24.02.1981
Efri deild: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni, að það hafi eitthvert laumuspil og skúmaskotaatferli átt sér stað varðandi þær aðgerðir sem hér hafa verið tilkynntar í dag. Það lá í hlutarins eðli að þær breytingar, sem gerðar yrðu á tekjutryggingu og öðrum þáttum almannatrygginga, yrðu tilkynntar fyrir 1. mars og það yrði gert, eins og oft hefur verið gert áður, með reglugerðarbreytingu, — ekki lagabreytingu, heldur reglugerðarbreytingu. Þegar um þessi mál var rætt í n. var það ávallt rætt á grundvelli hugsanlegra breytinga á lögunum, en sú reglugerðarbreyting, sem tilkynnt hefur verið í dag, er í fullu samræmi við fyrri vinnubrögð og fyrri aðferðir við að hækka þessa þætti almannatrygginganna. Það hlaut hver maður að geta sagt sér að það hlyti að gerast fyrir 1. mars. Þess vegna er ósköp eðlilegt og ég tel það virðingu við Alþingi, en alls ekki neitt skúmaskotaatferli, að tilkynna það fyrst hér á Alþingi, eins og hæstv. félmrh. gerði í dag. Hæstv. félmrh. tilkynnti Alþingi Íslendinga þetta í dag. Það var fyrsti aðilinn sem fékk að vita um þessa ákvörðun. Eðli málsins samkv. hefði þó ekki þurft að tilkynna Alþingi hana vegna þess að samkv. stjórnskipun landsins þarf ekki að tilkynna Alþingi slíkar reglugerðarbreytingar. Ég vildi láta þetta koma hér fram til þess að það væri ljóst að hér er ekki á neinn hátt óeðlilega að málum unnið.

Í öðru lagi hefur það komið fram í meðferð fjh.- og viðskn. Ed. og það fyrir löngu, að það hafa farið fram viðræður milli ríkisstj. og Alþýðusambands Íslands um skattalækkanir. Forseti Alþýðusambands Íslands, Ásmundur Stefánsson, kom á fund n. fyrir nokkru og fræddi n. um þær viðræður, en sagði þá, sem rétt var, að niðurstöður viðræðnanna hefðu ekki fengist. Hins vegar lá það nokkuð ljóst fyrir, að fyrir 1. mars mundu þær niðurstöður fást. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt og í samræmi við þingræðisleg vinnubrögð að hæstv. fjmrh. skuli tilkynna Alþingi fyrstum aðila í þjóðfélaginu efnisniðurstöður þeirra viðræðna sem hafa átt sér stað á undanförnum vikum.

Ef lítið er bæði til ákvæðanna um breytingar á almannatryggingum og eins á vinnubrögðin varðandi skattalækkanirnar hefur Alþingi verið fullkunnugt um það og fjh.- og viðskn. þingsins, að það hafa átt sér stað núna í nokkrar vikur viðræður milli Alþýðusambandsins og ríkisstj. um það atriði. Þegar þær viðræður bera árangur er það fagnaðarefni að Alþingi Íslendinga skuli vera fyrsti aðili til að frétta um það. Ég vísa því algerlega á bug að það hafi verið einhver óeðlileg vinnubrögð, þarna hafi verið einhver skúmaskotavinnubrögð varðandi þessar breytingar. Þær eru í samræmi við það sem venja hefur verið í þessu þjóðfélagi og fjh.- og viðskn. hefur haft fulla vitneskju um þær.

Hins vegar er það ánægjulegt að tillögumenn þessarar brtt. skuli hafa dregið hana til baka. Ég tel að hún sé byggð á misskilningi. Það er kannske eðlilegur misskilningur vegna þess að þessi mál voru flutt hér af ræðustól, en ekki lögð fram í skriflegu formi. Eru engar ástæður til að vera að elta ólar við það, slíkur misskilningur getur alltaf átt sér stað, en fagnaðarefni að till. skuli hafa verið dregin til baka.