25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2558 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

213. mál, dýralæknar

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf hér, og raunar áhuga hans á þessu máli. Mér er reyndar ekki alveg ljóst hver afstaða hans er varðandi þetta frv. Það er að vísu alveg ljóst, að hann er velviljaður þessari breytingu. Hins vegar talar hann um að málið sé stærra og það þurfi að skoða í stærra samhengi, í víðara samhengi. Þess vegna væri mikil þörf á því að fá vitneskju um það hjá hæstv. ráðh., í hvaða samhengi það á að vera. Enn þá liggur ekki annað fyrir en þær bréfaskriftir sem átt hafa sér stað milli yfirdýralæknis og landbrn., og ráðh. gat ekki um að uppi væru né hefðu verið teknar ákvarðanir um endurskoðun á þessari löggjöf.

Nú er það út af fyrir sig alveg rétt sem ráðh. segir, að dýralæknalögin eru í mörgu lagi, en það varðar nær eingöngu, að því er ég hygg, umdæmaskiptinguna sjálfa. Um verkefni og tilgang laganna að öðru leyti, held ég að sé fjallað á einum og sama stað.

Ég fæ ekki séð annað en þetta mál geti gengið alveg hiklaust áfram hér á Alþingi svo fremi að ekki komi fram sérstakar till. eða sérstakar ákvarðanir hafi verið teknar um heildarendurskoðun á þessum málum, og það kom ekki fram í máli hæstv. ráðh. áðan.

Ég fagna því, að það liggur nú fyrir hér líka, samkv. bréfi því sem hæstv. ráðh. vitnaði í, að yfirdýralæknir telur að stofnun þessa dýralæknisumdæmis sé tímabær, og er það ein viðurkenningum til viðbótar við þær sem ég taldi áðan. Og sömu skoðunar er sá dýralæknir sem þarna er næstur, Jón Pétursson dýralæknir á Egilsstöðum. Hann hefur tjáð mér að hann væri hlynntur þessari breytingu og þessari skipan mála. Þar er einmitt um að ræða stórt umdæmi og erfitt yfirferðar sem hann þjónar, og það er vel hugsanlegt og hefur komið inn í þessa umr. að þarna gæti orðið um aukna hagkvæmni að ræða á milli þessara tveggja dýralæknisumdæma, m. a. með tilliti til þess þegar dýralæknarnir fara í frí eða þarf að leysa þá af, eins og það er nú gjarnan orðað, undir öðrum kringumstæðum.

Svo að það vefjist ekki neitt fyrir mönnum, m. a. ekki hæstv. landbrh., þá tel ég að framgangur þessa máls hér á Alþingi sé alveg eðlilegur og réttmætur. Það, sem helst gæti hugsanlega verið þar steinn í götu, væri ef tekið væri til — og það rösklega og í einhverri alvöru — við að endurskoða dýralæknaskipunina í heild. En það er ekki nein ástæða til að láta þetta mál bíða eftir einhverjum hugmyndum í þeim efnum.