24.02.1981
Efri deild: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2545 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Nokkrir hv. þm. hafa flutt tillögu sem gengur út á það, að hækkun tekjutryggingar 1. mars verði eigi lægri en 14.32%, en það er hækkun framfærsluvísitölu á seinasta þriggja mánaða tímabili eða tímabitinu 1. nóv. til 1. febr. Ég vil upplýsa af þessu tilefni, að þessi tillöguflutningur er óþarfur með öllu því að hækkunin á tekjutryggingunni verður ívið meiri en hér er gerð tillaga um eða 14.426 í staðinn fyrir 14.32, eins og till. gengur út frá. Þetta byggist á því, að verðbætur á laun hækka um 5.95% núna 1. mars og síðan er reiknuð 8% hækkun, eins og félmrh. gerði, grein fyrir í dag, ofan á þá tölu. Samanlagt verður því hækkunin 14.426. Þessi till. er því bersýnilega óþörf. (Gripið fram í: Till. er um lækkun.) Till. mundi fela það í sér að tekjutryggingarupphæðin yrði þá lægri en ríkisstj. hefur áformað samkv. því sem hér hefur verið gerð grein fyrir í dag.

Ég vil rétt að lokum, úr því að ég er staðinn hér upp og kominn í ræðustól, nota þetta tækifæri til að mótmæla alveg sérstaklega þeim tölum sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson hafði uppi hér við 2. umr., þar sem hann taldi, að ekki væri um að ræða 9 eða 10 milljarða kr. skattalækkun, eins og ég hafði áður gert hér grein fyrir, heldur eitthvað miklu minna vegna þess að skattvísitala hefði ekki hækkað eins og tekjubreytingin milli áranna 1979 og 1980. Ég var búinn að gera grein fyrir þessu atriði og ég þarf út af fyrir sig ekki að endurtaka það hér. Eins og fram kom þar er fjárlagatalan 4 milljörðum lægri en hún ætti að vera ef miðað væri við þá skattvísitölu sem þar er tilgreind. Þarna voru sem sagt 4 milljarðar teknir frá til að geta lagað skattalögin á síðara stigi. Það dugar hins vegar ekki til að ná sléttum grunni á meðaltekjur. Við verðum að bæta þar 1 milljarði við. Þess vegna byrjum við á því að gera þá breytingu á skattalögum sem kostar okkur 5 milljarða, miðað við skattvísitöluna 145. Við hækkum persónuafslátt og gerum fleiri breytingar. Þá höfum við náð sléttum grunni, þannig að skattbyrðin er sú sama og ef skattvísitala hefði verið ákveðin 151. Það er út frá þessum grunni sem skattalækkun upp á 11/2% er reiknuð, þ.e. 1.5–1.8.

Ég vísa útreikningum hv. þm. atgerlega til föðurhúsanna, enda hef ég sterklega grun um að hans útreikningar séu miðaðir við talsvert aðrar forsendur og aðrar útreikningsviðmiðanir en það dæmi sem ég var að gera hér grein fyrir. En hann gerir kannske grein fyrir því hér á eftir. — T.d. sagði hann mér í samtali að hann hefði ekki bara miðað við tekjuskatta til ríkisins, heldur hefði hann verið að miða þarna við alla skatta, þ. á m. útsvör. Það segir sig sjálft, að það má auðvitað reikna þessi dæmi á mjög mismunandi vegu ef menn gefa sér gerólíkar forsendur. En svona er dæmið eins og við reiknum það og þannig er þetta alveg hrein og klár 1.5% skattalækkun á tekjusköttum til ríkissjóðs miðað við kaupmátt launa.