04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er varla við því að búast að mér takist að draga svör út úr hæstv. ráðh. frekar þó ég komi hér upp en þeim hv. þm. sem hafa spurt áður. En það er auðvitað full ástæða til þess að krefjast svara um hvaða efnahagsaðgerðir er ætlað að gera í tengslum við myntbreytinguna um áramót. Og þá er ekki síður ástæða til þess að krefja svara hæstv. fjmrh. og ég tala nú ekki um hæstv. sjútvrh., sem að vísu er ekki í salnum, hvað þeir meina með þeim yfirlýsingum, margítrekuðum í blöðum og annars staðar, að það sé augljóst mál að engar efnahagsráðstafanir sé hægt að gera fyrr en almennum launasamningum á vinnumarkaðnum sé lokið. Slíkar yfirlýsingar hafa þessir hæstv. ráðh. látið frá sér fara. Hver er meiningin með þessu? Á hverju mega nú launþegar eiga von? Nú hafa kjarasamningar meiri hluta af aðilum vinnumarkaðarins verið gerðir? Á hverju mega launþegar eiga von í kjölfar þeirrar yfirlýsingar sem þessir hæstv. ráðh. hafa látið út ganga? Er það vísitalan? Á að breyta henni eða á, eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hefur sterklega krafist, að setja almenna löggjöf um launakjör? Þetta krefjumst við að fá að vita? Það er ekki hægt að líða að Alþ. fái ekki vitneskju um hver ætlunin er í svo stórvægilegu máli sem hér er um að tefla, þegar í loftinu liggja svart á hvítu yfirlýsingar hæstv. ráðh. um að ráðstafanir verði gerðar þegar að loknum kjarasamningum. Öðruvísi verður mál þeirra ekki skilið. Og ég skora á hæstv. fjmrh., hefði gjarnan viljað hafa hæstv. sjútvrh. hérna líka, að gera grein fyrir því, hver meining sé að baki yfirlýsinga hans um að ekki sé hægt að ganga frá efnahagsráðstöfunum fyrr en búið sé að semja við aðila vinnumarkaðarins.