25.02.1981
Neðri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2592 í B-deild Alþingistíðinda. (2753)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér komu nokkuð á óvart síðustu orð hv. síðasta ræðumanns um það, að Alþfl. ætli að leggja sig fram um að hraða afgreiðslu þessa máls. Ég vil lýsa því yfir, að ég hef síður en svo á móti því, að þetta mál sé afgreitt, en afgreitt með eðlilegum hætti. Og ég get ekki tekið undir þá lipurð við ríkisstj. sem Sighvatur Björgvinsson sýnir. Þegar frsm. þessa máls, hæstv. forsrh., er horfinn undir umr. alveg sporlaust, þá sé ég ekki að það sé mikill áhugi hjá ríkisstj. að afgreiða þetta mál. Þeir koma hér einn og einn í salinn og setjast í stólinn eins og kría sest á stein. Ég sagði hér áðan: Sennilega eru þeir að kaupa farseðlana til þess að komast úr landi sem allra fyrst á Norðurlandaráðsþingið. Þetta er nú áhuginn fyrir að koma þessu máli sínu fram. Þeir eru allir á þönum út og suður nema blessaður sjútvrh. Hann kvað ætla að vera heima núna. (Gripið fram í: Breytir það nokkru? — ÓRG: Það er slæmt að mega ekki grípa fram í núna.) Ja, var nú ekki leiðtogi Sþ. og Ed. að gera það eitthvað núna eða með tilburði í þá áttina. Ég verð að segja það, að ekki finnst mér þetta bera vott um að Alþingi haldi mikilli reisn. Það er verið að ræða hér staðfestingu brbl., sem vöktu að dómi ráðh. heimsathygli á gamlárskvöld eða gamlársdag, og áhugi þdm. er ekki meiri en svo, að það er aldrei hér yfir fjórðungur þdm. inni í einu og sennilega ekki nema helmingur í húsinu, og ef nú verður hætt umr. hér er ekki hægt að koma málinu til nefndar. (Gripið fram í: Ekki einu sinni með aðstoð Ed.-manna?) Jafnvel þó að sá Ed.-maður, sem sýnir svo mikinn áhuga á störfum deildarinnar, fengi að greiða atkvæði í Nd., þá mundi það ekki duga. (Gripið fram í: Það fær hann ekki.) Nei.

Í ræðu, sem Geir Hallgrímsson flutti hér fyrr í dag rakti hann ítarlega brbl. og færði rök fyrir því, að það bar enga nauðsyn til að setja brbl. á gamlársdag, það var ekkert sem knúði ríkisstj. til að leggja fram brbl. annað en það, að ríkisstj. þurfti að halda áramótaskaup á gamlársdag. Hún lagði fram þessi brbl. og svokallaða efnahagsstefnu þann dag. Og Alþb.-menn og framsóknarmenn rifust dagana milli jóla og nýárs og fram á gamlársdag um hin og þessi ákvæði brbl. með þeim afleiðingum að fresta varð upptöku í sjónvarpssal tvisvar eða þrisvar þennan dag. Og veslings forsrh., bandingi kommúnista, beið og beið með sitt spariandlit. Og það varð að taka þáttinn upp tvisvar. Það var ekki hægt að gera þetta í einu lagi. Það þurfti að endurtaka hann í stúdíóinu því þetta var enginn tími fyrir forsrh., sem er afbragðsleikari og kominn af leikurum, að ná hlutverkinu í fyrstu atrennu. Þess vegna varð að endurtaka það.

Í vetur, eða frá því að þing kom saman og alveg fram að jólum, voru þessir tíu garpar spurðir, þ. e. þegar þeir voru heima svona sitt á hvað á landinu, hvað þeir ætluðu að gera í efnahagsmálum. Það fékkst aldrei neitt út úr þeim. Það var alveg eins og væri skorin úr þeim tungan. Nema þeir komu með negrakossagjaldið og gosdrykkjagjaldið rétt fyrir jólin, sem kostaði 1.5 milljarða, og einn negrakoss fyrir einn til að sitja hjá. Þetta voru afrekin í efnahagsmálunum. Það mátti ekkert segja og ekkert gera fram að jólum. En svo voru góð ráð dýr. Þetta bölvaða Alþingi var þá komið heim og þeir lausir við það. Og nú gátu þeir sett á svið þennan þátt sem var síðbúinn, eins og ég sagði áðan. Og það er margt skemmtilegt í þessu. Þeir hafa heimild í fjárlögunum til þess að skera niður framkvæmdir upp á 3 milljarða gkr. og þeir hafa enn fremur samkvæmt þessu heimild til enn frekari niðurskurðar. Þeir hafa getað glímt við þessa 3 milljarða gkr. frá 20. des., að þeir losnuðu við þingið, til 25. febr., en við frekari niðurskurð frá áramótum eða frá gamlársdegi. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá fjmrh., hvað hann væri nú búinn að skera niður, hvað liggi nú eftir kappana eftir allan þennan tíma, hvar sé allur sparnaðurinn og hvað þeir ætti að gera, en ekki afla sér alltaf heimilda ofan á heimildir. Sennilega getur engin ríkisstj. í allri veröldinni státað sig af öðru eins og þessi, þegar hún gefur út brbl. á gamlársdag um heimild til að skera niður lánsfjáráætlun ríkisstj. sem hefur ekki enn þá séð dagsins ljós hér á Alþingi. En þeir töldu brýna nauðsyn bera til að fá heimild á gamlársdag til þess að skera niður lánsfjáráætlun sem hefur ekki verið lögð fram 25. febr. Og það eru tveir lagaprófessorar í ríkisstj. Ég tala nú ekki um hina átta. Þetta er afrek sem verður tekið eftir í heimspressunni.

Flokkurinn, sem ræður öllu í ríkisstj., Alþb., hefur haft harða og ákveðna stefnu í kjaramálunum. Það er flokkur sem hefur ekki verið að klípa utan af því hvað þeir ætluðu að gera þegar þeir kæmu til áhrifa. Eins og eftir útflutningsbannið 1978, þá kom út glansútgáfan af stefnuskránni. Og þar segir að ríkisvaldinu beri að hafa náið samráð við samtök launamanna, sjómanna og bænda um allar aðgerðir, sem snerta hagsmuni þeirra, og styðja þessi samtök í sókn til bættra lífskjara og réttlátara þjóðfélags. Það er þetta sem réð t. d. afstöðu ríkisstj. til fiskverðsákvörðunar Verðlagsráðsins fyrir skömmu. Og það er ekki fyrr en flotinn er að sigla í höfn að þeir leggja niður rófuna, þessir garpar. Samningsfrelsi og verðbætur á laun eru prentaðar hérna með rauðu, yfirskriftin, með uppáhaldstílnum. Og síðan kemur: „Stéttarsamtökin skulu hafa fullt frelsi til samninga um kjör félaga sinna. Gerða samninga ber skilyrðislaust að virða.“ Þetta eru þeirra orð, ekki mín. „Stuðla ber að launajöfnuði og tryggja raunverulegt launajafnrétti karla og kvenna. Launamenn eiga réttláta kröfu til þess að laun séu verðtryggð samkvæmt samningum hverju sinni.“

Þetta er skýlaus stefna og ákveðin. Og þessari stefnu er fylgt fast eftir af þingmönnum Alþb. og forustumönnum í launþegastétt sem fylgja nú fast eftir hvernig eigi að tryggja samningana í gildi. Það kom hér fram í ræðu í dag, að Alþb. hefur staðið að kaupskerðingu upp á hvorki meira né minna en 34%. Þetta er framkvæmd þessarar stefnu. Þetta eru heiðarlegir menn eða hitt þó heldur. Ég er hissa að þeir skuli ekki læðast með veggjum. Hvar er svo launþegahreyfingin núna? Hvar er launajafnréttisstefna Alþb.? Lýsir hún sér í samningunum við BSRB og fjmrh. fyrir skömmu. Þá eru með annarri hendinni teknar af þeim með kaupskerðingu launauppbætur, en svo fá þeir aftur einhverja smáuppbót, og hún er með þeim hætti, jafnlaunastefnan, að þeir, sem eru í lægstu launaflokkunum, fá 1/6 á móti þeim að krónutölu sem eru í hæstu flokkunum. Og þetta segir hæstv. fjmrh. að sé launajafnréttisstefna.

Forusta ASÍ er orðin nokkuð breytt núna á síðustu dögum. Hún er kölluð upp í fjmrn. í gær, og m. a. s. fjmrh., sem hefur gott samband við suma af þessum mönnum, taldi að þetta væri bara fyrsti fundur. En þeir byrjuðu, forustumenn ASÍ, að bukka sig og beygja. Og hinn notaði auðvitað tækifærið, sem var alveg sjálfsagt af honum að gera, því að hinir sögðu: Ja, þetta er ágætt, hæstv. fjmrh., við erum afskaplega ánægðir með þessa stefnu, með þessa skattalækkun, með uppbætur á bætur almannatrygginga. Og fjmrh. sagði og hugsaði sem svo: Fyrst þeir eru svona grautlinir, þá er best að ganga frá þessu strax og vera ekki að eyða lengri tíma á þessa pilta. (Gripið fram í: Við þökkuðum honum fyrir líka.) Já, og föðmuðuð hann og kysstuð og meira til. Það fer ekki fram hjá neinum þó menn sjái það ekki, þeir vita það.

Svo kom ágæt frétt í gær, fyrst hér inn í þingið, í Ed. Það var fréttatilkynning frá heilbr.- og trmrn. Og þetta kemur við lok umræðna í Ed. Síðan hlaupa fréttamiðlar af stað og fjöldi af ellilífeyrisþegum í þessu landi stóð á því fastar en fótunum eftir þessar fréttir, að bætur almannatrygginga hefðu hækkað um 14.6% umfram þær verðbætur sem launamenn áttu að fá, því að fréttatilkynningin og fréttin var svona vel og haganlega úr garði gerð. Það var ekki fyrir alla. Og þm. í Ed. flöskuðu á þessu, töldu að fram komin brtt. gengi skemmra en ákvarðanir ríkisstj., og skal ég nánar koma að þessu, enda á því brýn nauðsyn. Það er brýn nauðsyn fyrir almenning í þessu landi og fyrir alla aðra að vara sig á blekkingavef þessarar ríkisstj. Allt, sem þessi ríkisstj. gerir, er gert í blekkingaskyni. Hún getur aldrei komið hreint til dyranna, hún þarf alltaf að blekkja fólkið í landinu, og m. a. s. gengur það svo langt, að þeir eru alltaf að blekkja hver annan í ríkisstj. Og jafnvel einstakir ráðherrar reyna að blekkja sjálfa sig til þess að halda sér við það að vera að blekkja.

Verðuppbætur á laun áttu að hækka samkv. framfærsluvísitölu frá 2. nóv. á s. l. ári til 1. febr. um 14.32%. Frá átti svo að dragast búvörufrádráttur 1.32% og verðhækkun áfengis og tóbaks í nóv. 0.89%, eða 2.21%. Hér hefði því verið um að ræða 12.11%, en við bætast svo áhrif bættra viðskiptakjara samkv. 3. tölulið 50. gr. laga nr. 13 frá 1979, 0.84%, þannig að verðbæturnar hefðu átt að nema 12.95%. Frá þessu eru svo dregin 7% samkv. þessum brbl., þannig að verðbótahækkun launa núna frá 1. mars er 5.95%.

Heilbrmrn. segir: „Á fundi ríkisstj. í gær var samþykkt tillaga um sérstaka 8% hækkun tekjutryggingar elli- og örorkulífeyrisþega. Jafnframt var samþykkt sérstök hækkun heimilisuppbótar, einnig 8%. Ofan á þessa hækkun komi síðan hækkun um 6% og skulu allar bætur lífeyrisdeildar almannatrygginga hækka um þá prósentu. Þannig verður heildarhækkun tekjutryggingar elli- og örorkulífeyris og heimilisuppbótar liðlega 14%.“

Fólk gleypti við þessari tilkynningu og hélt að hér væri um að ræða almenna hækkun ellilífeyris, tekjutryggingar og heimilisuppbótar um 14%. En það var nú aldeilis ekki. Það er rétt, að heimilisuppbótin hækkar um þessi 14.6%. En heimilisuppbótin er tiltölulega lítil uppbót, sem í árslok 1979 var greidd til 2577 manna, einstaklinga. Tekjutryggingarhækkunin er góðra gjalda verð, það skal ég alveg taka undir. Og hún er auðvitað langstærsta uppbótin, því að hún náði á sama tíma og ég nefndi áðan til 11 409 manna. En þeir, sem eru með almennan ellilífeyri, voru á þessum sama tíma 18 317. Þeir fá ekki nema 6% hækkun á þann lífeyri.

Ef við tökum hjón, sem njóta tekjutryggingaruppbótar og auðvitað ellilífeyris eða örorkulífeyris, þá hækka grunnlaun þeirra í ellilífeyrinum úr 1186 nýkr. í 1257, en tekjutryggingin úr 1160 í 1329. Ef við leggjum saman grunnlífeyrinn til einstaklinga og tekjutrygginguna, þá er það samtals 2586 kr. fyrir einstakling, en 4509 kr, til hjóna — og er þá miðað í báðum tilfellum við 67 ára aldur. Þá er hækkunin 10.1%. Það eru nú öll ósköpin á sama tíma og vísitalan átti að hækka um 14.32% ef skerðingarákvæði Alþb. og félaga þess hefði ekki verið til að dreifa. M. ö. o. er verið að skerða lífskjör þessa fólks af vinum þeirra, sem eru vinir þeirra fyrir kosningar — og það heldur betur.

Hvað er svo með aðrar bætur? Hvað með bætur til ekkju, ekkils, barnalífeyri, slysadagpeninga, sjúkralífeyri, vasapeningana á sjúkrahúsunum og uppbót á lífeyri til þeirra sem engar tekjur hafa, hvað með fæðingarorlofið? Það er skert eins og til annarra — og það heldur betur. Þarna ná þeir sér niðri, og forustumenn ASÍ þakka alveg sérstaklega fyrir, alveg innilega ánægðir og segja að nú hafi þeir allt á sléttu.

En forustumenn ASÍ þurfa ekki að halda að þeir sleppi svona vel. Ef verið væri að gera markvissar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem mundu hafa í för með sér að við værum að vinna bug á verðbólgunni, færa verðbólguna verulega niður og á þann hátt að styrkja stöðu þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, þá væri ekkert við þessu að segja og sjálfsagt að taka undir þetta. En niðurstaðan af brbl. er ekkert annað en kaupskerðing. Svo er lofað á báða bóga. Við næsta tímabil verða greiddar fullar verðbætur, er sagt: 1. júní, 1. sept., 1. des. Og meira en það, það á að borga þetta til baka, þessi skerðingarákvæði. Þessu er lofað. En hvernig á að hægja á verðbólgunni með þessum loforðum einum saman? Forsrh. er horfinn. Hann sagði ekkert um það, þegar hann fylgdi málinu úr hlaði í dag, hvað væri fram undan, hvað ætti að gera í næsta skrefi. Þessu landi er stjórnað núna frá degi til dags af ráðþrota ríkisstj., af mönnum sem hafa komið sér saman um að mynda ríkisstj. með blekkingum einum saman og lifa í blekkingum síðan. Þeir ætla sér að lifa í blekkingum áfram og mega því ekki vera að því að gera tilraun til að stjórna landinu, enda rekur þetta þjóðfélag fyrir sjó og vindi. Og það er hart að launþegaforingjar í landinu skuli láta fara með sig eins og einn ónefndur þm. gerir sem hér er inni, hann veit við hvern ég á.

Ég tel erfitt og í raun og veru útilokað að halda umr. áfram um þetta mál nema forsrh. sé viðstaddur. Ég veit að það er mikið og náið samband milli félmrh. og forsrh. Ég held jafnvel að þeir hefðu átt að hafa hausavíxl og senda hæstv. félmrh. upp á Akranes, því að það sér enginn tengur hvor er meiri kommi, hann eða hæstv. félmrh. Nema sá er munurinn, að félmrh. hefur vald í sínum flokki, en hinn ímyndar sér að hafa eitthvert vald og að hann sé þjóðardýrlingur af því Dagblaðið er að spila með hann, strákar þar. Honum hefði verið nær, hæstv. forsrh., að vera hér við umr. og fylgja áramótaskaupi sínu eftir.

Vinnubrögð þessarar ríkisstj. eru með eindæmum. Og ef menn vilja trúa því, að almenningur í landinu telji þetta til fyrirmyndar og hann taki við hverju sem er, þá mega þeir lifa í villu og svíma sem það vilja. En það verður hægt að fletta ofan af þeim sem þannig haga sér. (Gripið fram í: Er þetta skrifað illa?) Já, þessi fsp. kemur nú skriflega. Þá getur forseti sennilega ekki bannað mér að svara. (Forseti: Það verða ekki veitt afbrigði fyrir henni.) Hver var hækkun á bótum almannatrygginga með lögum 17. febr. 1978? Í öllum aðgerðum þeirrar ríkisstj. var alltaf séð fyrir láglaunauppbót. Allt frá því að hún tók við 1974 og til þess tíma að hún hvarf frá 1978. Nú er það ekki gert.

Þessar skattabreytingar, sem formaður Verkamannasambands Íslands kyssti fjmrh. fyrir í gær, það er viðurkennt að þær komi illa til skila til tekjutryggingarþega. Þeir sitja eftir með skarðan hlut, þetta fólk sem hefur minnstar tekjur í landinu. Og það er það sem þeir eru að þakka núna fyrir, þessir höfðingjar. (GJG: Eru það ekki 2%?) Í yfirlýsingu fjmrh., sem dagsett er í gær, um fyrirhugaðar skattalækkanir segir svo:

„Svo dæmi sé nefnt leiðir þessi breyting á tekjusköttum til 1.5–1.8% skattalækkunar á tekjubitinu 4–10 millj. kr. Þar sem þessi skattalækkun kemst hins vegar illa til skila til þeirra, sem lifa eingöngu á tekjutryggingu og heimilisuppbót Tryggingastofnunar ríkisins, hefur verið ákveðið að hækka þessar bætur 1. mars n.k. um 8% umfram þá hækkun sem verður þá á almennum launum vegna hækkunar verðbóta um 5.95%. Kaupmáttur tekjutryggingar eykst því verulega á þessu ári.“

Þvílíkt fals og blekking! Vita ekki forustumenn ASÍ að þeir, sem njóta tekjutryggingarbóta njóta jafnframt ellilífeyris eða örorkubóta? Því er ekki um kaupmáttaraukningu að ræða þegar við lítum á þessar tekjur í heild. Þarna er blekkingin uppi. Þetta er blekkingin sem fjölmiðlarnir, sérstaklega ríkisfjölmiðlarnir, báru á borð fyrir þjóðina í gærkvöld. Það kom engin skýring með. Fulltrúar beggja stjórnarandstöðuflokka fengu að tala í eina mínútu í hádegisútvarpinu. Það má segja að það ríki að vissu leyti aðeins meira frelsi hér enn þá en er austantjalds, því þar hefðu þeir ekki fengið eina sekúndu. En það kemur enginn sínum skýringum að með þessu móti.

Blekkingin lifir, segir þessi ríkisstj. Hún lifir á blekkingunum. Hún nærist á þeim. Ef þeir viðhefðu ekki blekkingar mundu þeir drepast út af á örskömmum tíma. Því að þeir geta ekki breytt um fæðu, þeir eru búnir að venja sig á þetta. (Gripið fram í: Þingmaðurinn er nú vel nærður líka.) Já, ég borða landbúnaðarafurðir og sjávarútvegsafurðir. Ég lifi ekki á flugskýlum og slíku.

Þessi ákvörðun um skattalækkun var tekin að höfðu samráði við fjóra fulltrúa ASÍ sem lýstu því yfir á fundi í fjmrn. í dag, að þeir teldu að með þessari ákvörðun hefði ríkisstj. fyllilega staðið við það loforð sitt að lækka skatta sem svarar 1.5% í kaupmætti launa. Það væri gaman að fá þá, þessa fjóra höfðingja, til að sýna útreikninga sína á kaupmætti launa með þessum aðgerðum. Það kemur ekki fram, að samkv. því sem Þjóðhagsstofnunin hefur látið frá sér fara hafa laun á milli ára hækkað um 51–52%, en skattvísitala fjárlaga er 45%. Á þann hátt tók ríkisvaldið og ætlar að taka af fólkinu í landinu mun hærri skatta en gert var á s. l. ári. Og þetta var einnig gert með samþykki þingmanna stjórnarliðsins, annars hefði það ekki náð fram að ganga. Og það er eitthvað annað en sagt var hér nokkru fyrr af ASÍ. Þá var kvartað undan þessum skerðingum. Í bréfi Alþýðusambandsins 17. febr. segir:

„Stjórnvöld hafa nú ákveðið með lögum að skerða verðbætur fyrir 1. mars n. k. um 7 prósentustig. Með því er gengið þvert á mikilvæg samningsákvæði, sem eitt sér er fordæmanlegt. Á móti þessu kemur ákvörðun um að síðar á árinu verði ýmsir skerðingarliðir verðbótavísitölu afnumdir og skattar lækkaðir um 1.5% á meðaltekjum og lægri.“

Hver er lækkunin ef gengið hefði verið út frá því að tryggja óskertan kaupmátt á milli ára? Er þá hér um lækkun að ræða? Nei, það er um hækkun að ræða. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að forvígismenn ASÍ séu svo vitlausir að þeir hafi ekki vitað þetta. Þeir eru sekir ekkert síður en ríkisstj.

Alþýðusambandið sagði líka 17. febr.: „Alþýðusambandið hefur á allan fyrirvara um þessar ráðstafanir stjórnvalda“ —það var um brbl. — „og áskilur sér fyllsta rétt til nauðsynlegra aðgerða til þess að tryggja umsaminn kaupmátt. Samtökin ítreka að jafnmikilvægt og það er að draga úr verðbólgunni er nauðsynlegt að sjá svo um að atvinnuöryggi og kaupmætti fólks með meðaltekjur og lægri verði ekki fórnað. Miðstjórn ASÍ leggur á það höfuðáherslu, að staðið verði við þá yfirlýsingu að kaupmáttur haldist óskertur, og er ljóst, að til þess að ná þeim árangri í þróun verðlagsmála, sem að er stefnt, verður fleira að koma til en þær ákvarðanir varðandi launa- og gengismál sem þegar hafa verið teknar.“

Og miðstjórn ASÍ leggur í þessu bréfi áherslu á að hraða ákvörðunum um framkvæmd aðgerðanna, jafnt til langs og skamms tíma, og þess verði að krefjast, að verkalýðssamtökin fái aðild að undirbúningi þeirrar ákvarðanatöku þegar á frumstigi.

Hvaða aðild hefur ASÍ fengið að ákvarðanatöku ríkisstj.? Þeir eru kallaðir, þeir eru leiddir fyrir ráðh. og sagt að strjúka bakið á þeim. Og þeir gera það, þessir stóru og miklu baráttumenn, ábúðarfullir mjög, sem hefur farið mikið fyrir á undanförnum árum. Nú getur ekki stærri maður en Ragnar Arnalds er troðið Guðmundi J. Guðmundssyni niður í vasa sinn. Ég hugsa að hann Hjörleifur geti komið honum í vestisvasann. Þetta er nú harkan í verkalýðsforustunni á Íslandi í dag. Hún situr bara eftir með kjaraskerðinguna og verðbólguna á fullri ferð. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að kjósa sér hentugan stað í ræðu sinni til frestunar því að innan tíðar mun ég fresta þessum fundi.) Já, ég tek alveg undir það að þessari umr. verði frestað. Þá gefst þingdeildinni tækifæri til þess að hafa forsrh. hér viðstaddan umr. Fjh.- og viðskn. var boðuð til fundar kl. hálfníu í fyrramálið. (Gripið fram í.) Já, það er gott að heyra það. Og Framkvæmdastofnun er á fundi á sama tíma. Stjórnarliðar ráða ferðinni í fundarboðun. En þeir, sem eru á báðum stöðum, geta ekki verið nema á einum fundi samtímis. Það var ætlunin í dag að afgreiða málið fyrir hádegi, helst fyrir kl. 11, og það með átti þessi deild, Nd., eiginlega ekkert að fjalla um málið. Og mér skilst á talsmanni Alþfl, að hann hafi legið alveg hundflatur fyrir þessu öllu, eins og hann sagði í lok ræðu sinnar.

Við sjálfstæðismenn eru tilbúnir að halda fund á föstudag. Við erum ekkert að biðjast undan því að afgreiða þetta mál. Það er enginn að biðjast undan því. En til þess að hægt sé að afgreiða mál er ekki hægt að boða menn nema á einn fund í einu. Og það er líka skilyrði að ráðh. og þá sérstaklega forsrh. sé viðstaddur umr. í máli sem hann hefur framsögu fyrir. Þá þarf að spyrja allmargra spurninga, ekki eingöngu um þessi brbl., heldur einnig hvað á að koma á eftir. Það er það sem þjóðin bíður eftir. Enginn venjulegur maður lifir mánuðum saman á blekkingunum einum. — [Frh.].