24.02.1981
Efri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja hér langa ræðu, en að gefnu tilefni vil ég láta það koma hér fram, að það var um það fullt samkomulag í hv. fjh.- og viðskn., að ekki væri þörf á því að kalla til fulltrúa aðila vinnumarkaðarins til viðræðna þar eð öll helstu samtök þeirra hefðu gefið út ítarlegar yfirlýsingar um efni brbl. í janúarmánuði. Þessara yfirlýsinga var aflað úr öruggum og traustum dagblöðum og þeim var dreift í nefndinni og síðan tilkynnt að ef óskað yrði væri sjálfsagt að kalla á fulltrúa þessara samtaka, en þess var ekki óskað. Þetta er ekki meiri háttar mál, en ég vildi þó láta þetta koma hér fram vegna þess að venjan hefur verið sú, eins og réttilega var sagt, að kalla á slíka fulltrúa, en nú var þannig ástatt að samtökin höfðu öll sent frá sér formlegar yfirlýsingar um málið þegar þing sat ekki, og það var látið duga.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það sem hér hefur komið fram. Það er ljóst að það eru stjórnarandstöðunni mikil vonbrigði að ríkisstj. ætlar í þessum málum sem og öðrum að standa við fyrirheit sín og áform ríkisstj. ganga öll upp jafnt og þétt hvert í sínum áfanga. Það á jafnt við um skattalækkanir sem annað. Sá misskilningur, sem hefur komið fram frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, bæði varðandi hækkun tryggingabóta almannatrygginga og upphæðir skattalaganna, verður auðvitað leiðréttur í reynd, þannig að þessir ágætu herramenn munu sjá það í verki að sú túlkun, sem þeir settu fram áðan, er ekki rétt.