26.02.1981
Efri deild: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2605 í B-deild Alþingistíðinda. (2761)

231. mál, eftirlaun til aldraðra

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af þessari nýju dagskrá og þeim tveimur nýju málum sem hér hafa verið tekin til umr. að beiðni ráðh.

Það mun ekkert standa á Alþfl. að veita þessu máli brautargengi rétta leið. Ég vil hins vegar greina frá því hér og nú, að við meðferð málsins í n. verður flutt brtt. af hálfu Alþfl. við 1. gr. þessa frv. í þá veru að þessi þriggja stiga viðbót falli ekki aðeins í skaut þeim, sem réttinda njóta samkv. I. kafla laganna, heldur og þeim, sem réttar njóta samkv. II. kafla laganna. Það sýnist engin ástæða til að gera greinarmun þar á, en í II. kafla laganna er fjallað um þá sem ekki hafa áður átt aðild að lífeyrissjóði.