24.02.1981
Efri deild: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, gaf vissulega tilefni til þess að öll málsmeðferð væri rædd ítarlega, og væri maklegt að taka þann tíma sem til þess þyrfti. En það kvöldar nú og menn sjálfsagt farnir að þreytast svo að ég skal reyna að fara ekki langt út í þá sálma. En það er fráleitt að ætla á lokastigi málsins að fara að halda því fram, að þær upplýsingar, sem hér koma fram í dag, sem er verið að þvæla saman í ríkisstj. alveg til síðustu stundar, hafi verið á allra vitorði. Sjálfsagt hefur umr. í gær verið frestað þó að það væri búið að boða hana á mánudegi, vegna þess að ríkisstj. — (ÓRG: Það var samkv. ósk stjórnarandstöðunnar sem þeim var frestað.) Að vísu er það heldur sjaldgæft að hæstv. ráðh. segi sannleikann nú á dögum eða a. m. k. gefi þær upplýsingar sem Alþingi ætti að eiga heimtingu á, en báðir þessir ráðh. hafa úr þessum stól lýst yfir að þessar ákvarðanir í ríkisstj. eða hugmyndir hafi fæðst í dag. (Gripið fram í: Að þær hafi fæðst í dag hefur enginn sagt, en verið teknar í dag.) Já, það var talað um það sem hugmyndir líka af öðrum ráðh. Það voru ekki miklar ákvarðanatökur. — Auðvitað hefur þetta verið að þvælast í þessari ríkisstj. eins og allt annað, þar sem allt er byggt á undirferli, lygum, svikum og stjórnin sjálf á því byggð. Það kann auðvitað ekki góðri lukku að stýra þegar þannig er að málum staðið, ef æðstu stjórnvöld landsins geta aldrei komið heiðarlega og hreinskilnislega fram og sagt hvað undir býr. Það þarf alltaf að fara eins og köttur í kringum heitan graut ef það er ekki beinlínis logið.

Og þá er komið að því, að um þessi tvö mál, sem hér hafa verið rædd á lokastigi afgreiðslunnar, hefur bókstaflega ekkert af hálfu stjórnarliða verið rætt í fjh.- og viðskn. Hv. formaður n. spurði okkur stjórnarandstæðinga hvort við værum með brtt. sem við vildum kynna. Við gerðum það, kynntum þær. Ég hélt að við værum að ræða þetta allt saman í einlægni. Það kom aldrei eitt einasta orð um að ríkisstj. ætlaði á lokastigi málsins að gefa einhverjar yfirlýsingar. Ég hef aldrei heyrt það. Svo kemur þessi maður hér upp og segir okkur í nefndinni fara mátulega með sannleikann og segir hagstofustjórann beinlínis ljúga! (ÓRG: Það er ekki satt.) Nú, það fólst í orðunum: taka ekkert mark á hans skýringu.

Eins og ég sagði áðan skal ég ekki fara ýkjalangt út í þessa sálma. En ég ætla aðeins að segja það, að ljótt er ef svona vinnubrögð á að fara að viðhafa af hálfu stjórnar sinna, ráðh. og annarra slíkra, eins og t. d. hafa verið viðhöfð í dag í þessari deild eða þá í umr. í Sþ. í dag. Auðvitað er öllum ráðh. til háborinnar skammar framkoman þar. Svo er verið að nefna virðingu Alþingis. Það gerði hv. formaður fjh.- og viðskn. nú: ríkisstj. sem mynduð var til að gæta virðingar Alþingis. (Gripið fram í: Og hefur gert.) Já, það er aldeilis að virðing Alþingis hafi vaxið. Ég veit ekki til að einn einasti maður á Íslandi, nema þá ráðh. og þessir hjálparsveinar þeirra, telji að virðing Alþingis hafi vaxið á síðasta árinu og rúmlega það. Auðvitað hefur Alþingi aldrei verið sett jafnlangt niður og á s. l. ári og kannske aldrei lengra niður en í dag í umr. í Sþ. og svo aftur núna.

Á lokastigi málsins, þegar við erum að greiða fyrir afgreiðslu mála, kemur formaður fjh.- og viðskn., á lokamínútum umr., og fer að halda því fram að þetta hafi allt saman legið fyrir í fjh.- og viðskn. Aldrei eitt einasta orð um það. Jú, Ásmundur Stefánsson kom þarna einu sinni og hafði sama sem ekkert að segja. Nákvæmlega ekki neitt. Þetta eru hrein ósannindi sem formaður n. flytur hér á lokastigi málsins. Það væri þess vegna kannske tilefni til að halda þessum umr. áfram í alla nótt, kannske nokkra daga. (ÓRG: Ég sagði ekki að það hefði legið fyrir í n. Það hefði átt að vera hverjum manni ljóst hins vegar.) Vera ljóst? Hvernig gat það verið okkur ljóst nema það væri nefnt? (ÓRG: Að hugsa pínulítið.)

Auðvitað veit hver einasti maður hér inni og landslýður allur að þessar ákvarðanir voru teknar í skyndingu í dag af ótta. Stjórnin er að hopa, og það er gott að hún hopar á þessu sviði vegna þess að auðvitað er ekki hægt að níðast á því fólki í landinu sem langsamlega erfiðast á með að draga fram lífið vegna þeirrar stanslausu kjaraskerðingar og óðaverðbólgu og ofstjórnar sem í landinu ríkir.

En ég ætla að segja það, að ef á að fara að tíðka þessi vinnubrögð verða þau auðvitað önnur vinnubrögðin sem við stjórnarandstæðingar beitum. Við höfum alltaf reynt að greiða fyrir málum í einu og öllu. Svo á lokastigi á að fara að bera upp á okkur ósannindi margháttuð. (ÓRG: Það hefur enginn borið upp á ykkur ósannindi.) Menn heyra nú hér. Það eru ekki allir heyrnarlausir. Það eru kannske einhverjir í þessari stjórn bæði mállausir og heyrnarlausir, eins og einn góður þm. sagði hér fyrr í vetur, og fara kannske líka að verða ærulausir. (SU: Nei strákar, ekki þetta.) Hv. þm. Stefán Jónsson telur þó ekki að þeir séu að verða ærulausir. En hvernig var nú í þessu togaramáli þarna? Eru nú allir með fulla æru? (Gripið fram í.) Ég á ekki við þennan þm. sérstaklega. Ég held að þessar umr., allt þetta háttalag þessarar stjórnar, sem eins og ég áðan sagði er byggð á undirferli og svikum frá upphafi, sé auðvitað að fara með æru Alþingis, kannske okkar allra. Hvað haldið þið að fólk segi og hugsi um það stjórnarfar, sem hér ríkir, þegar æðstu ráðamenn þjóðarinnar svokallaðir, virðuleikamennirnir sem ætluðu að gæta virðingar Alþingis, fórnuðu sér fyrir Alþingi og þjóðina, haga sér þannig að ekki er hægt að trúa einu einasta orði sem þessir menn segja? Það veit enginn hverju er logið og hvort þeir einhvern tíma slysast til að segja satt.