24.02.1981
Efri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (2706)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm.1. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Þeir skemmtilegu atburðir, sem skeð hafa hér í hv. Ed. núna við 2. umr. þessa máls, sýna í fyrsta lagi að það er rétt sem ég sagði áðan, að það er með ólíkindum hvernig þessi lög voru úr garði gerð frá hálfu hæstv. ríkisstj. Í þeim var ekki að finna eitt einasta ákvæði sem tryggði hag elli- og örorkulífeyrisþega og táglaunafólks í landinu, þrátt fyrir stórfelldari skerðingu á verðbótum á laun og tryggingabætur en menn eiga að venjast.

En ég verð að segja það, að geti hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem hér var að tala áðan, með einhverjum rétti talað um sýndarmennsku, þá getur hann sannarlega talað um sýndarmennsku fylgismanna sinna við þessa umr. Þetta frv. um brbl. ríkisstj. er samkv. mínu almanaki búið að vera í 55 daga í meðferð Alþingis eftir að brbl. voru gefin út. (ÓRG: Í meðferð Alþingis? Nei, nei.) Í meðferð Alþingis að vissu leyti. Þm. voru í jólaleyfi, en þeir fengu þetta frv. í hausinn í jólaleyfinu. Síðan eru að vísu ekki komnir svona margir vinnudagar Alþingis, en menn hafa haft tækifæri til að kynna sér þetta. — Fjárhags- og viðskiptanefndir beggja deilda hafa verið að störfum síðan Alþingi kom saman úr jólaleyfi og hafa fengið til sín fjölda manna til að spyrja þá um ákvæði þessara laga. Að vísu var tekið upp það nýmæli núna að ljósrita umsagnir aðila vinnumarkaðarins upp úr blöðum og átti ekki að vera þörf á því að tala neitt við þá mætu menn. Þar er brotið í blað. (ÓRG: Þetta er nú ekki alveg rétt frá sagt.) Verður sjálfsagt hægt að vitna til þess síðar. Ég óskaði eftir því, eftir að ég kom til starfa í hv. fjh.- og viðskn., — ég þurfti að bregða mér í burtu, — að fá umsagnir þessara aðila. Ég vildi þá ekkert vera að tefja málið með því að biðja þá um að koma á fund nefndarinnar og fékk þær. — Ég veit vel hvað hv. þm. á við, og ég skal leiðrétta það ef hann vill endilega misskilja orð mín þannig. Það mun hafa verið samþykkt í n. áður en ég kom þangað að láta nægja að fá umsagnir þessara aðila án þess að tala við þá.

En það var ekki það sem ég ætlaði að gera hér að umræðuefni, heldur það, að þráfaldlega hefur verið að því spurt að því er varðar þessi atriði, sem hér hafa verið upplýst núna frá hálfu hæstv. ríkisstj. og voru til umr. í ríkisstj. í morgun og fjmrn. í dag, — það hefur þráfaldlega verið spurt að því þennan tíma sem þetta mál hefur verið til umr., hvað hæstv. ríkisstj. hygðist gera í þessum efnum og hvað ákvæði 5. gr. um skerðingu verðbóta á laun þýddu að því er varðar bætur almannatrygginga. Ég trúi því ekki, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson neiti því, að á síðasta fundi, þegar ég lagði fram okkar brtt., lá fyrir bréf frá hagstofustjóra og þá fengum við ekki önnur svör í hv. fjh.- og viðskn. en að þessi skerðing næði til almannatryggingabóta. Svo koma menn hér og segja að það hafi að sjálfsögðu allan tímann, frá því að þessi lög voru gefin út, verið ætlun ríkisstj. að framkvæma þessi lög með þeim hætti að bótaþegar almannatrygginga fengju sérstakar bætur.

Hér er mikil sýndarmennska á ferðinni. En hér er annað á ferðinni. Þetta sýnir að hæstv. ríkisstj. er hrædd. Hún hefur orðið hrædd við gerðir sínar. Hún hefur áttað sig á hversu flausturslega hún stóð að þessari lagasetningu. Hún hefur orðið hrædd og hræddir menn gera ekki alltaf rétt.

Það vill svo til að í þessu efni hafa menn af einhverjum undarlegum ástæðum, og þá kannske af því að þessi ákvörðun var líka tekin í flýti, ekki áttað sig á að þeir hugsa sér að bætur þeirra, sem hafa tekjutryggingu eina til lífsframfæris, skerðist þrátt fyrir allt um 0.37% miðað við framfærsluvísitölu. Það liggur á borðinu í sambandi við það sem hæstv. ráðh. sagði. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hristir höfuðið. Ég sé að hann hefur ekki tekið eftir því, hvað hæstv. ráðh. sagði. (ÓRG: Jú, jú.) Hann getur þá kannske tekið þátt í því með mér hér á eftir, því að ég mun flytja brtt. við 3. umr. til þess að tryggja að þetta verði alveg á hreinu, svo að það verði enginn misskilningur í því, að þeir, sem njóta tekjutryggingar og hafa heimilisuppbót, njóti sömu hækkunar 1. mars og verður á framfærsluvísitölu — og hv. þm. Stefán Jónsson getur tekið þátt í því með mér líka.

En út af vinnubrögðunum vil ég enn vekja athygli á því, að svo grandvar maður sem ég hygg að allir þm. viðurkenni að Klemens Tryggvason hagstofustjóri er segir orðrétt í bréfi sem ég vísaði til áðan, sem hann skrifar nefndinni:

„Að því er varðar spurningu nefndarinnar um hvort ákvæði 5. gr. um 7 prósentustiga skerðingu vísitölubóta taki „til útreikninga á bótum almannatrygginga“, skal eftirfarandi tekið fram: Svo er ekki beinlínis, enda er í brbl. aðeins kveðið á um verðbætur á laun. Hins vegar mun skerðing verðbóta í framkvæmd ávallt hafa gilt gagnvart bótum almannatrygginga, nema annað hafi verið ákveðið sérstaklega“ o.s.frv.

Hæstv. ríkisstj. er hér því í algerum skammarkrók. (StJ: Grandvarir menn geta haft rangt fyrir sér.) Það má vel vera að þeir geti haft rangt fyrir sér, en það mun þá vera í fyrsta skipti sem einhver hv. þm. treystist hér til þess að vefengja orð Klemens Tryggvasonar um slík efni. — Hér er því verið að viðurkenna hversu flausturslega var að þessum lögum staðið og hversu óréttlátlega var að þessum lögum staðið að því er þetta varðar og svo margt annað sem ég hef hér áður bent á. Og ég vek enn athygli á því, að umrædd samþykkt var gerð í ríkisstj. í morgun, eftir allan þennan tíma.

Hvers vegna var hún þá ekki gerð fyrr ef það var alltaf ætlun ríkisstj. að gera þetta? Og svo vitnar hæstv. fjmrh. til fundar sem hafi verið haldinn í fjmrn. í dag. Hann er búinn að hafa nákvæmlega jafnlangan tíma og hæstv. félmrh. til að koma hugmyndum sínum fram um hvernig hann ætti að milda eða draga úr kjaraskerðingu þessara laga. Hann vitnar til fundar, sem hann hafi haft í fjmrn. í dag með einhverjum mönnum utan úr bæ, og tilkynnir það hér og telur það góða og gilda vöru í staðinn fyrir það, að hann hefði að sjálfsögðu átt að koma þessum hugmyndum sínum til fjh.- og viðskn. eða flytja brtt. hér á hinu háa Alþingi. (ÓRG: Alþýðusamband Íslands er nú ekki einhverjir menn úti í bæ.) Alþýðusamband Íslands átti ekki þarna hlut að máli, heldur nokkrir fulltrúar Alþýðusambands Íslands. (Gripið fram í.) Já, það má vel vera.

Hæstv. ráðh. komst skoplega að orði áðan. Hann sagði að hann kæmi hér með hugmyndir sem fram hefðu komið á fundi í fjmrn. í dag og ættu að vega upp á móti kaupmáttarrýrnun sem hugsanlega gæti orðið af þessum margfrægu brbl. (Fjmrh.: Það liggur ekki fyrir.) Það liggur á borðinu frá hálfu sérfræðinga sem um þetta mál hafa fjallað, og hér hefur það komið greinilega fram. Hæstv. ráðh. hefur ekki hlustað á þessa umr., hefur ekki látið svo lítið.

Það er með fullkomnum ólíkindum hvernig að þessu máli er staðið af hálfu hæstv. ríkisstj., en það geta fylgismenn ríkisstj. hjálpað okkur stjórnarandstæðingum að laga á eftir við 3. umr. Þeir geta þó alla vega tryggt það, — það verður lögfest ef þeir vilja, — að þeir, sem njóta tekjutryggingar og heimilisuppbótar í voru landi fái jafnmikla hækkun á sínar bætur og verður á framfærslukostnaði þeirra um næstu mánaðamót.