25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2555 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

159. mál, vegalög

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Samgn. hefur á nokkrum fundum fjallað um frv. það til breytinga á vegalögum sem hér um ræðir, og hefur nefndin orðið ásátt um að mæla með því, að frv. verði samþykkt með breytingu sem nefndin flytur tillögu um á þskj. 444. Samgn. leggur til að 1. gr. frv. orðist svo: 1. málsl. 24. gr. laganna orðist þannig:

„Undanskildar vegaskatti samkv. 23. gr. eru allar kirkjur, skólahús, þinghús, félagsheimili, vitar og enn fremur orlofsheimili í eigu stéttarfélaga launþega á svæðum sem sérstaklega eru skipulögð fyrir orlofs starfsemi.“

Frv. þetta var flutt til efnda á fyrirheiti sem ríkisstj. gaf í sambandi við kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins. Fyrirheitið var í þá veru, að ríkisstj. mundi á yfirstandandi Alþingi leggja fram frv. til laga um breytingu á vegalögum, þess efnis, að orlofshúsnæði verkalýðsfélaganna yrði undanþegið því gjaldi sem um ræðir í þessu frv. Það er ekki vitað með fullri vissu hversu miklu tekjutapi sýsluvegasjóðir verða fyrir ef þetta frv. verður að lögum, en þó er talið að það sé mjög óverulegt.

Sú breyting, sem nefndin leggur til að gerð verði á frv., er í þá veru, að þetta verði skýrara og afmarkaðra og þannig, að minni hætta verði á að unnt sé með einhverjum hætti að misbeita þessu ákvæði. Nefndin leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem hún flytur á þskj. 444.