04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég spyr að því hér, eins og margur annar, hvaða efnahagsaðgerðir séu fyrirhugaðar. Hvernig stendur á því, að okkur þarf að vera það óljóst viku eftir viku og mánuð eftir mánuð hvað eigi að gera? Við höfum nýverið gert kjarasamninga og þeir eru gerðir meira og minna á ábyrgð ríkisvaldsins samkv. þeirri sáttatillögu sem þar var lögð fram. Það eru þúsundir verkafólks að spyrja að því daglega hvað sé fram undan, hvað skuli gera. Það á rétt á því ásamt okkur alþm. að vita hvað er fram undan. Á að fara að krukka í vísitöluna, verður þetta leyst með gengissigi einhverskonar eða hvað verður gert? Manni leikur líka hugur á að vita hvað svokölluð efnahagsnefnd hefur lagt til og hvað ráðh. hafa verið sammála um að gera. Þetta er ekkert einkamál ríkisstj. Þetta er mál okkar alþm. einnig og allra þeirra þúsunda verkamanna og verkakvenna sem bíða eftir því að fá að vita hvað sé framundan.

Það var kaldranalegt að hlusta á það viku eftir viku, á meðan við stóðum í samningagerð, að ráðh. lýstu yfir hver í kapp við annan að ekkert væri hægt að gera fyrr en búið væri að gera samninga. Hvað þar er gefið í skyn er vandséð, og því er það svo, að ég óska eftir því og krefst þess að fá að vita hvað sé framundan.