24.02.1981
Efri deild: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2546 í B-deild Alþingistíðinda. (2716)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. 2. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af reiknikúnstum hæstv. fjmrh.

Hann gerði mikið úr því, að ég hefði ekki tekið tillit til þess, þegar ég talaði áðan, að þeir 9 milljarðar gkr., sem hann taldi skattalækkun, væru umfram þá 5 milljarða sem gerði að leiðrétta fyrir því að skattheimtan væri meiri en fjárlögin áætluðu. Þetta er alrangt. Ég tók einmitt tillit til þess og tók fram að það væri augljóst á þeim grundvelli að þeir 9 milljarðar, sem um væri talað, væru ekki raunveruleg lækkun á skattbyrði fólksins í landinu sem þessari upphæð nemur, heldur einungis lækkun sem næmi 3.5 milljörðum kr. Ég stend fyllilega við það.

Nú lagði hæstv. fjmrh. á það áherslu í seinustu orðum sínum, að hann væri auðvitað bara að tala um skattbyrðina af tekjuskattinum. En ég er hræddur um að það komi jafnhart við fólkið í landinu hvort sem hækkunin er á tekjuskatti eða öðrum sköttum. Ég hélt að hugmyndin væri að vernda ráðstöfunartekjur fólksins, en ekki bara horfa í pyngju ríkissjóðs. Ég held að það komi mörgum spánskt fyrir sjónir að það hafi aldrei verið hugmyndin með þessu 1 – 1.5% að vernda ráðstöfunartekjur fólksins sem þessu nemur, heldur ætti þetta bara að vera smáútlitsbreyting á fjárlögum, og það er það sem um er að ræða. Ef lítið er á heildargreiðslubyrðina af beinum sköttum, sem lagðir eru á fólkið, þarf skattalækkunin út af því að nema 5.5 milljörðum áður en farið er að líta á þessi 1– 1.5%. Það er staðreyndin í málinu. Og það er þess vegna sem þessi upphæð, sem hæstv. fjmrh. er að tala um og er 9 milljarðar kr. á fjárlögum, hrekkur ekki nema að mjög litlu leyti til þess að mæta þeirri auknu greiðslubyrði sem leggst á fólkið. Þannig mun greiðslubyrðin af beinum sköttum ekki lækka um nema 0.5 – 0.6% samkv. þessum tillögum. Það er alveg augljóst.