04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er ánægjuefni að hæstv. ráðh. skuli vera samþykkur fyrirspyrjanda um að myntbreytingin sé tilgangslaus og e.t.v. þegar til lengdar lætur skaðleg ef henni fylgja ekki víðtækar ráðstafanir í efnahagsmálum. Þetta er að vísu svo augljóst að því verður ekki á móti mælt. En við verðum að athuga að núv, ríkisstj. er búin að sitja að völdum síðan í byrjun febr. Þá var búið að ákveða myntbreytingu og lá fyrir hvert vandamálið yrði seint á árinu. En stjórnin hefur ekkert gert í þessum efnum. Enn er aðeins sagt með fögrum orðum: Blessaðir alþm. verða að bíða og sjá til!

Það eru ekki nema 8 vikur þar til myntbreytingin fer fram, og ég veit ekki, hvað við eigum að bíða lengi eða eftir hverju við erum í raun að bíða þegar ríkisstj. er enn á því stigi að hún getur ekki sagt eitt orð um það sem hún ætlar að gera, þó henni beri skylda til þess framar öllu öðru í efnahagsmálum að stuðla að því, að sú mynt, sem notuð er í landinu, haldi verðgildi sínu.

Að segja nú að Seðlabankinn telji varhugavert að hætta við þetta á síðustu stundu er ósköp áhrifalítið, af því að við vitum að embættismenn af því tagi, sem hafa með þessa breytingu að gera, viðurkenna ekki að það sé þægilegt að snúa til baka. En það hefði verið hægt að snúa við s.l. vor. Þá hefði átt að íhuga alvarlega hvort það er þess virði að ráðast í þetta stórfellda fyrirtæki með stefnulausa og ráðlausa stjórn sem ekkert gerir til að reyna að halda við verðgildi hins nýja gjaldmiðils. Fordæmin eru fyrir okkur í a.m.k. þremur Evrópulöndum, þar sem gjaldmiðilsbreyting var gerð að kjarna í efnahagsráðstöfunum sem í öllum þremur tilfellum báru árangur. En það var ekki sagt 8 vikum áður en menn sáu nýju myntina: Jæja, elskurnar mínar, þið skuluð bara bíða og sjá til!

Ég vil að lokum minna á að Alþfl. setti upp áætlun í sambandi við viðræður í jan. sem byggðist einmitt á því að gera myntbreytinguna að kjarna sem efnahagsráðstafanir snerust um. Við notuðum allir nokkurn veginn sömu efnahagsráðunautana þá, sömu stofnunina, og það leyndi sér ekki af þeim upplýsingum og ráðum, sem þá fengust í þessum efnum, að þeir teldu veigamest það sem yrði að gera fyrir breytinguna. En nú liggur það sem sagt á borðinu að fjárl. gera ráð fyrir 42% verðbólgu á næsta ári. Núv. ríkisstj. er þar með búin að skjalfesta þann spádóm, að ný ja krónan verði ekki meiri en 58 aura virði í lok næsta árs, og venjulega hafa slíkir spádómar ekki ræst sérlega vel.