25.02.1981
Neðri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Því verður ekki neitað, að þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum fyrir rétt rösku ári tók hún við ýmsum erfiðum viðfangsefnum sem hún ætlaði sér að leysa. Þau viðfangsefni eiga sér gamla sögu, því vandann má í eðli sínu rekja allt aftur til ársins 1971, þegar Alþb. og Framsfl. komust til valda í þessu þjóðfélagi eftir að hafa verið utan stjórnar um margra ára skeið. Má segja að kaflaskipti hafi orðið árið 1971 í stjórn efnahagsmála með þessari þjóð. Þá kvöddum við tíma, sem einkennst höfðu af hófsemd og ró í efnahagsmálunum en við tók verðbólga af þeim toga sem við höfðum ekki áður haft kynni af.

Ekki verður því um kennt, að ytri aðstæður hafi verið slæmar fyrir þau öfl sem þá fóru að stjórna landinu, því á árunum eftir 1971 og fyrri helming áttunda áratugarins voru bestu aðstæður og mest uppgrip sem verið hafa í íslenskum efnahagsmálum. Mjög mikill afli barst þá á land og tekjuaukning varð gífurlega mikil. En þrátt fyrir það að ytri aðstæður voru með þessum hætti hagstæðari en þjóðin átti að venjast var þannig haldið á málum að í miðju góðærinu var gengið á sjóði þjóðarinnar, stofnað til stórkostlegrar skuldasöfnunar við útlönd, þannig að þegar á bjátaði, t. d. með miklum olíuverðshækkunum, seinni hluta áratugarins höfðu Íslendingar ekki í neina varasjóði að hverfa og verðbólgan, óðaverðbólgan sem sköpuð hafði verið af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar eftir árið 1971, óx og magnaði. Þetta er vandi sem undanfarnar ríkisstjórnir hafa reynt að ráða við, en engri tekist.

Við þessu erfiða viðfangsefni tók núv. hæstv. ríkisstj. fyrir u. þ. b. einu ári. Og það vantaði ekki aldeilis á það þá að hæstv. ríkisstj. og þeir aðilar, sem að henni stóðu, þættust ætla að gera mikið á stuttum tíma. Hæstv. forsrh. sagði í ræðustól á Alþingi að ekki aðeins ætti ríkisstjórn hans að bjarga heiðri og sóma íslensku löggjafarsamkundunnar, heldur ætlaði ríkisstj. og þeir aðilar, sem að henni stóðu, einnig að ná á skemmri tíma meiri árangri í efnahagsmálum en nokkur önnur ríkisstj. hefði náð á þessum áratug sem ég ræddi um áðan. Og hæstv. ríkisstj. lagði fram bæði í athugasemdum með fyrstu fjárlagagerð sinni og eins í stjórnarsáttmálanum nokkuð nákvæmlega útfærðar hugmyndir sínar um — ekki hvað hún ætlaði að gera, heldur hverjar ættu að verða niðurstöður af aðgerðum hennar.

Menn muna t. d. að hæstv. ríkisstj. setti fram, fyrst í stjórnarsáttmálanum og síðan í athugasemdum með fyrsta fjárlagafrv. sínu, nákvæm ársfjórðungsleg mörk verðhækkana á árinu 1980.

Þar lýsti hæstv. ríkisstj. því, hverjar yrðu frá ársfjórðungi til ársfjórðungs afleiðingarnar af þeim ráðstöfunum sem hún hugðist beita. Hins vegar varð nokkur bið á því, að þessar ráðstafanir kæmu fram. Hæstv. ríkisstj. reyndist sem sé ekki hafa náð samkomulagi um neitt nema niðurstöðurnar. Og þó að hæstv. ríkisstj. sé ekki búin að sitja lengi að völdum, eru þær nú orðnar ansi margar, yfirlýsingarnar frá hæstv. forsrh. um það sem hann ætlaði ríkisstj. sinni að gera á þessum tólf mánuðum.

Í athugasemdum með fjárlagafrv. og forsendum fjárlagafrv. boðaði ríkisstj. Gunnars Thoroddsens þannig að hún mundi halda svo á málum á árinu 1980, að verðhækkanir frá upphafi til loka þess árs færu ekki fram úr 31%. Hæstv. ríkisstj. setti síðan fram nákvæm ársfjórðungslega mörk þessara verðhækkana, sem áttu að lýsa því hvernig þetta mundi gerast.

Þegar leið að vori, örfáum vikum eftir að hæstv. ríkisstj. hafði lagt fram þessa óskadrauma sína fór fram hér í Ed. Alþingis mjög hörð umr. milli hæstv. forsrh. og stjórnarandstæðinga í deildinni. Þar fullyrti hæstv. forsrh. að hvað sem hver segði væri ríkisstj. búin að ákveða að beita sér fyrir því, að verðbólgan á árinu 1980 færi ekki fram úr 40% frá upphafi til loka ársins. Með því var hæstv. forsrh. að vísu fallinn frá þeim boðskap sínum, sem hann tiltók nokkrum vikum áður, að verðbólgan á árinu 1980 ætti ekki að fara fram yfir 31% frá upphafi til loka ársins, var kominn með verðbólguna upp í 40%, en hann — liggur mér við að segja — lagði heiður sinn og sinnar ríkisstj. að veði fyrir því, að hvað svo sem aðrir segðu mundi verðlagsþróunin ekki fara yfir 40% á árinu.

Um mitt s.l. sumar skýrðu dagblöðin frá nýjum spám Þjóðhagsstofnunar um líklega verðlagsþróun á árinu. Þeim spám mótmælti hæstv. forsrh. sem röngum í samtali við blöð og sagði að það mætti vel vera að þessar spár gengju eftir ef ekkert yrði að gert, en ríkisstj. ætlaði nú aldeilis að hafast að. Ríkisstj. ætlaði að tryggja það, að verðbólgan færi ekki fram úr 45–50% á árinu. Síðla s. l. vetur talaði hæstv. forsrh. um 31% verðbólgu, í vor talaði hann um að verðbólgan færi ekki fram úr 40%, en um mitt sumar talaði hann um að ríkisstj. mundi tryggja að verðbólgan færi ekki yfir 45–50%. — En það gerðist aldrei neitt. Það eina, sem gerðist hjá hæstv. ríkisstj., var að fyrst var skipuð nefnd, ráðherranefnd, síðan var ráðherranefndin lögð niður og skipuð efnahagsnefnd, síðan lauk efnahagsnefnd sínum störfum og skilaði af sér og þá var skipuð ný ráðherranefnd til þess að yfirfara störf efnahagsnefndarinnar og svona koll af kolli. Þríbjörn togaði í Tvíbjörn, Tvíbjörn í Einbjörn o. s. frv., en aldrei gekk rófan. Aldrei kom nein niðurstaða frá hæstv. ríkisstj. önnur en ný yfirlýsing frá hæstv. forsrh. á svo sem eins og tveggja mánaða fresti, þegar hann taldi verðbólguna upp um nokkur prósentustig frá síðustu yfirlýsingum sjálfs sín. Það er það eina sem hæstv. forsrh. hefur gert í þessu máli — fyrir utan það að sjálfsögðu að ráða sér tvo aðstoðarmenn í ráðuneyti sitt til að hjálpa sér við þessa merkilegu stefnumótun.

Auðvitað verða menn að horfa til reynslu liðins tíma, en ekki að deila um mismunandi óvissar spár fyrir framtíðina. Þess vegna er dálítið athyglisvert að gera sér grein fyrir því, hver hefur orðið verðbólguferillinn á árinu 1980.

Þegar hæstv. ríkisstj. tók við völdum hafði verðbólgan á síðasta verðbótatímabili áður en ríkisstj. tók við, á tímabilinu frá 1. nóv. 1979 til 1. febr. 1980, numið 9.1%. Það samsvarar verðbólguhraða sem hefði skilað um það bil 42% verðbólgu á heilu ári. Þannig var ástandið þegar hæstv. ríkisstj. tók við. En strax eftir að hæstv. ríkisstj. kom til valda breyttist þessi mynd. Hæstv. ríkisstj. ætlaði að telja þessa verðbólgu niður og boðaði það m. a. í forsendum fjárlagafrv., að á fyrsta verðbótatímabili eftir að hún tæki við völdum, þ. e. frá 1. febr. til 1. maí, mundu verðhækkanir ekki verða meiri en 8%. Ríkisstj. mundi sjá til þess. Hún mundi telja verðbólguna niður með þeim hætti að verðbólgan, sem — verðbótatímabilið áður en ríkisstj. tók við völdum var 9.1%, mundi lækka ofan í 8% á fyrsta verðbótatímabilinu eftir að hæstv. ríkisstj. tók við. En því var ekki aldeilis að heilsa. Verðbólgan á þessu fyrsta tímabili ríkisstj., frá 1. febr. til 1. maí, nam ekki neinum 8% eins og hæstv. ríkisstj. boðaði, því er nú verr og miður. Hún nam 13.2%. Verðbólgan varð á þessu fyrsta verðbótatímabili u. þ. b. 60% meiri en hæstv. ríkisstj. boðaði.

Á öðru verðbótatímabili ársins 1980 hafði ríkisstj. boðað að verðhækkanir mundu aðeins nema 7%, vera 1% lægri en verðbótatímabilið þar á undan. Þetta var tíminn frá 1. maí til 1. ágúst s.l. ár. En það gekk nú ekki aldeilis eftir. Verðhækkanir á þessu tímabili voru ekki 7%, eins og hæstv. ríkisstj. boðaði, heldur 10.1%.

Þriðja verðbótatímabilið átti svo niðurtalning Framsfl. heldur betur að vera farin að segja til sín. Áttu verðhækkanir þá aðeins að nema 5% samkv. yfirlýsingum ríkisstj., á tímabilinu frá 1. ágúst s. l. til 1. nóv. En því var ekki aldeilis að heilsa. Þá nam verðbólgan ekki 5%, heldur 10.9%. Verðbólguhraðinn var sem sé á því tímabili rösklega tvöfaldur á við það sem hæstv. ríkisstj. hafði spáð og hafði gefið yfirlýsingar um að hún mundi tryggja. Það er von að hæstv. forsrh. þurfi að gefa nýjar yfirlýsingar í þessum málum á tveggja mánaða fresti.

Og síðasta verðbótatímabilið, það sem nú er nýliðið, frá 1. nóv. s. l. til 1. febr. s. l., námu verðhækkanir ekki neinum litlum 5%, eins og mér heyrðist forsrh. vera að gefa í skyn áðan, heldur hvorki meira né minna en 15%. Verðbólguhraðinn á þessu síðasta verðbótatímabili, frá 1. nóv. í haust til 1. febr. í vetur, nemur því, að verðbólgan á ársgrundvelli sé komin upp í tæplega 75% eða 74.9%. Á þessu eina ári hefur verðbólguhraðinn hjá ríkisstj. þannig farið vaxandi frá verðbótatímabili til verðbótatímabils. Þegar hæstv. ríkisstj. tók við var verðbólguhraðinn aðeins 9.1% á heilu verðbótatímabili, sem samsvarar um 42% verðbólgu á heilu ári. Þegar ríkisstj. skilaði uppgjöri sínu 1. febr. s. l. var verðbólguhraðinn á heilu tímabili kominn upp í 15%, sem samsvarar 75% verðbólgu á heilu ári. Þetta var nú allur afraksturinn. Verðbólguhraðinn hafði aukist í meðförum hæstv. forsrh. og félaga hans í ríkisstj. á einu ári úr u. þ. b. 42% á heilu ári upp í 75%.

Þetta kallar Framsfl. að telja niður. Þetta hygg ég að allir aðrir kalli að telja upp. Og það er einkar athyglisvert fyrir t. d. þá Alþb.- menn, sem sögðust hafa farið inn í þessa ríkisstj. fyrst og fremst til þess að varðveita kaupmátt launa, að á þessu eina ári, frá 1. febr. 1980 til 1. febr. 1981, hefur verðlag í landinu hækkað um rösklega 59%. Á þessum sama tíma, á þessu sama eina ári hafa verðbætur á laun hins vegar aðeins hækkað um 40%. Á sama tíma og dýrtíðin hefur aukist um 59% hafa verðbætur á laun aðeins hækkað um 40%. Bilið, sem þarna er á milli, hafa menn reynt að brúa í samningum um hækkað grunnkaup. Hjá sumum hefur þetta bil verið brúað til fullnustu, þeim sem mestar beinar og duldar hækkanir hafa fengið, en hjá öðrum, sérstaklega láglaunafólkinu sem hefur átt erfitt með að sækja sinn hlut, hefur þetta bil alls ekki verið brúað þrátt fyrir grunnkaupshækkanir sem orðið hafa á tímabilinu. Og það er einkar athyglisvert fyrir Alþb.- menn að hyggja að því, að niðurstaðan af öllu þeirra brölti s.l. eitt ár í ríkisstj. skuli vera sú, að á sama tíma og dýrtíðin jókst um tæplega 60% hækkuðu verðbætur á laun aðeins um rúmlega 40%, og til þess að brúa þetta bil hefur verkalýðshreyfingin þurft að standa í erfiðri kjarabaráttu og knýja fram grunnkaupshækkanir, sem skilað hafa sumum mismuninum, þeim í launþegahópnum sem best voru staddir fyrir, en láglaunafólkið hefur setið eftir.

Þannig hefur nú, herra forseti, ferill þessarar ríkisstj. verið s. l. eitt ár. Það hefur verið mikið um stór orð og hástemmdar yfirlýsingar, en það hefur ekkert gerst fyrr en þá á gamlársdag þegar hæstv. forsrh. kom í sjónvarp og útvarp og tilkynnti þjóðinni að nú væri ríkisstj. búin að bjarga málinu.

Það er einkar athyglisvert, að það hefur komið í ljós í yfirlýsingum annarra ráðherra, t. d. ráðherra Framsfl., að eftir að ríkisstj. hafði setið á rökstólum frá því 6. febr. og fram undir jól, þá var ekkert til, hafði ekki náðst samkomulag um neina úrlausn og ekkert verið sett á pappír á Þorláksmessu. Þegar fólk fór heim til þess að halda jól eftir að ríkisstj. hafði setið að störfum síðan 6. febr., þá var ekkert tilbúið. Það var ekki búið að ná samkomulagi um eitt né neitt og það var ekki fyrr en örfáum klukkustundum áður en hæstv. forsrh. átti að fara í sjónvarpið að halda sína áramótaræðu, sem mér heyrðist að hv. þm. Matthías Bjarnason hefði gefið nafnið áramótaskaup áðan, aðeins nokkrum klukkustundum áður en hæstv. forsrh. fór upp í sjónvarp til að flytja ræðu sína náðist samkomulag milli stjórnarflokkanna um hvað gera ætti. Þess vegna var það ekki árangurinn af alvarlegum umr. sem kynntur var í ræðu hæstv. forsrh. í sjónvarpinu á gamlársdag. Lausnin, ef lausn skyldi kalla, var framkölluð af klukkutifinu á borðinu í stjórnarráðinu. Klukkan var að falla á hæstv. ríkisstj. og hún varð eitthvað til bragðs að taka. Og það, sem hún tók til bragðs, er frv. það til laga sem við fjöllum nú um.

Í áramótaræðu hæstv. forsrh. flokkaði hann með réttu hinar svonefndu aðgerðir ríkisstj. í tvennt. Annars vegar voru það brbl., hins vegar svonefnd efnahagsáætlun ríkisstj. Ef við víkjum fyrst að efnahagsáætluninni, þá er ekki hægt að flokka það plagg undir aðgerðir, því að aðgerðir eru að sjálfsögðu ekki annað en það sem aðhafst er. Í efnahagsáætluninni er ekkert aðhafst. Í efnahagsáætluninni setja menn fram misjafnlega almennt orðaðan óskalista um hluti sem menn eru að tala um eða hefur dottið í hug um leið og þeir settu stafina á pappír. Í efnahagsáætluninni er ekki eitt atriði sem menn geta fest hönd á, og komið hefur í ljós síðar hjá hæstv. ráðh. að mjög mörg atriði, sem minnst er á í efnahagsáætluninni, eru menn ýmist að hugleiða eða skoða, en þau eru algjörlega órædd í ríkisstj. Þetta er pappírsplagg sem búið var til á nokkrum mínútum, rétt áður en hæstv. forsrh. hljóp niður í sjónvarp, til þess að hann hefði þó eitthvað í höndunum til að sýna þjóðinni.

Það eina, sem hægt er að segja að fáist út úr þessari efnahagsáætlun, er sú aðgerð í gengismálum sem hv. þm. Geir Hallgrímsson ræddi um áðan og ég ætla ekki að fara frekari orðum um. Það gefst tækifæri til þess síðar. En ég held að öllum sé ljóst, ekkert síður ráðherrum og stuðningsmönnum ríkisstj. en öðrum, að sú aðgerð, sem þar er lagt út í, er vægast sagt harla vafasöm og skammgóður vermir. Hinar raunverulegu aðgerðir, þ. e. það sem gert er, felast í brbl. sem nú eru hér til meðferðar.

Þessar aðgerðir brbl. felast í sjö efnisgreinum auk gildistökugreinar, þannig að hér er um að ræða lesmál sem kæmist fyrir á einni vélritaðri pappírsörk. Merkilegri er nú ekki niðurstaðan hjá ríkisstj. eftir 11 mánaða umþóttunartíma: Sjö efnisgreinar sem kæmust fyrir á einni vélritaðri pappírsörk.

Í þessum sjö efnisgreinum er fjallað um fjögur atriði. Það er í fyrsta lagi atriði sem kemur fram í 1. gr. frv., um framlengingu á verðstöðvun sem gilt hefur raunar í landinu lítið eða ekki breytt í heilan áratug. Í öðru lagi er ákvæðið um vaxtamál í 2. og 3. gr. Í þriðja lagi er ákvæðið um frestun framkvæmda í 7. gr., og síðast er meginefni laganna sem er lækkun kaupgjalds með lögum um 7% 1. mars n. k. Þetta er að sjálfsögðu þungamiðja aðgerða ríkisstj., það eina sem skiptir máli í sambandi við verðbólguspár Þjóðhagsstofnunar. Þjóðhagsstofnun treystir sér ekki til þess að meta neitt af hinum atriðunum þremur til áhrifa á verðbólguþróunina í landinu. Samkv. þeim gögnum, sem við höfum fengið frá Þjóðhagsstofnun, metur hún öll atriði brbl. þannig að það er aðeins eitt, aðeins kauplækkunin ein, sem hún telur að hafi einhver reiknanleg áhrif á verðbólguþróunina. Hin atriðin þrjú, sem brbl. fela í sér, eru þannig að Þjóðhagsstofnun og aðrir þeir aðilar, sem eru ríkisstj. og Alþingi til ráðuneytis, treysta sér ekki til að segja til um að þau hafi nokkur minnstu áhrif á feril verðbólgunnar. Það er aðeins kauplækkunin ein sem Þjóðhagsstofnun segir að hafi einhver áhrif á það vandamál sem hæstv. ríkisstj. þykist vera að fást við.

Ef við förum í örstuttu máli yfir þessi fjögur efnisatriði og skiljum kauplækkunina eftir þar til síðast, þá er fyrst ástæða til að minnast á það síðasta, þ. e. efnisatriði í 7. gr. brbl., þar sem ríkisstj. er heimilt að fresta einhverjum ótilteknum framkvæmdum fyrir einhverjar ótilteknar fjárhæðir þrátt fyrir ákvæði fjárlaga fyrir árið 1981 eða lánsfjáráætlun fyrir sama ár. Það er ekkert óvanalegt að ríkisstj. sé veitt heimild til þess að fresta framkvæmdum þrátt fyrir ákvæði samþykktra fjárlaga. Slíkt var t. d. gert við afgreiðslu fjárlaga frá Alþingi nú í desembermánuði. Þá var hæstv. ríkisstj. veitt heimild til þess að spara útgjöld samkv. afgreiddum fjárlögum um allt að 3 milljarða gkr. (Forseti: Ég geri ráð fyrir að hv. þm. eigi eftir töluvert óflutt áf ræðu sinni.) Ekki mjög mikið, en töluvert. (Forseti: Ég bið hann að gera hlé á henni eins fljótt og verða má. ) Ég er að hugsa um að gera það strax. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar líður á ræðu mína á ég þess von að þurfa að spyrjast fyrir um þær aðgerðir hæstv. ríkisstj. í skattamálum og tryggingarmálum sem við alþm. höfum verið að lesa um í blöðum í dag. Og þá væri viðkunnanlegra að einhver úr hinni fjölmennu ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens væri viðstaddur. (Forseti: Ég vil geta þess, að hæstv. forsrh. hafði auglýst fyrir alllöngu fund á Akranesi og hefur haldið þangað. En ég hafði gert ráðstafanir til að aðrir hæstv. ráðh. yrðu hér, a. m. k. einhverjir, til andsvara ef á það reyndi. Við skulum vænta þess, að hæstv. ráðh. gangi innan tíðar í salinn og áður en að mikilvægar spurningar verði fram lagðar.)

Herra forseti. Ég var þar kominn máli mínu að byrja að ræða um þau fjögur efnisatriði, sem í þessum brbl. eru fólgin, og ætlaði að ræða þá fyrst um síðasta efnisatriðið, sem fram kemur í 7. gr. þessa frv. Þar er ríkisstj. veitt heimild til að fresta ótilteknum framkvæmdum fyrir ótilteknar fjárhæðir þrátt fyrir ákvæði fjárlaga fyrir árið 1981 svo og lánsfjáráætlun fyrir sama ár.

Nú er það ekkert óvanalegt, að hæstv. ríkisstj. séu veittar slíkar heimildir til frestunar á framkvæmdum sem búið er að samþykkja með afgreiðslu fjárlaga héðan frá Alþingi. Það er mjög vanalegt að slíkt sé gert jafnhliða fjárlagaafgreiðslunni, þannig að í heimildagrein fjárlaga sé ríkisstj. veitt heimild til tiltekinnar frestunar á framkvæmdum eða sparnaðar í ríkisrekstri. Þetta var einnig gert við afgreiðslu fjárlaga nú. Í heimildagrein er hæstv. ríkisstj. veitt heimild frá Alþingi til þess að fresta framkvæmdum og skera niður útgjöld ríkisins sem samsvarar allt að 3 milljörðum gkr. Þessa heimild hefur hæstv. ríkisstj. í hendi sér, og mér er ekki kunnugt um að hæstv. ríkisstj. hafi enn notað þá heimild, ekki einu sinni byrjað að nota hana. Fyrst svo er, hvaða nauður rak þá hæstv. ríkisstj. til þess að veita sér umframheimild í þessu skyni með brbl.- setningu? Ég furða mig á því, að ríkisstj. skuli hafa gert slíkt, því að ég fæ ekki séð hvers vegna hæstv. ríkisstj. þurfti að veita sjálfri sér slíka heimild með brbl.setningu þegar hún hafði í höndunum heimild frá Alþingi til þess að fresta framkvæmdum og lækka útgjöld um allt að 3 milljarða gkr.

Í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins segir að því aðeins megi setja brbl. að brýna nauðsyn beri til. Til þess að ríkisstj. geti sett brbl. verður þar tvennt til að koma: Í fyrsta lagi að Alþingi sitji ekki að störfum, og í öðru lagi að brýna nauðsyn beri til að lög séu sett utan starfstíma Alþingis, þannig að ekki gefist tími til þess að kalla þingið saman til starfa. Nú spyr ég: Hvaða brýna nauðsyn bar til þess, að ríkisstj. þurfti að veita sjálfri sér heimild til að fresta framkvæmdum í samþykktum fjárlögum þrátt fyrir að hún hafði þegar í höndum lögformlega heimild til þess arna, sem hún hefur ekki enn byrjað að nota?

Auðvitað getur verið að ríkisstj. þurfi skyndilega að taka ákvörðun um framkvæmdafrestun utan starfstíma Alþingis, jafnvel í jólaleyfi þm., og geti af þeim sökum ekki beðið eftir því að Alþingi komi saman til að veita slíka lögformlega heimild. Slíkar aðstæður gætu réttlætt það að slík heimild yrði veitt í brbl. En nú liggur það fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki einu sinni rætt slíka framkvæmdafrestun. Hæstv. fjmrh. hefur skýrt frá því í útvarpi, og raunar hér á Alþingi líka, að það sé allsendis óvíst hvort ríkisstj. muni nota þessa heimild til frestunar á framkvæmdum og fari svo að ríkisstj. noti heimildina, þá muni það ekki gerast fyrr en eftir mitt ár. Miðað við þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. gengur það ekki saman í mínum huga hvernig ríkisstj. getur réttlætt brbl.- setningu um veitingu slíkrar heimildar sem fyrir liggur að ekki eigi að nota fyrr en eftir mitt ár.

Auðvitað eru engin rök sem mæla með því, herra forseti, að brbl. séu sett á svo veikum grunni. Og þetta, eitt af mörgu, gerir það að verkum, að stuðningur hlýtur að fara vaxandi við að sú breyting sé gerð á stjórnarskrá lýðveldisins við endurskoðunina núna, að brbl.-valdið verði með einum eða öðrum hætti tekið af ríkisstj. Ég vil taka það sérstaklega fram, að þar á ég ekki aðeins við þessa ríkisstj., heldur er það orðinn plagsiður allra ríkisstjórna, sem verið hafa í landinu nú a. m. k. hm síðari árin, að reyna að leysa flestöll meiri háttar vandamál þjóðfélagsins með þeim hætti að bíða með úrlausn málanna þangað til Alþingi situr ekki og taka síðan á málum með brbl.-setningu. Þegar jafnvel er farið að tíðka það — og ekkert frekar endilega af þessari ríkisstj. en öðrum — að setja brbl. um atriði, sem er jafnfráleitt að hægt sé að rökstyðja með brýnni þjóðarnauðsyn eins og það sem hefur verið gert hér, þá rennir það enn frekari stoðum undir það að afnema eða a. m. k. takmarka mjög mikið vald ríkisstj. til þess að setja brbl. Og það er ekki gott, eins og fram hefur komið í umr. hér á Alþingi, þegar bókstaflega er haldið þannig á af hálfu ríkisstj., sem hefur tæpan þingmeirihluta, að bíða með að afgreiða torleyst mál þangað til alþm. eru farnir heim, ekki vegna þess að hæstv. ríkisstj. eigi þar í erfiðleikum með harkalega stjórnarandstöðu, heldur vegna hins, að hæstv. ríkisstj. á í erfiðleikum með að fá eigið þinglið til að samþykkja ráðstafanir sem hún hyggst gera.

Þetta hefur m. a. komið mjög fram hjá núv. hæstv. ríkisstj. Ég er alveg sannfærður um að ef Alþingi hefði setið að störfum kringum jólin, þá hefði hæstv. ríkisstj. aldrei náð fram neinni lagasetningu, ekki vegna þess að hún hefði þurft að sæta svo mikilli andstöðu stjórnarandstöðunnar að hún hefði ekki komið slíkum lögum fram, heldur fyrst og fremst vegna hins, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki getað fengið sitt eigið þinglið til að sameinast um neinar niðurstöður. Auðvitað er þetta á vitorði allra þm., þar á meðal hæstv. ráðh., að ráðið við þessu hjá ríkisstj. er að bíða með allar afgreiðslur mála þangað til þingi er lokið, ekki til þess að losna við stjórnarandstöðuna, heldur fyrst og fremst til þess að losna við eigin stuðningsmenn úr röðum stjórnarflokkanna og grípa síðan á málinu með brbl.-setningu.

Herra forseti. Ég sé ekkert við það að athuga að veita hæstv. ríkisstj. heimild til þess að fresta framkvæmdum þrátt fyrir ákvæði fjárlaga umfram þá framkvæmdafrestun sem hún öðlaðist með samþykki fjárlaga og heimildargrein þar um í samþykktum fjárlögum nú um áramótin. Mér þykir ekkert athugavert við að veita hæstv. ríkisstj. slíka heimild, þó ég fái ekki séð að nauðsyn hafi borið til þess að setja brbl. þar um, eins og ég rakti áðan. En ég held að Alþingi hljóti að krefjast þess annaðhvort að ríkisstj. gefi Alþingi einhverjar hugmyndir um frestun þeirra framkvæmda, sem á döfinni eru, ellegar þá hitt, að Alþingi leggi fyrir ríkisstj. að framkvæmdafrestunarheimildin sé miðuð við einhverja tiltekna fjárhæð, eins og t. d. framkvæmdafrestunarheimildin í heimildagreinum fjárlaga er, og jafnframt að frestun framkvæmda taki ekki gildi nema um hana hafi verið fjallað í fjvn.

Nú er það eitt af meginverkefnum fjvn., sem hún vinnur að allt haustið hér í þinginu, að reyna að raða framkvæmdum í forgangsröð og taka ákvarðanir um hvernig að einstökum framkvæmdum skuli staðið. Það er mjög óeðlilegt, eftir að Alþingi og fjvn. hafa eytt mjög miklum starfstíma í þetta erfiða verkefni, að þá skuli ríkisstj. vera veitt heimild til ótiltekinnar framkvæmdafrestunar fyrir ótiltekna fjárhæð án þess að hæstv. ríkisstj. þurfi nein samráð að hafa við fjvn. Alþingis um hvernig hún standi að slíkri frestun, vegna þess að segja má að ef ekki komi til slíkt samráð sé allt verk fjvn. að hausti og allt verk Alþingis við afgreiðslu fjárlaga unnið fyrir gýg. Þá er eins hægt að ætlast til þess af ríkisstj. strax við upphaf fjárlagaumræðu að hún leggi fram erindi til Alþingis þess efnis, að sama sé hvað Alþingi hyggist afgreiða með fjárlagaafgreiðslunni, þá hafi ríkisstj. heimild til þess að breyta því. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að gera þá breytingu á 7. gr., annaðhvort að tiltaka þá upphæð, sem framkvæmdafrestunin heimilar mesta, ellegar þá — eða hvort tveggja, að taka fram að framkvæmdafrestunin öðlist ekki gildi nema hæstv. ríkisstj. hafi haft um það samráð við fjvn.

Annað efnisatriði úr 7. gr. er broslegt. Það er það efnisatriði, að ríkisstj. skuli veitt heimild til þess að fresta framkvæmdum samkvæmt lánsfjáráætlun fyrir árið 1981. Hvers vegna er þetta ákvæði broslegt? Jú, vegna þess að engin lánsfjáráætlun hefur verið afgreidd. Við erum með í þinginu núna lánsfjárheimildarlög í vinnslu sem í raun réttri átti að afgreiða fyrir áramót. Það var hins vegar aldrei gert. Og með þessari grein, eins og hún er nú, verðum við núna að afgreiða frá Alþingi heimild til ríkisstj. til að fresta ótilteknum framkvæmdum samkvæmt lánsfjáráætlun sem ekki er til, sem ekki hefur verið afgreidd. Það er auðvitað alveg fráleitt að standa þannig að málum, að veita ríkisstj. fyrst heimild til ótiltekinnar framkvæmdafrestunar samkvæmt lánsfjárlögum ég ætla síðan þegar sú heimild hefur verið veitt, að fara að fjalla um lánsfjárlögin sjálf. Auðvitað gæti svona heimild átt erindi, en þá á hún erindi í lánsfjárlögunum sjálfum, en ekki með þeim hætti sem hér er stofnað til. Þá mætti eins leggja fram í upphafi hvers þings frv. einhvern veginn á þá lund, að þrátt fyrir þær ákvarðanir og lagasetningar, sem Alþingi kynni að eiga eftir að ákveða á þessum vetri, væri hæstv. ríkisstj. veitt heimild til að gera hverjar þær breytingar þar á sem henni þætti hlýða. Það er slíkur afgreiðslumáti sem hafður er í 7. gr., þar sem á að afgreiða heimild til ríkisstj. til frestunar á framkvæmdum samkvæmt lánsfjáráætlun sem er óafgreidd og verið er að fjalla um hér í þinginu. Svona geta menn að sjálfsögðu ekki staðið að afgreiðslu mála. Þetta ákvæði um lánsfjáráætlunina á ekkert erindi í þessa lagasetningu. Það ber að strika út úr þessari grein. En ef hæstv. ríkisstj. vill engu að síður hafa slíka heimild, þá á hún erindi inn í lánsfjárheimildalögin sem nú eru til meðferðar hér í þinginu, en alls ekki að gerast með þeim hætti sem hér er stofnað til.

Herra forseti. Ég hef fjallað hér nokkuð um þennan efnisþátt laganna, sem skiptir í sjálfu sér ákaflega litlu máli um þá verðbólguþróun, sem þessi lög eiga að vinna gegn, og er atriði sem maður fær ekki séð að neitt erindi eigi inn í brbl.-setningu.

Annað atriði, efnisatriði brbl. og frv. sem flutt er til staðfestu á þeim, er í 1. gr. frv., þar sem í raun réttri er með lögum verið að ákveða verðstöðvun ofan á verðstöðvun sem fyrir er. Ég veit ekki hvort menn halda að verðstöðvun haldi eitthvað betur, sé eitthvað endingarbetri, ef menn setja um hana tvennar lagasetningar, — þá endist hún betur en ef verðstöðvun sé ákveðin með einni. Að öðru leyti hef ég ákaflega lítið um þetta að segja. Hér er um að ræða tilraun til verðstöðvunar sem hefur staðið yfir nú í áratug. Slík tilraun getur staðist um stutta stund til þess að veita ríkisstj. umþóttunartíma til að grípa til annarra ráðstafana. Hins vegar vitum við allir Íslendingar að verðstöðvun í heilan áratug, eins og við höfum búið við, er ekkert annað en skrípamynd af raunverulegri verðstöðvun og ákvæði þessarar greinar breyta engu um það.

Skýrasta dæmi um það, að ákvæði þessarar greinar breyti engu, er fordæmi opinberra stofnana sjálfra. Menn minnast þess, að áður en þessi verðstöðvun ofan á verðstöðvun var í lög leidd með brbl. nú um áramótin ákvað ríkisstj. 10% hækkun á gjaldskrá ýmissa opinberra stofnana og fyrirtækja. Og eftir að þessi verðstöðvun ofan á verðstöðvun hefur verið í lög leidd hefur ríkisstj. heimilað t. d. Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar hvorki meira né minna en 25% hækkun á þjónustu sinni. Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar hafa núna eftir áramótin hækkað verð á þjónustu sinni um hvorki meira né minna en 25%. Þannig ganga ríkisstofnanir á undan og láta svo sem þær viti ekki einu sinni af þessu ákvæði sem hér er fjallað um í 1. gr., og hæstv. ríkisstj. virðist lítið sem ekkert gera til að stuðla að því, að ríkisstofnanir, stofnanir sem hún sjálf stjórnar, hagi sér eftir lögunum. Enda, herra forseti, af þeim gögnum, sem við höfum fengið frá Þjóðhagsstofnun og öðrum ráðunautum ríkisstjórnar og Alþingis um efnahagsmál, verður ekki annað séð en að þessir aðilar treysti sér alls ekki til að gefa okkur alþingismönnum neinar upplýsingar um að ákvæði 1.. gr. komi að nokkru gagni í baráttunni við verðbólguna. Af þeim gögnum, sem fram hafa verið lögð frá Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka og öðrum slíkum stofnunum, verður ekki séð að ákvæði 7. gr. og ákvæði 1. gr. brbl., tvö af fjórum efnisatriðum laganna, hafi hin minnstu áhrif á verðlagsþróunina í landinu. Sem ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu eru þessi tvö efnisatriði að mati þessara aðila hreinlega gagnslaus.

Þriðja efnisatriði kemur síðan fram í 2. og 3. gr. frv., þar sem ákveðnar eru tilteknar breytingar á lánamálum og vaxtamálum. Þessar greinar stangast hins vegar algjörlega á. Í 2. gr. er verið að fresta því, að verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána verði á komið. Frestun er veitt um eitt ár. En í 3. gr. er verið að stefna að því að aukaverðtryggingu innlána í bönkum og sparisjóðum. Auðvitað segir það sig sjálft, að ef verðtryggð spariinnlán aukast í bönkum og sparisjóðum hljóta bankarnir og sparisjóðirnir að auka að sama skapi verðtryggingu útlána sinna. Og ekki er það líklegt til að slá á frest verðtryggingu fjárskuldbindinga, eins og á þó að gera samkv. 2. gr. Þannig stangast tilgangur 3. gr. á við markmið 2. gr. og þessar tvær greinar ganga ekki saman. Ef verðtryggð sparifjárinnlán aukast í bönkum og sparisjóðum hlýtur verðtrygging á útlánum þessara sömu stofnana að aukast að sama skapi. Það sér hver heilvita maður.

En þetta efnisatriði, þetta þriðja efnisatriði frv. hefur ekki heldur nein merkjanleg áhrif á spár efnahagsráðunauta ríkisstj. um líklega verðlagsþróun á yfirstandandi ári.

Ég hef hér lýst þremur efnisatriðum í frv. til viðnáms gegn verðbólgu sem ekki hafa nein áhrif á verðbólguna, jafnvel þótt svo sé látið heita í fyrirsögn þessa frv. Og þá er aðeins ein aðgerð eftir sem raunverulega hefur áhrif á verðbólguna á árinu 1981. Það eru aðgerðirnar sem felast í 4., 5. og 6. gr. frv. og eru einvörðungu um að lækka almenn laun í landinu um 7% frá og með 1. mars n. k. Auðvitað eru það engin ný tíðindi, að það hefur áhrif á verðbólguþróun hvort laun eru hækkuð eða lækkuð. Ef laun í landinu hækka almennt án þess að nokkur innistæða sé fyrir þeirri launahækkun, þá er um að ræða innihaldslitlar peningalaunahækkanir sem hverfa jafnóðum aftur í aukinni verðbólgu. Ef engin innistæða er fyrir almennum launahækkunum þýða slíkar hækkanir einvörðungu aukna verðbólgu. Þetta þekkjum við Íslendingar af langri reynslu. Meðal annars þess vegna hafði Alþfl. þá afstöðu við gerð kjarasamninganna nú í haust, þeirri afstöðu var fylgt eftir af Alþfl.-mönnum í verkalýðshreyfingunni, að í staðinn fyrir að berjast fyrir innihaldslitlum peningalaunahækkunum, sem yrðu jafnóðum teknar aftur annaðhvort af ríkisvaldi eða aukinni verðbólgu, ætti að leysa málefni láglaunafólksins með lækkun á tekjuskatti og úrbótum í tryggingamálum. Þar væri um að ræða raunhæfar kjarabætur sem enginn gæti aftur tekið eftir að þær hefðu verið settar á.

Því miður náði sú stefna Alþfl. ekki fram að ganga í þessari kjarasamningagerð. Samið var um launahækkanir á bilinu frá 3–10%, og ætli launahækkanirnar hjá ýmsum öðrum hærra launuðum hópum hafi ekki verið nokkru meiri en þessu nemur? En hvað svo sem um það má segja, þá er ljóst að þær launahækkanir, sem samið var um í haust, hafa nú verið teknar aftur. Hæstv. ríkisstj. tók þær aftur með brbl. sem hún setti nú um áramótin. Og hefði hæstv. ríkisstj. ekki tekið þær aftur með þeim hætti, þá hefðu þessar sömu launahækkanir horfið engu að síður í þeirri óðaverðbólgu sem hefði fylgt í kjölfarið og Þjóðhagsstofnun spáði að gæti orðið á bilinu 65–70%.

Þannig standa menn uppi eftir þessa kjarasamningalotu engu nær. Samt sem áður er það alveg ljóst og menn vita og hafa ávallt vitað og viðurkennt að breytingar á peningalaunagreiðslum gætu haft áhrif á verðbólguna. Ef peningalaunagreiðslur eru hækkaðar án þess að innistæða sé fyrir hendi fyrir þeirri launahækkun hlýtur verðbólgan að vaxa. Með sama hætti er hægt að draga úr verðbólgu tímabundið með því að lækka peningalaun, t. d. með lögum eins og núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert. Þetta er alkunna, því að svo margar ríkisstjórnir á Íslandi hafa beitt þess konar aðferðum. Það var aðferðin sem ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar beitti vorið 1978. Hún miðaðist svo til einvörðungu við að lækka peningalaun með lögum til þess að hafa áhrif á verðlagsþróunina í landinu. Og við vitum af reynslunni að slíkar ráðstafanir hafa áhrif á verðlagsþróunina, en aðeins um mjög stuttan tíma, aðeins um fárra mánaða skeið. Ef ekkert er gert annað en þetta eilífa krukk í kaupið, þá skilar það árangri fyrstu 3–6 mánuðina eftir að aðgerðin er framkvæmd, en síðan fellur allt í sama farið aftur og verðbólgan kemst aftur upp í sín 50–70%. Þetta eru engin ný sannindi. Þetta er reynslan sem Íslendingar hafa fyrir augunum. Þetta er reynslan sem undanfarin ár hafa fært okkur heim sanninn um.

Nákvæmlega eins verður þetta núna. Efnahagsaðgerðir ríkisstj., sem fólgnar eru í þessu frv., eru raunar aðeins ein aðgerð: kauplækkun, lækkun launa um 7% frá og með 1. mars n. k. Hin þrjú efnisatriði frv., sem ég ræddi um áðan, hafa engin áhrif á verðbólguþróunina í landinu. Þetta er eina ráðstöfunin sem hefur áhrif. Og hún hefur þessi gamalkunnu áhrif sem við þekkjum af reynslunni. Hún dregur úr hraða verðbólgunnar í svipinn, næstu 3–6 mánuði, svo fellur allt í sama farið aftur.

Ef til vill ætti frv. frekast að heita frv. til laga um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu fram yfir landsfund Sjálfstfl. Það væri raunverulega rétt heiti á frv., því að þessar aðgerðir eru sennilega ekki til neins annars gerðar heldur en að geta velt á undan sér vandanum fram yfir landsfund Sjálfstfl. Þær duga fram yfir vor og fram undir sumar. Og þær ættu að heita frv. til laga um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu fram yfir landsfund Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Ja, ef ætti að fresta landsfundi Sjálfstfl. yrði hæstv. forsrh. sennilega að bæta einhverri lagagrein við frv. svo að það samsvaraði því sem það á að skila.

En þetta er því miður staðreyndin sem við þekkjum af sögunni, af reynslunni, og bítið er að segja hæstv. ríkisstj. af öllum hennar ráðunautum. Þessi aðgerð skilar tímabundnum árangri, hún kemur í veg fyrir að verðbólgan æði strax upp í 70%. Hún mun skila nokkrum árangri á næsta verðbótatímabili, en síðan fellur allt í sama farið aftur, og í septembermánuði nú í haust munum við standa í nákvæmlega sömu sporum hvað verðbólguna varðar og við stóðum í septembermánuði á s. l. hausti. Þá verðum við aftur komin í 50–53% verðbólgu. Og hvar er þá nokkuð sem vinnst? Við höfum unnið okkur smátíma, fram yfir landsfund Sjálfstfl., þeir sem hafa áhuga á því, en að landsfundinum loknum kemur aftur haust og þá stöndum við í sömu sporum í verðbólgumálunum og við stóðum á s. l. hausti. Eini ávinningurinn, sem við höfum haft út úr þessu, er 5–6 mánaða frestun á tilteknum vanda sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki getað leyst.

Það er margoft, af mörgum ríkisstj., búið að gera tilraun til að leysa verðbólguvandann með því einvörðungu að kákla í kaupið. Og reynslan hefur alltaf orðið sú sama. Slíkar aðgerðir skila mjög takmörkuðum árangri. Þær skila árangri í 3–6 mánuði, síðan fellur allt í sama farið aftur. Þess vegna var það sem við Alþfl.menn lögðum á það áherslu vorið 1978, þegar við neituðum því ekki að það gæti þurft að grípa til lagasetningar um frestun á greiðslu verðbóta, breytingu á vísitölukerfi eða niðurfellingu á verðbótagreiðslum, að öllum slíkum ráðstöfunum yrðu að fylgja úrræði um gjörbreytta efnahagsstefnu, — til þess að sú fórn, sem væri þar verið að láta fólk færa gæti skilað einhverjum árangri — yrði jafnframt að fylgja ný stefna í atvinnumálum til þess að tryggja áframhaldandi framfarir í landinu og fulla atvinnu. Það yrði að breyta stefnunni í ríkisfjármálum. Það yrði að lækka skattana. Það yrði að taka upp nýja stefnu í félagsmálum, í fjárfestingarmálum, í peninga- og lánamálum o. s. frv.

Við þm. Alþfl. höfum þrisvar á þessum stutta tíma síðan 1978 lagt fram ítarlegar till. um það, hvað slík gjörbreytt efnahagsstefna ætti að feta í sér. Og nú á Alþingi í vetur hafa þm. Alþfl. lagt fram hvert frv. og hverja þáltill. á eftir annarri einmitt um slíka stefnumótun. Við höfum lagt hér fram till. til þál. um stórátak í virkjunarmálum og stóriðju. Við höfum lagt fram till. um að breyta stefnunni í landbúnaðarmálum, hverfa frá fjárfestingu í hefðbundnum búgreinum, sem ekki skila neinum arði, en taka í staðinn upp myndarlegar fjárveitingar til nýrra hliðarbúgreina og búgreina sem eru líklegar til að geta skilað góðum arði. Við höfum lagt fram till. og frv. um stóreflingu fiskræktar, bæði á vatnafiskum og sjávarfiskum. Við höfum lagt fram frv., sem nú eru til meðferðar í Ed. Alþingis, um stórbreytingu á fjárfestingarmálum í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Við höfum lagt fram frv. m. a. hér í Nd. um lífeyrismál, um málefni aldraðra o. s. frv., o. s. frv. Við höfum lagt fram frv. um nýja stefnu í lánamálum, nýja stefnu í vaxtamálum o. s. frv. Þetta teljum við að verði að fylgja aðgerðum í vísitölumálum. Ríkisstj. verður fyrst að ganga á undan með góðu fordæmi um að hún vilji af sinni hálfu leggja eitthvað nýtt fram í baráttunni gegn verðbólgunni. Þá fyrst þegar ríkisstj. hefur gert það getur hún sagt við launafólkið: Viljið þið nú ekki leggja ykkar skerf fram líka? Og því aðeins að ríkisvaldið sýni slíkar aðgerðir, því aðeins að það gangi á undan með góðu fordæmi og móti þá atvinnustefnu — gerbreyttu efnahagsstefnu — sem gefur okkur vonir um að ná árangri í baráttunni við verðbólguna, því aðeins að þetta sé gert er réttlætanlegt að taka á launamálum fólksins í landinu með þeim hætti sem núv. ríkisstj. er að gera. Því aðeins er það réttlætanlegt og því aðeins er það líklegt til að skila árangri.

Og það er hörmulegt til þess að vita, að menn skuli gera sér leik að því, eins og Alþb. nú, að setja lög um stórskerðingu kaupgjalds, vitandi að slík aðgerð mun aðeins endast í 3–5 mánuði og síðan mun allt falla í sama farið á ný.

En það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt, herra forseti, miðað við forsögu Alþb., þó að þessir herramenn láti sig hafa það. Það hefur nefnilega aldrei gerst að Alþb. hafi sett slík mál fram fyrir setu sína í ríkisstj. Það hefur aldrei gerst að Alþb., hafi það átt sæti í ríkisstj., hafi talið launamál mikilsverðari en stjórnarsetuna. Ýmsir aðrir, sem hafa starfað í ríkisstjórnum með Alþb., hafa sett slík mál fram fyrir áframhaldandi stjórnarsetu. Það hefur Alþb. aldrei gert. Þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar rofnaði eftir þriggja ára stjórnarstörf, vegna þess að sú ríkisstj. hafði í bígerð kaupránsaðgerðir sem ASÍ mótmælti og tók afstöðu gegn, þá var það ekki Alþb. sem hvarf frá stuðningi við þær aðgerðir og hótaði stjórnarslitum. Nei, Alþb. sat kyrrt hvað sem ASÍ sagði. Það var þáv. forseti ASÍ, Björn Jónsson, og félagar hans í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna sem sögðu nei, en ekki Alþb. Alþb. hefur aldrei tekið launamál fólksins í landinu fram yfir áframhaldandi stjórnarsetu sína, fremur en Alþb. hefur nokkurn tíma tekið varnarmál og málefni hinnar svokölluðu herstöðvar, eins og þeir orða það, fram yfir stjórnarsetu. Í huga Alþb. hefur stjórnarseta ávallt algjöran forgang fram yfir allt annað, eins og sýnir sig af því, að Alþb. er sennilega eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem aldrei í sögu sinni hefur hótað því að fara úr ríkisstj. eða farið úr ríkisstj. út af launamálum. (Gripið fram í.)1946 gerðist það nú ekki út af því. (Gripið fram í.) Nei, út af allt öðrum málum. Og hafi það gerst 1946, sem ég efast stórlega um, þá gerist það ekki 1981, það er alveg ljóst.

Herra forseti. Það er aðeins tvennt sem mig langaði til að forvitnast um hjá ráðherrum í ríkisstj. og ætla að ljúka ræðu minni með að beina fsp. til þeirra um.

Í fyrsta lagi höfum við í Ed. og Nd. Alþingis fjallað að undanförnu um brbl. hæstv. ríkisstj. og haldið fundi sameiginlega um þau lög í fjh.- og viðskn. beggja deilda. Þar höfum við stjórnarandstæðingar m. a. ítrekað lagt fyrir ríkisstj. spurningar um hvernig hæstv. ríkisstj. hygðist verða við ýmsum af þeim yfirlýsingum og loforðum sem fylgdu þessum brbl., svo sem í skattamálum o. fl. Hæstv. ríkisstj. og fulltrúar hennar í fjh.- og viðskn. þingsins hafa aldrei fengist til að svara einu orði þessum spurningum okkar. Hins vegar lásum við það, þm. eins og aðrir, í blöðum í dag, að hæstv. ríkisstj. hefði ákveðið að lækka skatta um 10 milljarða kr. og teldi sig þar með hafa efnt loforð sitt um lækkun á skattbyrði um 1.5% í kaupmættinum.

Nú standa mál þannig eins og flestir vita, að álagning samkv. gildandi skattalögum mun færa ríkissjóði tekjur sem nema 5.5 milljörðum gkr. umfram áætlaðar tölur fjárlaganna. Og áætlunartölur fjárlaga segja okkur að tekjuáætlun af tekjuskatti einstaklinga er þar öðrum 5.5 milljörðum gkr. of há miðað við óbreytta skattbyrði milli ára. Ef ætti að hafa skattbyrðina hina sömu á árinu 1981 og hún var í fyrra þyrfti m. ö. o. að lækka þessar áætlunartötur og gera breytingar á skattlagningu sem næmi 11 milljörðum kr. Fyrr erum við ekki búin að ná áætluðum skatttekjum ríkisins í ár af einstaklingum niður í óbreytta skattbyrði frá því í fyrra. Áður en við getum farið að lækka skattbyrðina frá því í fyrra verðum við sem sé að lækka þessar áætluðu tölur um 11 milljarða kr.

Til þess að efna að fullu loforð hæstv. ríkisstj. um lækkun á sköttum sem nemur 1.5% í kaupmætti þyrfti m. ö. o. að lækka skattana í ár frá áætlunum ríkisstj. um 24 milljarða kr. Hvernig ríkisstj. telur sig vera búna að efna það loforð með tekjuskattslækkun um aðeins 10 milljarða kr., um innan við helming fjárhæðarinnar, er ofar mínum skilningi. Ég hef ekki séð neinar útlistanir á því, hvernig hæstv.ríkisstj. hyggst gera þetta, og mun að sjálfsögðu teita eftir því í fjh.- og viðskn. Nd. að hún leggi fram gögn þar að lútandi.

Í annan stað vek ég athygli á því, að komið hefur í ljós í blaðafréttum í dag að þær upplýsingar, sem hæstv. ríkisstj. gaf við umr. í Ed. Alþingis í gær um almannatryggingamál, eru rangar. Þar upplýstu hæstv. ráðh. að þeir mundu hækka lífeyri gamla fólksins um rúmlega 14%. Þetta er ekki rétt. Ellilífeyririnn var ekki hækkaður, heldur aðeins tekjutryggingin. Þess vegna er ekki um að ræða þá hækkun sem hæstv. ráðh. lýstu hér í gær, heldur aðeins hluta af þeirri hækkun. Og sú hækkun, sem hæstv. ríkisstj. hrósar sér af í sambandi við þessi tryggingamál og lesa má um í blöðunum í dag, nær ekki nema til lítils hluta af þeim bótaþegum almannatrygginga sem látið er í veðri vaka að sé verið að koma til móts við. Hún nær ekki, gróft áætlað, nema til u. þ. b. fimmta hvers manns sem þiggur bætur samkv. lögum um almannatryggingar. Þetta þarf einnig að fást upplýst svo að ljóst sé hvað hæstv. ríkisstj. er hér raunverulega að gera. Og ég vek athygli á því, að eins og frv. hæstv. ríkisstj. er frágengið og eins og brbl. voru sett, þá er gert ráð fyrir því í brbl. að kauplækkunin, kjaralækkunin 1. mars n. k. taki til allra, einnig þeirra sem minnst mega sín og hafa sínar tekjur í formi bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Einnig þetta lágtekjufólk á samkv. brbl. að axla fulla kjaraskerðingu. Og hver eru þá orðin áhrif Alþb. í þessari frumvarpssmíði? Hver eru þá orðin áhrif hæstv. félmrh. í þessu máli, fyrst hann stendur þannig að brbl. um kjaraskerðingu að gert er ráð fyrir að hinir smæstu af þeim smáu, lágtekjufólkið sem hlýtur allar sínar tekjur í formi tryggingabóta, taki á sig fulla kjaraskerðingu?

Herra forseti. Ég tel ástæðulaust að ræða málið öllu frekar við þessa umræðu, enda að því stefnt, að ég hygg, af hæstv. ríkisstj. að reyna að fá fram afgreiðslu á máli þessu í dag og á morgun. Við höfum rætt þá ósk í þingflokki Alþfl. og erum fúsir til að veita afbeina okkar til þess, að hægt sé að ljúka umræðu og afgreiðslu þessa máls frá deildinni í dag og á morgun, og munum að sjálfsögðu standa við þá afstöðu okkar. M. a. af þeim sökum mun ég ekki fara fleiri orðum um málið hér, þó svo að það sé margt í því sem er óljóst og þyrfti nánari skýringa við.