24.02.1981
Efri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (2704)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Um leið og brbl. ríkisstj., sem gefin voru út á gamlársdag, eru til afgreiðslu hér á Alþingi við 2. umr. í Ed. þykir mér rétt að skýra frá því, að ákveðið hefur verið að verja 100 millj. nýkr. eða um 10 milljörðum gkr. til skattalækkana sem svara til 11/2% í kaupmætti lágra launa og meðallauna.

Eins og kunnugt er gaf ríkisstj. út þá yfirlýsingu í tengslum við útgáfu brbl á gamlárskvöld, að til að vega upp á móti þeirri kaupmáttarrýrnun, sem hugsanlega gæti orðið af efnahagsráðstöfunum ríkisstj., mundi ríkisstj. tryggja skattalækkun sem svaraði til 11/2% í kaupmætti launa. Ríkisstj. hefur átt ítarlegar viðræður við fulltrúa miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um það atriði, með hvaða hætti þetta verði best framkvæmt. Ákvörðun hefur nú verið tekin á grundvelli þessara viðræðna.

Eins og skattalögin eru núna óbreytt er lagt 1.5% sjúkratryggingagjald á tekjur allt að 6.5 millj. gkr., miðað við þá hækkun skattvísitölu sem ákveðin hefur verið í fjárlögum, en þessi skattur er 2% á tekjur þar fyrir ofan. Sjúkratryggingagjald er brúttóskattur,eins og kunnugt er, og rennur alfarið í ríkissjóð og því er hér um að ræða hluta af tekjusköttum ríkisins, sem hér er hreyft við. Áformað er og ákveðið hefur verið að afnema þennan skatt með öllu af tekjum upp að 6.75 gömlum millj. eða 67 500 nýkr., en skatturinn verður áfram 2% á tekjur þar fyrir ofan.

Svo að dæmi sé nefnt leiðir þessi breyting á tekjusköttum til 1.5–1.8% skattalækkunar á tekjubilinu milli 4 og 10 millj. gkr., en að sjálfsögðu er það nokkuð mismunandi á hverju tekjubili hversu mikil skattalækkunin er. Þetta, sem ég nefndi nú, eru hins vegar meðaltalstölur, 1.5–1.8% á tekjubilinu milli 4 og 10 millj. kr.

Einnig verður persónuafsláttur nokkuð hækkaður og verður væntanlega um 760 þús gkr. eða 7610 nýkr. Nokkrar fleiri breytingar verða gerðar á skattstigum í þessu sambandi sem nánari grein verður gerð fyrir síðar.

Eins og hæstv. félmrh. gerði grein fyrir hér á undan mér kemur þess skattalækkun illa til skila til þeirra sem lifa eingöngu á tekjutryggingu og heimilisuppbót Tryggingastofnunar ríkisins. Þess vegna hefur verið ákveðið, eins og hann gerði hér grein fyrir, að hækka þessar bætur 1. mars n.k. um 8% umfram þá hækkun sem verður þá á almennum launum vegna hækkunar verðbóta um 5.95%. Því er það svo, eins og hann gerði grein fyrir, að kaupmáttur tekjutryggingar verður verulega miklu meiri á þessu ári þar sem hækkanir 1. júní, 1. sept. og 1. des. miðast við óskerta framfærsluvísitölu, en ekki þá skertu verðbótavísitölu sem áður var í gildi. Tryggingabætur hækka því meira en orðið hefði án þessara efnahagsaðgerða.

Útreikningar á þessari skattalækkun eru miðaðir við ákveðnar breytingar sem gera verður á tekjuskatti áður en þessi skattalækkun upp á 1.5% bætist þar við þar sem í fjárlögum er miðað við skattvísitölu 145. Áformað er að breyta skattstigum og hækka persónuafslátt nokkuð og verður varið til þess þeim 4 milljörðum sem ráð var fyrir gert að í þessu skyni yrði varið við fjárlagaafgreiðslu, auk 1 milljarðs til viðbótar, eða samtals 5 milljörðum gkr. eða 50 millj. nýkr.

Eftir þær breytingar, sem má segja að séu gerðar til að skapa ákveðinn núllgrunn til að miða skattalækkunina við, er skattbyrðin nákvæmlega sama á meðaltekjur og hún hefði orðið ef skattvísitalan hefði verið ákveðin 151 í fjárlögum. Það er út frá þessum grunni sem svo er aftur reiknuð 1.5% skattalækkun í samræmi við yfirlýsingar ríkisstj. frá því á gamlársdag. Þá stenst auðvitað engan veginn, sem sumir stjórnarandstæðingar hafa gjarnan viljað segja og láta líta út fyrir, að fyrst hafi verið framkvæmd skattahækkun og svo sé nú verið að gefa til baka það sem áður hefur verið tekið. Grunnurinn er reiknaður upp á nýtt miðað við fjárlagatölur, því að fjárlagatölurnar eru nefnilega ekki í samræmi við skattvísitölu 145, og varið til hækkunar á skattþrepum 5 milljörðum gkr. Þar af var gert ráð fyrir 4 milljörðum í fjárlögum, en 1 milljarður bætist við, þannig að þegar þessi núllgrunnur er reiknaður er fjárlagatalan raunverulega orðin 1 milljarði lægri eða innheimtar tekjur af tekjuskatti eru orðnar 1 milljarði lægri en fjárlagatalan gerir ráð fyrir. Skattalækkunin bætist svo hér við og er upp á 9 milljarða. Skattalækkunin mun sem samt minnka tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti um sem svarar 9 milljörðum gkr., miðað við fjárlagatölur, en aukning tryggingabóta mun kosta 1 milljarð gkr., miðað við fjárlög ársins.

Þetta vildi ég að kæmi fram við afgreiðslu þessa máls. (LJ: Er þetta ekki alger sýndarmennska, sbr. orð formanns fjh.- og viðskn. áðan?) Ja, nú veit ég ekki hvað þm. á við, því að ég hef líklega ekki heyrt þau orð og get því engu svarað. En ætli sé ekki réttast að þm. beini þessari spurningu til einhvers annars en mín. Ég var víst ekki hér inni þegar þau ummæli, sem hér er vitnað til voru látin falla. — En ég held hins vegar að það fari ekkert milli mála að hér hefur verið tekin ákvörðun um skattalækkun upp á 1.5%, miðað við kaupmátt launa. Ég held að það sé óumdeilanlegt að þetta sé rétt reiknað dæmi, en vissulega munu alþm. fá betra tækifæri til að átta sig á útreikningunum á síðara stigi. Við þetta tækifæri er ekki hægt að gera nánari grein fyrir þessum útreikningum.

Ég vil láta þessa getið hér, að á fundi með fulltrúum Alþýðusambands Íslands, sem haldinn var í fjmrn. í dag, voru mættir af hálfu Alþýðusambands Íslands Ásmundur Stefánsson, Björn Þórhallsson, Jón Helgason og Guðmundur J. Guðmundsson. Þessir fulltrúar Alþýðusambandsins lýstu því yfir á fundinum, að þeir teldu að með þessari ákvörðun hefði ríkisstj. fyllilega staðið við það loforð sitt að lækka skatta sem svarar 1.5% miðað við kaupmátt launa.