25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2561 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

218. mál, atvinnuleysistryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um annað en að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi undanfarna áratugi lánað allverulega til atvinnuuppbyggingar þar sem þess hefur verið þörf, þar sem verið hefur nauðsyn á því, og þar hafi sjóðurinn gegnt mjög þýðingarmiklu hlutverki einmitt í þá veru að koma í veg fyrir atvinnuleysi, efla atvinnulíf þar sem atvinnuöryggi er lítið. Mér er næst að halda að fyrir hendi séu heimildir til að gera það sem hér er rætt um, utan þess að greiða flutningskostnað á afla milli byggðarlaga og landshluta.

Ég er ekki heldur viss um að það sé rétt að auka kvaðir á þennan sjóð. Það eru nú þegar of miklar kvaðir á honum og greiðslustaða hans er slík, að ef við hefðum atvinnuleysi — við skulum segja 10% atvinnuleysi í 1–2 mánuði — þá kæmist sjóðurinn í alger greiðsluþrot. Og verkalýðssamtökin, sem eiga stjórnaraðild að þessum sjóði, yrðu mjög óhress ef sjóðurinn gæti ekki sinnt sínu hlutverki.

Sem betur fer höfum við verið lausir við fjöldaatvinnuleysi nú hin seinni ár, og vonandi þarf ekki til þess að koma. En mér er kunnugt um að greiðslustaða sjóðsins er mjög erfið, ekki síst vegna þess að menn hafa verið mjög kappsamir að leggja hvers kyns kvaðir á þennan sjóð, — kvaðir sem alls ekki er eðlilegt að hann hafi.

Hins vegar vil ég minna á það, að þessi sjóður er til kominn vegna samninga verkalýðshreyfingarinnar við atvinnurekendur á sínum tíma. Þessi sjóður varð til þess að leysa all alvarlega vinnudeilu, að ég held árið 1955, og það er mat verkalýðssamtakanna að þau eigi að hafa seinasta orðið um það, hvernig þeim fjármunum er varið sem þar eru. Því þarf að leita álits þeirra og einnig stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs á því, hvernig með þetta mál skuli fara. Engu að síður þarf að leysa það vandamál sem hlýtur að koma upp ef hafís leggst að landinu. Það er á sínum stað, og ég er reiðubúinn að stuðla að því að slíkum sjóði eða slíkri fyrirgreiðslu verði komið á. En ég vara eindregið við því að vaða í þennan sjóð sem nú er þannig staddur að liggur við greiðsluþroti.

Ég vona að þegar þessu hefur verið vísað til nefndar afli menn sér upplýsinga um, hvernig málum er komið varðandi greiðslugetu sjóðsins, og menn hverfi þá frá þessum hugmyndum. Og ef samþykkt væri að sjóðurinn greiddi hitt og þetta í þessu sambandi, þá hygg ég að það yrði að afla sjóðnum aukinna tekna til að geta sinnt þessu hlutverki.

Því beini ég því til viðkomandi nefndar að hún skoði þetta frv. mjög vel og þá einkum, hvort eðlilegt er að Atvinnuleysistryggingasjóður taki þessar kvaðir á sig, og einnig, hvort nokkrir fjármunir eru í sjóðnum til að sinna þessum verkefnum.