24.02.1981
Efri deild: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2546 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. 1. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég tók svo eftir, þegar hæstv. félmrh. flutti sína ræðu áðan og gerði grein fyrir hækkuninni, að hann væri að tala um 8% hækkun á tekjutryggingu og heimilisuppbót plús 5.95%. (Fjmrh.: Ofan á 5.95%.) Hæstv. ráðh. er að upplýsa það núna. En það er eftir öðru hvernig að þessu máli er staðið hjá hæstv. ríkisstj. Naumast er hægt að gera sér grein fyrir því, hvað fyrir henni vakir.

Ég benti áðan á að þarna væri um að ræða minni hækkun en verður á framfærsluvísitölu og þá var því ekki mótmælt. Það getur verið að það hafi verið gleymska. Ef það er rétt sem fjmrh. segir vil ég að sjálfsögðu hafa það sem sannara reynist og dreg þessa till. til baka sem 1. flm. hennar, enda má skoða þetta mál nánar í Nd.

Ég legg til að þetta mál verði skoðað allt mjög rækilega í Nd. og svo verði þó að við gerðum samkomulag um að málið gengi út úr deildinni í dag. Að vísu gerðum við það í trausti þess, að ríkisstj. hefði staðið að þessu máli með þinglegum hætti, en hér hefur komið fram að alls konar laumuspil og ráðabrugg hefur verið bak við tjöldin og er slöngvað fram á síðustu stundu án þess að þm. hafi haft nokkra möguleika til þess að gera sér grein fyrir því, þrátt fyrir að þeir séu búnir að spyrja eftir þessu máli síðan þing kom til starfa.

En eins og ég sagði áðan skal hafa það sem sannara reynist, og ekki skal ég verða til þess að draga í efa að þetta sé ætlun ríkisstj. fyrst það hefur komið hér skýrar fram núna en við umr. áðan. Þess vegna dreg ég þessa till. til baka og legg til að málið verði skoðað fyrir umr. í Nd., þó að það væri maklegast að draga til baka allt samkomulag um meðferð þessa máls eins og að því er staðið frá hálfu hæstv. ríkisstj.