24.02.1981
Neðri deild: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2553 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

126. mál, flugvallagjald

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég er sammála hv. flm. þess frv., sem hér er til umr., um að flugvallaskattur í innanlandsflugi er vandræðaskattur, því hann leggst svo til eingöngu á þá sem fjarri Reykjavík búa og er þó ferðakostnaðurinn ærinn fyrir. Á sama hátt má segja að söluskattur á almenna farþega og vöruflutninga innanlands sé alfarið skattur á dreifbýlið. Hér er um neikvæða byggðastefnu að ræða. Það ber að leggja þessa skattlagningu niður og finna aðra tekjustofna ef nauðsynlegt er talið.

Um flugvallaskatt í millilandaflugi gegnir nokkuð öðru máli, þótt auðvitað sé rétt að endurskoða hann, m. a. vegna breyttra aðstæðna, og á ég þá fyrst og fremst við erfiðleika í millilandaflugi.

Herra forseti. Ég styð það frv., sem hér er til umr., einkum að því er varðar skattlagningu í innanlandsflugi.