24.02.1981
Efri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2539 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. 2. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég tel að það sé ánægjulegt að þessi umfjöllun hafi orðið til þess að ýta svolítið við ríkisstj., þó að eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., þetta væri dálítið ófullburða enn þá og ekki hægt að gera fullkomna grein fyrir því. Það eru ekki nema bráðum tveir mánuðir síðan yfirlýsingin var gefin svo að kannske er ekki von að menn séu komnir lengra í þeim herbúðum, miðað við það sem menn hafa kynnst í þeim efnum. En ég held að það eigi við í þessu efni að ráðh. hafi sest niður og reiknað á elleftu stundu einu sinni enn. Það er auðvitað góðra gjalda vert að hann hafi sig í það að reikna stöku sinnum, þó að það sé á elleftu stundu.

Út af þessum skattahugmyndum ríkisstj., — því að ekki eru þetta tillögur, þetta er aðeins skárra en yfirlýsingin á gamlárskvöld, en ekki geta þetta talist fullmótaðar tillögur og eru hér ýmsir lausir endar, — en út af þessu vil ég benda sérstaklega á það atriði sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh.

Hann talaði um skattalækkun frá fjárlagatölum upp á 9 milljarða gkr. Þó var 1 milljarður einhvers staðar að dingla sitt hvorum megin við fjárlagatöluna. En látum það nú gott heita að þetta sé skattalækkun frá fjárlagatölunni upp á 9 milljarða gkr. Það verður að benda á að skattatala fjárlaganna er 5.5 milljörðum kr. hærri en óbreytt greiðslubyrði milli áranna. Fyrir því hef ég útreikninga. Þá getur hæstv. ráðh. fengið hjá Þjóðhagsstofnun, svo að það dugar lítið að hrista hausinn yfir því. Þannig eru málin. Þannig er raunveruleg skattalækkun samkv. þeim hugmyndadrögum, sem hæstv. ráðh. kynnir, ekki 9 milljarðar gkr., heldur 3.5 milljarðar gkr. (ÓRG: Þetta er bara rugl hjá þm.) Ég held að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ætti að skoða tölurnar betur áður en hann heldur því fram að hér sé farið með rangt mál. Þetta getur hann fengið staðfest ef hann bara vilt setja sig inn í málin.

Ég hef gert hér skilmerkilega grein fyrir því, að til þess að halda óbreyttri skattbyrði milli áranna verður álagningartalan að vera 5.5 milljörðum kr, lægri en er í fjárlögum. Sú skattalækkun, sem ráðh. er hér að tala um, er upp á 3.5 milljarða að því er varðar lækkun á greiðslubyrði milli ára. En mér sýnist að hæstv. ráðh. hafi tekist dálítið snoturlega að nýta þessa upphæð, 3.5 milljarða, ef út úr því kemur upp á punkt og prik allar tekjur upp í 10 millj. kr. séu með 1.8% skattalækkun, en að vísu frá fjárlögum. (Fjmrh.: 1.5–1.8) 1.5–1.8. Ef við bara lítum á þetta beint er það um þriðjungur þeirrar tölu sem er raunveruleg lækkun í greiðslubyrði eða 0.5–0.6. Það ætti ráðh. að athuga og líta á og kynna þjóðinni nákvæmlega.

Auðvitað er gott að ráðh. skuli vera á leiðinni með þetta og er góðra gjalda vert. Ef hann stígur eitt svona skref á hverju kvöldi þarf hann ekki nema eins og 3–4 kvöld. Þá mundi hann geta talað um að hafa efnt það loforð sem gefið var á gamlárskvöld.

Ég læt líka í ljós ánægju mína með það, að ríkisstj. skuli hafa áttað sig á því, að það væri ekki vel við hæfi að allt gamalt fólk og öryrkjar tækju á sig þá 7% kjaraskerðingu sem boðuð hefur verið. Hæstv. félmrh. taldi að ríkisstj. hefði samþykkt í morgun sérstaka hækkun á tekjutryggingu og heimilisuppbót til aldraðra og öryrkja sem nemur 8%. Sumir munu telja að það dugi ekki ríkisstjórnarsamþykkt fyrir þessu, heldur þurfi lagasetningu, en það koma þá væntanlega lög um þetta. (ÓRG: Reglugerð.) Ég held að hv. þm. ætti líka að lesa lögin um almannatryggingar. (Gripið fram í.) Ég er bara að segja þm. hvað hann eigi að gera til þess að vera sæmilega að sér í þessum efnum.

En það er annað í þessu. Auðvitað er það góðra gjalda vert og mjög ánægjulegt að þarna skuli vera fyrirhuguð 8% hækkun á tekjutryggingu og heimilisuppbót. En ég vek athygli á því, að það eru mjög margir lífeyrisþegar sem ekki hafa sérlega miklar tekjur, en eru ekki á tekjutryggingu. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessum tillögum að komið sé á nokkurn hátt til móts við þá. Ég þekki marga slíka. Ég veit ekki betur en þeir teljist meðal þeirra hér í þjóðfélaginu sem ekki hafa það allt of gott og teljast í hópi þeirra tekjulægstu og mundu lítið fá út úr þessum skattatillögum hæstv. fjmrh. Hér er stór hópur fólks skilinn eftir. Í till. okkar vildum við mæta þessu með tvennum hætti: Í fyrsta lagi með því að skerðingin á tryggingabótum almennt um 7%, sem fyrirhuguð er, en hefur nú verið tekin til baka að því er varðar ákveðinn hluta af þessum hóp, yrði alls ekki látin fram ganga, og í annan stað með útgreiðslu á ónýttum persónuafslætti hjá þeim sem lenda að öðrum kosti utanveltu í þessu kerfi. — En þetta er náttúrlega til marks um það, að ákvörðunin hafi verið tekin á síðustu stundu. Ég vona að þegar ríkisstj. hefur verið bent á þessi atriði sjái hún að sér og taki þau til athugunar og flytji nú tillögur um lagfæringar. Eitt skref á dag er í áttina.