmsum öðrum þáttum efnahagsáætlunarinnar. Ríkisstj. hefur þegar skipað sérstaka viðræðunefnd af sinni hálfu til að eiga viðræður við samtök launafólks og hagsmunasamtök atvinnulífsins á næstu vikum um mótun varanlegra efnahagsaðgerða fyrir árin 1981 og 1982. Þær viðræður munu tvímælalaust leggja grundvöllinn að því, að áfram verði haldið á þeirri braut sem mörkuð var með brbl. á gamlársdag, svo að árangur verði í baráttunni gegn verðbólgunni og þeim skilyrðum öðrum, sem ég gat um áðan í máli mínu, verði einnig fullnægt á þeim tíma sem eftir er af þessu ári og einnig á árinu 1982. Enn fremur er í brbl. og efnahagsáætluninni ákvæði um skattalækkanir og ákvæði um vaxtalækkanir. Að þessum atriðum hefur verið unnið og verður unnið og niðurstöður þeirra verða tilkynntar jafnvel að hluta til í umr. síðar í dag eða þá næstu daga. Ber vissulega að fagna því, að slíkur stjórnmálalegur og efnahagslegur árangur skuli hafa náðst.

Það er athyglisvert að á sama tíma og ríkisstj. sýnir órofa samstöðu með skynsamlegum aðgerðum af þessu tagi skuli það gerast hér á Alþingi að stjórnarandstaðan klofnar innbyrðis og flytur algerar sýndartillögur í efnahagsmálum. Það er rétt að hv. deild, þingheimur allur og þjóðin veiti því athygli, að stjórnarandstöðuflokkarnir tveir, flokksbrot Geirs Hallgrímssonar, sem hefur innan við 10% þjóðarinnar á bak við sig í þessu máli samkv. skoðanakönnunum, og þm. Alþfl., sem hafa rétt um helming kjósenda eigin flokks á bak við sig í andstöðunni við þessi brbl., — þessir tveir stjórnarandstöðuaðilar á Alþingi hafa ekki getað komið sér saman um tillögur í efnahagsmálum. Það liggur því ljóst fyrir, skjalfest með þeim þskj. sem lögð hafa verið til grundvallar í þessari umr., að stjórnarandstaðan er klofin, stjórnarandstaðan er sundruð, hún hefur ekki kraft og mátt eða pólitískt þrek til að standa að sameiginlegum tillögum í efnahagsmálum. Það undirstrikar betur en nokkuð annað að ekki er til nokkur annar meiri hluti á Alþ. fyrir samræmdum og sameiginlegum tillögum í baráttunni gegn verðbólgunni en sá sem styður þær tillögur sem núv. hæstv. ríkisstj. stendur að. Stjórnarandstaðan hefur berlega afhjúpað innri sundrung sína með þeim tveimur nál., sem hún hefur flutt, og þeim tillögum sem Alþfl. annars vegar og flokksbrot Sjálfstfl. hins vegar standa að. Þetta er annað meginatriðið í þeirri pólitísku staðreynd sem stjórnarandstaðan afhjúpar í þessari umr.

Hitt atriðið, sem stjórnarandstaðan afhjúpar einnig, er hve gersamleg sýndarmennska einkennir tillögugerð þeirra í efnahagsmálum. Þeir leggja fram tillögur um skattalækkanir, sem eru þó á þann veg, að ekki er gerð nein grein fyrir því, hvernig eigi að skera niður ríkisframkvæmdir og ríkisrekstur á móti 10–15 milljarða lækkunum sem hv. stjórnarandstaða leggur til. Ég hélt satt að segja að sá tími væri liðinn í íslenskum stjórnmálum að menn legðu fram sýndartillögur af þessu tagi. Þetta tíðkaðist hér áður fyrr. Þá töldu menn þjóðina og þingheim svo vanþroska að það væri hægt að veifa framan í fólk tillögum um skattalækkanir án þess að spurningin væri sett fram: Hvað á skera niður á móti? En það er einmitt þessi barnaskapur, þetta ábyrgðarleysi sem báðir aðilar núverandi stjórnarandstöðu hafa gert sig seka um og eru því samferða í þessu atriði einu. Þetta er það eina sem þeir hafa getað náð saman um í stjórnarandstöðunni við þetta frv., að leggja fram skattalækkunartillögur án þess að hafa kjark til að segja þjóðinni hvað eigi að skera niður á móti. Hvað á að skera niður í heilbrigðiskerfinu? Hvað á að skera niður í skólakerfinu? Hvað á að skera niður af framkvæmdum? Hvað á að skera niður í tryggingakerfinu? — Við þessu eru engin svör. Það eru engin svör við þessum spurningum því að þeir aðilar stjórnarandstöðunnar, sem flytja tillögur af þessu tagi, hafa ekki pólitískan kjark til að koma fram fyrir þjóðina og botna vísuna.

Efnahagstillögur stjórnarandstöðunnar, brtt. við þetta frv., eru því með stóru gati. Þær ganga einfaldlega ekki upp. Þær sýna að stjórnarandstaðan hefur hvorki pólitískt þrek né innri samstöðu til þess að takast á við efnahagsvanda þjóðarinnar því að hún þorir ekki að flytja hér í þingsölum nema hálfkveðnar vísur. Fyrr en hv. fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjh.- og viðskn. og hér í deildinni hafa kjark til að flytja ásamt skattalækkunartillögum sínum tillögur um hvað eigi að skera niður, hvað eigi að skera niður af framkvæmdum til sjúkrahúsa, til skóla, til tryggingamála og annarra veigamikilla þátta í ríkisbúskapnum, verður ekki tekið mark á sýndartillögum á borð við þær sem nú eru fluttar.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því, hvort samflokksmenn þessara aðila í hv. Nd. þessa þings munu taka upp sams konar tillögur. Vissulega verður það fróðlegt, því að þá mun liggja fyrir að gjörvöll stjórnarandstaðan á Alþingi Íslendinga er bæði innbyrðis sundruð og getulaus til þess að setja fram fullbúnar efnahagstillögur. Ég held að sá víðtæki stuðningur, sem efnahagsaðgerðir ríkisstj. um síðustu áramót hafa fengið, sýni rækilega að þjóðin sér að þeir aðilar, sem nú eru í stjórnarandstöðu, eru á engan hátt megnugir þess að stýra þjóðinni í baráttunni gegn verðbólgunni.

Um leið og við í meiri hl. fjh.- og viðskn. leggjum til að þetta frv. verði samþ. vísum við til efnahagsáætlunar ríkisstj. og þeirra fjölmörgu atriða annarra, sem verið er að vinna að á vegum ríkisstj. þessa dagana eða hefur nú þegar verið lokið við frá því að brbl. voru sett, og þeirrar samvinnu, sem ríkisstj. hefur þegar lagt grundvöll að við samtök launafólks og önnur samtök atvinnulífsins á næstu vikum og mánuðum í því skyni að móta til ársins 1981 og ársins 1982 samræmda og varanlega stefnu sem tryggir fulla atvinnu í landinu, tryggir kjör alls atmennings í landinu og tryggir varanlegan og verulegan árangur í baráttunni gegn verðbólgunni.