04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. sagði hv. þm. frá því í fréttum, að hæstv. forsrh. hefði sagt að það yrðu efnahagsráðstafanir framkvæmdar jafnhliða gjaldmiðilsbreytingu. Og hann bætti því við, til þess sennilega að gera fréttina trúlegri, að hæstv. fjmrh. hefði sagt þetta líka. Það er eins og maður kannist eitthvað við þessa frétt sem er hér endurtekin og hæstv. viðskrh. fer nú með. En þessar fréttir eru engin nýlunda fyrir okkur. Þetta höfum við heyrt og þetta lásum við í stjórnarsáttmálanum. Ég veit að það er þýðingarlaust að spyrja um það, en trúir sjálfur hæstv. viðskrh. þessum fréttum? Mér er næst að halda að hann geri enn sem komið er lítið með þær.

Þó er þetta ekki aðalmálið, heldur það, hvort ekki verður gripið til neinna ráðstafana fyrir öldufaldinn sem yfir skellur hinn 1. des. Það eru þær fréttir sem þarf að segja okkur, hvort hæstv. ríkisstj. ætlar alls ekki að taka til höndum að neinu leyti áður en flóðbylgjan mikla skellur yfir hinn 1. des. Allir vita hvað sú flóðbylgja ber í skauti sér.

Það var hald manna og von á sinni tíð, að e.t.v. mundi króna okkar jafngilda danskri krónu þegar myntbreytingin fer fram. Það er borin von úr því sem komið er og við höfum fyrir augum að krónan okkar hefur rýrnað gagnvart dollara um milli 8 og 9% á tveimur mánuðum. Allt stefnir þetta í sömu ömurlegu áttina og ekkert höfum við í höndum nema lausafréttir um að það eigi að framkvæma efnahagsráðstafanir jafnhliða gjaldmiðilsbreytingunni, — lausafréttir sem hæstv. ráðh. éta hver upp eftir öðrum án þess að vita sjálfir sitt rjúkandi ráð.