25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2558 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

213. mál, dýralæknar

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Við þessa umr. vil ég gjarnan láta þess getið, að landbrn. hefur haft til athugunar samræmingu á dýralæknalögum þannig að þeim yrði steypt saman í einn lagabálk, en þau eru nú í mörgu lagi.

Í öðru lagi hefur það kannað umdæmaskiptingu dýralæknisumdæma í landinu.

Rn. hefur leitað álits yfirdýralæknisembættisins varðandi þessi mál. Hef ég hér í höndum tvö bréf frá yfirdýratækni varðandi þessi efni. Í því fyrra er sérstaklega leitað álits á því máli sem hér er gert að umtalsefni í þessu frv., þ. e. stofnun nýs dýralæknisembættis á Austurlandi, en í lok þess bréfs yfirdýralæknis lýsir hann því, að full þörf sé á að stofna þar nýtt dýralæknisumdæmi. Lætur hann þess getið, að svo sé einnig á öðrum svæðum á landinu, og segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að minna á, eins og áður hefur verið rætt um, að enn eru sum dýralæknisembættin svo stór og skepnumörg, að ofætlun er einum manni að sinna öllum þeim störfum sem þar kalla að mikinn hluta ársins. Hafa í því sambandi verið nefnd t. d. Skagafjarðarumdæmi, Þingeyjarþingsumdæmi, Borgarfjarðarumdæmi, Laugarásumdæmi, Gullbringu- og Kjósarsýsluumdæmi. Ég tel því að huga þurfi að nokkurri endurskoðun á þessu máli hið fyrsta. Ég er að sjálfsögðu fús til þess að leggja fram frekari tillögur í þessu máli hvenær sem þess er óskað.

Virðingarfyllst.

Páll A. Pálsson.“

Ég vil láta þess getið, að í framhaldi af þessum umsögnum yfirdýralæknis tel ég mikla nauðsyn á að umdæmaskipting héraðsdýralækna verði endurskoðuð. Um leið verði það tekið til athugunar, sem ég gat um í upphafi, að steypa dýralæknalögum saman í einn lagabálk. Það frv., sem hér er lagt fram, er einn þáttur þessa máls. Sama dag og þetta frv. var lagt fram hér í hv. Ed. var lagt fram í Nd. frv. um nýtt dýralæknisembætti í Þingeyjarþingsumdæmi. Hér er því um fleiri atriði að tefla sem þörf er á að athuga. Með þessum orðum er ég vitaskuld ekki að leggjast gegn því, að þetta sérstaka mál sé tekið til athugunar hér á hinu háa Alþingi, en hafa ber í huga að þetta mál er stærra en það frv. fjallar um, sem hér er á ferðinni, og þörf á að taka það fyrir í heild.

Þá verður einnig að hafa það í huga, að þeim lagabreytingum, sem hefðu í för með sér fjölgun dýralæknisumdæmanna sem þessu nemur og hér hefur verið rakið, hlyti að fylgja verulegur aukinn kostnaður. Þau útgjöld þarf að hafa í huga um leið og stefnt verður að því að reyna að auka og bæta þessa þjónustu. Þar þarf að sigla meðalveg, eftir því sem fært þykir. Hverju nýju dýralæknisembætti fylgja ekki einungis laun og annar kostnaður við starf dýralæknis, heldur einnig dýralæknisbústaður, og það þarf að afla fjár til þess að geta komið þeirri aðstöðu upp. Því er auðvitað nauðsynlegt að Alþingi gefist kostur á að taka afstöðu til slíkra málefna fyrir landið í heild.