25.02.1981
Efri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2562 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

218. mál, atvinnuleysistryggingar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir, að hér er mál á ferðinni sem er allrar athygli vert. Ég vil vekja athygli á því, eins og raunar hv. flm. og frsm. gerði, að hér er um að ræða heimild til Atvinnuleysistryggingasjóðs, og hann ítrekaði það í sinni framsögu hér. Ég lýsi því yfir sem formaður heilbr.- og trn., að við munum að sjálfsögðu taka þetta mál fljótlega fyrir. Hins vegar er að því vikið í grg., að mikil hætta sé á því á þessum vetri að hafís leggist að landinu. Sem betur fer hefur sú hætta minnkað, það var ekki allt vont við þetta óveður sem gekk yfir á dögunum. En þegar verið er að setja eða breyta löggjöf, þá hugsum við auðvitað ekki aðeins til þess árs, sem er að líða, heldur til næstu ára.

Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að það eru fjölmörg önnur atriði sem við þyrftum að huga að vegna þeirra erfiðleika sem dunið geta yfir ef hafís leggst að þessu blessaða landi okkar. Það eru ekki eingöngu þau atriði, sem hér er vikið að, heldur fjölmörg önnur. Ég tel samt ekki ástæðu til að fjölyrða um það hér.

Ég vil lýsa því yfir, að við munum að sjálfsögðu taka þetta frv. til rækilegrar athugunar í þeirri nefnd sem frv. verður vísað til, heilbr.- og trn. Hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, á sæti í þeirri nefnd svo að við munum væntanlega skoða þetta frv. í sameiningu.