24.02.1981
Efri deild: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. 2, minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er vitaskuld rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, 11. þm. Reykv., að nm. var kunnugt um að skattamál hefðu verið rædd við fulltrúa Alþýðusambands Íslands. En hitt er það, að þær hugmyndir, sem hér voru kynntar, voru mjög ófullburða hjá hæstv. ráðh. og ekki endanlega frá þeim gengið, eins og hann reyndar tók fram í ræðu sinni. Við höfum talið að það væri nauðsynlegt að ganga frá slíku þannig að það lægi alveg ljóst fyrir og þar fyrir utan væri það tryggt, að í rauninni væri verið að vernda ráðstöfunartekjur fólksins með þeim aðgerðum sem gripið yrði til í skattamálum. Ég sé að það er fyllilega ástæða til þess að halda vöku sinni í þeim efnum.

Að því er varðar yfirlýsingar hér um að auðvitað hefði ríkisstj. ævinlega ætlað sér að breyta þessum tryggingabótum með reglugerð, þá er það að segja, að það hefur ekki verið til siðs að breyta þeim með þessum hætti þegar kaupgjaldsþróun hefur verið önnur en verðlagsþróun. Heimild ráðh. til útgáfu reglugerðar miðast við launaþróun, en ekki verðlagsþróun.