26.02.1981
Efri deild: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2604 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

231. mál, eftirlaun til aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. forseta svo og þeim fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna, sem ég ræddi við um það, að gefinn er kostur á því að taka þetta mál á dagskrá nú með þessum óvenjulega hætti. Ástæðan er sú, að þau bréf sem eiga reglum samkvæmt að ganga til forseta deildanna þegar um er að ræða frumvörp af þessu tagi, hafa með einhverjum hætti misfarist, enda þótt frumvörpunum hafi verið útbýtt fyrir 2–3 dögum, og með tilliti til þess, að ég er á förum eins og fleiri ráðherrar — eins og alþjóð veit — á þing Norðurlandaráðs, óskaði ég eftir því að fá að mæla núna fyrir þessum málum sem eru á hinni nýju útbýttu dagskrá.

Það frv., sem ég mæli fyrir nú, fjallar um breytingu á lögum um eftirlaun til aldraðra og gerir ráð fyrir að menn fái sjálfkrafa 3 stig í lífeyrisréttindi til viðbótar við þau réttindi sem menn hafa þegar fyrir samkv. lögum um eftirlaun aldraðra. Þessi breyting hefur það í för með sér, að talsvert eykst sá lífeyrisréttur sem menn fá frá Umsjónarnefnd eftirlauna, en hann er lítill, eins og menn vita, og brýn nauðsyn á að þar verði úr bætt. Það verður hins vegar ekki gert, að mínu mati, nema með heildaruppstokkun á lífeyriskerfinu sem er orðið allt of flókið.

Þau 3 stig, sem hér er um að ræða, verða kostuð af Atvinnuleysistryggingasjóði samkv. frv. Kostnaður við það er um 800 millj. kr., en þar á móti hefur ríkisstj. og Alþingi létt af Atvinnuleysistryggingasjóði útgjöldum upp á um það bil 2000 millj. kr. vegna breytingar á lögum um fæðingarorlof sem voru afgreidd hér í hv. deild fyrir hátíðarnar. Það er mat okkar að Atvinnuleysistryggingasjóður eigi því að geta ráðið við það verkefni sem hér er lagt til að á hann verði lagt.

Það er jafnframt ljóst, að í lögum um eftirlaun til aldraðra er gert ráð fyrir að flest fjárhagsákvæði þeirra gildi aðeins til ársloka 1982, og þess vegna er óhjákvæmilegt að allar forsendur þeirra laga verði endurskoðaðar. Í yfirlýsingum ríkisstj. um lífeyrismál hefur komið fram, að stefnt sé að því að koma á samfelldu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn á árinu 1982. Það er í samræmi við þá stefnumörkun, að því hefur verið lýst yfir að þeirri útgjaldaaukningu, sem er um að ræða í þessu frv., verði létt af Atvinnuleysistryggingasjóði í áföngum.

Við höfum hins vegar ekki treyst okkur til þess að kveða nánar á um þá áfanga. Það er ekki hægt á þessu stigi málsins og þess vegna verður að sinni að nægja slík yfirlýsing af hálfu ríkisstj., eins og raunar kom fram í þeim viðræðum sem við áttum við verkalýðshreyfinguna þegar gengið var frá kjarasamningum 27. okt. s. l. Það er alveg ljóst, að verkalýðshreyfingin er ekki samþykk því að þetta verði kostað úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Samþykki hennar við því liggur ekki fyrir og ég ætla enga dul að draga á það hér.

Ég leyfi mér herra forseti, að leggja til eftir þessa stuttu framsöguræðu, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. Ég vil þó að allra síðustu segja ykkur frá yfirliti um útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs eins og þau eru áætluð núna vegna laga um eftirlaun til aldraðra.

Á árinu 1981 er gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður beri vegna I. kafla laganna, þ. e. 75% af útgjöldum til lífeyris án uppbótar,12.4 millj. nýkr., hann beri vegna II. kafla laganna 2.9 millj. nýkr. og samkv. þeim kafla, sem hér er verið að fjalla um, kosti þessi 3 viðbótarstig um 8–9 millj, nýkr. Þá er meðtalin sá kostnaður sem hlýst af verðlagsuppbót á þessi 3 stig.

Ég er reiðubúinn að svara um þetta spurningum, en með tilliti til þess, hvernig málið er komið hér inn á dagskrá, vil ég ekki þreyta menn á löngum ræðuhöldum um málið að sinni.