26.02.1981
Neðri deild: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (2770)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að þm. gefi sér nokkuð góðan tíma til að ræða stefnuna í efnahagsmálum. Það er málefni sem höfðar til flestra í þjóðfélaginu, og ekki er þetta síst eðlilegt miðað við það sem gerst hefur á undanförnum vikum og mánuðum og horft til enn lengri tíma.

Það frv., sem hér er til umr., er um staðfestingu á brbl. sem hæstv. ríkisstj. gaf út á gamlársdag. Eins og hér hefur komið fram er í raun og veru einvörðungu um það að ræða í þessum brbl. að skerða almennt kaup í landinu um 7%, taka 7% af því kaupgjaldi sem aðilar vinnumarkaðarins undir handarjaðri hæstv. ríkisstj. sömdu um í frjálsum samningum í lok októbermánaðar s. l. Ég sagði „skerða“ kaup. Einhvern tíma hefðu einhverjir sagt „kauprán“ undir svipuðum kringumstæðum. Það á kannske ekki síst við hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson og hæstv. félmrh. Þeir hefðu notað það orðbragð við svipaðar kringumstæður hefði öðruvísi staðið á með ríkisstjórn landsins.

Auðvitað er það rétt, að margar — líklega allar — ríkisstjórnir hér á landi hafa með einhverjum hætti krukkað í gerða kjarasamninga og vísitölubætur. Ég hygg að þar þurfi enga ríkisstj. undan að skilja. Vissulega hefur þetta verið gert með misjöfnum hætti. En það er þó eitt eftirtektarvert í þessu: Sá flokkurinn, sem nú ræður ferðinni í ríkisstj., Alþb., hefur alfarið og alltaf þar til nú neitað því að eiga aðild að skerðingu á vísitölubótum eða að skerðingu gerðra samninga með lögum. Hann hefur alfarið neitað því að eiga aðild að slíku.

Það er fróðlegt í þessu að rifja upp með örfáum orðum það sem hefur gerst á nokkrum undanförnum árum. Það hefur verið vikið að því fyrr í umr. hvað gerðist t. d. 1978. Þá var það ekki kallað jöfn skipti að breyta vísitöluuppbótum með löggjöf eða skerða laun. Þá var það einfaldlega kallað „kauprán“ og svo langt gengið af þeim fulltrúum Alþb., fyrst og fremst í verkalýðshreyfingunni, sem réðu ferðinni, að ekki var einvörðungu sett útflutningsbann, sem kom auðvitað langverst niður á þeim sem síst skyldi, heldur og uppi hafðar ólöglegar aðgerðir í formi verkfalla með ólöglegum hætti. Þá þótti sumum hverjum hv. þm., sem nú eru á þingi og voru í fararbroddi í verkalýðshreyfingunni þá og eru enn, svo mikið við liggja að þeir töldu líf liggja við að beita ólöglegum vinnubrögðum til að knýja frá völdum ríkjandi stjórn á þeim tíma. Þá var kjörorðið „samningana í gildi“. Það kom ekki síst frá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni. (Gripið fram í: Og þér líka.) Já, það er rétt, hv. þm. Halldór Ásgrímsson. Það kom frá mér. En ég virti þó lýðræðisleg vinnubrögð í landinu og í hreyfingunni. Það er meira en hægt er að segja um suma þá samstarfsmenn sem þú hefur valið þér, hv. þm. (Fjmrh: Hvernig þá?) Hann hefur valið sér þá af frjálsum vilja, geri ég ráð fyrir, nema því aðeins að hann hafi verið þvingaður til þess með einhverjum hætti. Kannske hæstv. fjmrh. eigi einhvern hlut að máli þar. (Gripið fram í. — Forseti: Ekki samtal.) Ég held að það sé rétt, hæstv. forseti, að leyfa þeim þm., sem erfitt eiga um að sitja undir þessum umr., að tjá sig beint úr sæti sínu. Þeim liggur greinilega mikið á og er eðlilega mikið niðri fyrir undir þessum kringumstæðum.

Ég ætla að víkja örfáum orðum að því sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði 1978, rétt í þann mund sem íslensk alþýða gekk að kjörborðinu í almennum alþingiskosningum. Undanfari þess var það sem gert var af hálfu verkalýðshreyfingarinnar undir forustu kommúnista fyrst og fremst, þ. e. ólögleg verkföll og útflutningsbann. Þá sagði þessi hv. þm., með leyfi forseta, 23. júní, í tilefni af eins árs afmæli sólstöðusamninganna svonefndu: Fyrirsögnin er: „Fullar verðlagsbætur, eina vörn launafólksins“. Hv. þm. sagði þá:

„Samningarnir bundu loks enda á þriggja ára tímabil samfelldrar kjararýrnunar. Kaupmætti launa var lyft verulega, einkum láglauna. Tekin voru inn að nýju ákvæðin um fulla og óskerta vísitölu. Fullar verðlagsbætur samkv. vísitölu eru eina vörn launafólks gegn því að verðbólgan rífi niður kaupmáttinn. Full vísitala er líka beinlínis vörn gegn óðaverðbólgu. Reynslan sýnir að því skertari sem vísitalan er, þeim mun meiri er verðbólgan.“

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir einfaldlega það, að hafi þessi ummæli þessa hv. þm. verið rétt og séu rétt er hann nú að breyta algerlega andstætt því sem hann hélt að væri rétt þá, nema þá því aðeins að hv. þm. hafi komist að raun um að hann hafi haft vitlausa skoðun þá. Það er ekki nema tvennt til: Annað hvort hefur hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson haft rangt fyrir sér þegar hann fullyrti þetta eða hann er nú vísvitandi að skerða laun og kjör láglaunafólks í landinu þrátt fyrir að hann viti fyrir fram til hvers það leiðir. Þetta er svo einfalt að hver ætti að sjá, og auðvitað sjá menn þetta. En það eru til menn innan íslenskra stjórnmálaflokka sem gegna þeirri iðju, leggja það á sig í flokkshollustu að ganga gegn sinni sannfæringu, ganga gegn þeim umbjóðendum sem þeir eru talsmenn fyrir, skerða kjör þess láglaunafólks sem þeir eiga fyrst og fremst að vernda. Þetta hendir allt of oft í íslenskum stjórnmálum, ekki kannske hvað síst hjá þeim forustumönnun innan verklýðshreyfingarinnar sem eru í pólitísku starfi líka og tilheyra þá sér í lagi einum stjórnmálaflokki, Alþb.

Það væri hægt að rekja svona ummæli velflestra, ef ekki allra forustumanna Alþb. í verkalýðshreyfingunni frá árinu 1978. Ég læt nægja í bili, nema frekara tilefni gefist til, að vitna í þennan oddvita Alþb. innan verkalýðshreyfingarinnar, sem er í ofanálag forsvarsmaður láglaunafólksins í landinu og á fyrst og fremst að gæta hags þess. Það er gert með þessum hætti.

Nú skal það tekið skýrt fram, að það hefur verið og er yfirlýst stefna verkalýðshreyfingarinnar í landinu –grundvallarafstaða — að það eigi ekki að skerða löglega gerða samninga með lagaboði.

Í kosningaslagnum 1979 minnist ég þess, að í ræðum margra frambjóðenda Alþb. í þeim kosningum var margítrekað að efnahagsvandann ætti ekki að leysa á kostnað launafólks, ekki skerða laun eða kaup þessa fólks, og því aðeins yrði haldið við þá stefnu í reynd að Alþb. kæmi sterkt út úr þeim kosningum. Það yrði aldrei léð máls á því að breyta gerðum kjarasamningum til skerðingar með lagaboði ef Alþb. hefði aðstöðu í ríkisstj. Þetta voru kosningaloforðin sem gefin voru. En það er eitthvað annað sem nú blasir við. Það er engin furða þó að farið sé að gæta pólitísks náttúruleysis hjá einstökum þm. Alþb. þegar svona er snúið þversum á þau fyrirheit sem gefin hafa verið í kosningum, — ekki bara 1979, heldur og oft áður. Ég er ekkert hissa á því, þó að þm. Alþb. fari að lýsa yfir pólitísku náttúruleysi hver á fætur öðrum í því ástandi sem nú ríkir innan herbúða þar. Og ég er ekkert hissa á því, þó að almenningur í landinu hafi fyrir löngu orðið var við það pólitíska náttúruleysi sem ný hrjáir einstaka þm. Alþb. Það hefur í reynd verið að grafa um sig í nokkuð langan tíma, en brýst nú út, eins og alþjóð er kunnugt og hefur heyrst í ríkisfjölmiðli fyrir stundu og virðist íþyngja æ meir og æ fleiri þessum hv. þm.

Hv. Alþb.-þm. hafa gagnrýnt Alþfl. fyrir það, að hann hefur viljað í samstarfi við launþegahreyfinguna í landinu taka skynsamlega á málum í sambandi við kjarasamninga og kjarabætur, að hann hefur lýst því yfir, að það sé hagstæðara, raunhæfara, ekki síst fyrir láglaunafólkið, sem fyrst og fremst þarf að bæta kjör hjá, að bæta þau með skattalækkunum og í gegnum atmannatryggingakerfið. Fyrir þetta hefur Alþb.-liðið gagnrýnt Alþfl. og það oft heiftarlega.

Á s. l. ári — árinu 1980 — undir forustu Alþb.-manna í Alþýðusambandinu stóðu samningaumleitanir yfir í 10 mánuði áður en þær leiddu til niðurstöðu. Og hverjar voru grundvallarkröfur verkalýðshreyfingarinnar í þessum samningum? Það heyrðist aldrei að það fælist kröfuharka í kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar á síðasta ári, enda erfitt um vik að flokka þær kröfur, sem þá voru settar fram, undir kröfuhörku, miðað við það sem gerst hefur í þjóðfélaginu á undanförnum nokkrum mánuðum. Grundvallarkröfur verkalýðshreyfingarinnar í samningunum 1980 voru skattalækkanir, jöfnun lífeyrisréttinda og sömu laun fyrir sambærileg störf. Þetta voru þrjár meginkröfur í þessum samningum.

Að því er varðar skattalækkanir, sem voru grundvallarkrafa í þessum samningum, var því alfarið neitað af hæstv. ríkisstj. að fara slíkar leiðir. Alfarið var neitað skattalækkunum til handa láglaunafólki þó að vitað væri að þær kæmu því best. Og það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að þetta langa samningsþóf varð ekki síst vegna þeirrar afstöðu ríkisstj. að neita alfarið bæði skattalækkunarleiðinni og jöfnun á lífeyrisréttindum til handa aðildarfélögum innan ASÍ. Það er ekki síst sú afstaða hæstv. ríkisstj. sem varð til þess að samningar tóku þetta langan tíma. Segja má því að ríkisstj. með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar beri höfuðábyrgð á því, hversu langan tíma tók að semja fyrir láglaunafólk á s. l. ári.

Það gerðist síðan í ágúst s. l., að hæstv. fjmrh. undirritaði samninga við BSRB. Nú þarf ekki að greina hv. þm. frá því, að geigvænlega mikill munur var á lífeyrisréttindum annars vegar einstaklinga innan BSRB og hins vegar þeirra einstaklinga sem eru í félögum innan Alþýðusambands Íslands. Geigvænlega mikill mismunur var þarna BSRB-fólki í hag. En í þeim samningum, sem gerðir voru í ágúst við hæstv. fjmrh., var enn aukið á þetta misrétti. Enn var breikkað bilið milli lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna annars vegar og launafólks innan Alþýðusambands Íslands hins vegar, á sama tíma og neitað var alfarið af hálfu hæstv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst af hálfu hæstv. fjmrh. að leiðrétta þetta misræmi að einhverju - ég tala nú ekki um að verulegu leyti. Eftir að þetta var ljóst lagði samninganefnd Alþýðusambands Íslands að sjálfsögðu enn meiri þunga á þá kröfu sína að leiðrétta lífeyrisréttindi til handa verkafólki innan Alþýðusambandsins.

Um það bil tveimur mánuðum eftir að BSRB gerði samninginn við hæstv. fjmrh. voru undirritaðir samningar af hálfu Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda. Það verður ekki sagt að í þeim samningum hafi náðst mikill árangur, en þó í áttina. Oft hefur það að vísu verið svo, að árangur baráttu verkalýðshreyfingarinnar hefur fengist í stuttum skrefum — misjafnlega stuttum, en þó hefur yfirleitt þokað. Þessir samningar Alþýðusambandsins veittu verkafólki kauphækkun á bilinu frá líklega 4–10%. Þetta gerist í lok októbermánaðar með samþykki og vitund hæstv. ríkisstj., sem sjálf taldi að hér hefði verið hóflega að staðið og að þjóðarbúið þyldi þessa samningsgerð eins og frá henni var gengið.

Um tveimur mánuðum síðar — á gamlársdag — kippti hæstv. ríkisstj. þessu öllu til baka og líklega nokkru meira en því. Hún kippir til baka allri þeirri kauphækkun og kjarabót sem samningarnir frá 27. okt. innifólu og ríkisstj. sjálf taldi að væri við hæfi og þjóðarbúið þyldi. Öllu saman var kippt til baka með brbl. Svona vinnubrögð af hálfu ríkisstj., hvaða ríkisstj. sem í hlut ætti, eru auðvitað forkastanleg því að það hafa engar forsendur breyst frá því í lok okt. til loka des. sem sýndu að það væri nauðsynlegt að ógilda með öllu allt það sem áunnist hafði í samningunum frá því í lok okt. Það hafa engar forsendur breyst sem réttlættu slíkt. Og það er ekki nema eðlilegt, að almenningi í landinu — sérstaklega þó því láglaunafólki sem þetta snýr að — þyki nokkuð langt gengið af hálfu stjórnvalda þegar menn haga sér með þessum hætti.

En það er ekki allt búið enn. Ríkisstj. samdi fyrst við BSRB í ágúst, síðan stuðlaði hún að samningum aðila vinnumarkaðarins í lok okt., kippir öllu til baka á gamlársdag, semur upp á nýtt við BSRB eftir áramót og færir þeim aðilum innan BSRB að vísu mismunandi miklar kjarabætur, en allt upp í það að „dekka“ skerðinguna sem aðrir eiga að bera. Þar var kauphækkun á bilinu frá 3% og upp í milli 6 og 7%. Því hefur verið yfirlýst, þessar starfsaðfarir ríkisstj. leiða til þess, að þeir einu, sem á að skerða launin hjá samkv. brbl. og staðfestingu á þeim hér í Alþingi, eru félagar innan Alþýðusambands Íslands. Það á fyrst og fremst að skerða kjör hjá láglaunafólkinu. BSRB-fólkið fær vísitöluskerðinguna að hluta til bætta og sumt að langsamlega mestu leyti. Það má því í raun og veru segja að með þessum vinnubrögðum af hálfu hæstv. ríkisstj. hafi hún komið í bakið á Alþýðusambandinu, í bakið á launafólki innan Alþýðusambandsins. Einhverjir hefðu sagt undir svipuðum kringumstæðum, hefði Alþb. ekki verið innan ríkisstj. og slík vinnubrögð hefðu verið viðhöfð, að stjórnvöld hefðu rekið rýtinginn í bakið á alþýðusamtökunum. Það er ekki ólíklegt að slíkt orðbragð hefði verið viðhaft af einhverjum forustumönnum Alþb. innan verkalýðshreyfingarinnar eða á Alþingi. Ef þessi annars að nokkru leyti sæmilegi flokkur hefði verið utan ríkisstj. hefði þetta orðbragð verið notað.

Ég segi enn: Þegar menn velta fyrir sér þessum skoðunum, yfirlýsingum og vinnubrögðum er engin furða þó að æ fleiri innan þessa flokks lýsi yfir pólitísku náttúruleysi. Menn þurfa að þola mikið til að þola svona hringrás aftur og aftur, að það, sem menn lýsa yfir og lofa í kosningum í stjórnarandstöðu, éti þeir svo allt saman ofan í sig í stjórnaraðstöðu, enda hafa menn tekið eftir því, að önnur eru viðbrögð hjá verkalýðshreyfingunni nú en áður var.

Ég mæli ekki með því, að forustumenn í verkalýðshreyfingunni beiti hreyfingunni í pólitískum tilgangi. Þar á fyrst og fremst að vera í öndvegi fagleg barátta, en ekki flokkspólitískir gæðingar sem þar sitja að völdum og beita hreyfingunni eftir eigin geðþótta og flokksins. Því miður hefur það verið brennimark á forustumönnum Alþfl. í hreyfingunni að beita henni hvar og hvenær sem þeir hafa getað í flokkspólitískum tilgangi, burt séð frá hinum faglegu sjónarmiðum. Með þessa skoðun hlýt ég að sjálfsögðu að fagna því, ef hér er að verða breyting á af hálfu forustumanna í Alþb., ef þeir eru í raun og veru að mannbætast að því leyti að hafa sömu skoðun utan ríkisstj. og innan og taka faglega afstöðu, en ekki pólitíska. Ber að þakka það, en ekki lasta. En það er eftir að sjá framhaldið. Það er alveg öruggt að Alþb. á eftir að vera utan ríkisstj. Það er alveg klárt mál. (Gripið fram í: Og það lengi.) Og það tengi, segja sumir. (GJG: Það er nú langt þangað til.) Það getur aldrei orðið ýkjalangt þangað til. En þá á eftir að sjást hvort þessir annars sæmilegu einstaklingar, ágætir sumir hverjir, hafa þann manndóm til að bera að vera sjálfum sér samkvæmir og taka afstöðu innan hreyfingarinnar í ljósi faglegra staðreynda, en ekki flokkspólitískra sjónarmiða. Ef það verður væri vel, en ekkert hefur bent til þess enn og sporin frá fyrri tíð hræða, þannig að það er miklu líklegra, þó að ég vilji engu spá um það, að þegar að því kemur — það er enginn vafi að það gerist — að þessir sömu einstaklingar verða utan ríkisstj., þá taki þeir upp sömu flokkspólitísku vinnubrögðin og beiti hreyfingunni í flokkspólitískum tilgangi.

Það hlýtur að vekja nokkra athygli að hæstv. fjmrh. og raunar ríkisstj. öll sá ástæðu til að taka upp aftur á miðju samningstímabili samninga við BSRB, en það er ekki að sjá að þessi sama hæstv. ríkisstj. ætli að hreyfa hönd eða fót til að leiðrétta neitt hjá aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands. Hún hefur vissulega til þess tækifæri. Nokkur aðildarfélög Alþýðusambands Íslands og Verkamannasambandsins semja beint við ríkisvaldið um launakjör sinna starfsmanna. Það væri ekki óeðlilegt, ef samhengi væri í þessu, ríkisstj. leiðrétti hjá þessum aðilum á sama hátt og gert var hjá BSRB. En það er greinilegt að núverandi stjórnvöld — Alþb. kannske fyrst og fremst — halda þeirri stefnu að hlúa fyrst og fremst að þeim aðilum sem eru skörinni ofar í launakjörum í þjóðfélaginu en hinn almenni verkamaður er.

Eins og menn muna fylgdi ýmislegt með almennu orðalagi í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. á gamlársdag og brbl. — óskhyggja kannske sumt af því — um það sem gera ætti. Eitt af því var að skattar verði lækkaðir sem nemi 1.5%. Mér er tjáð að hæstv. fjmrh. hafi fjálglega lýst því yfir í umr. í Ed. fyrr í vikunni að þetta loforð væri búið að efna. Ég vil að það komi skýrt fram hér sem minn skilningur, að þegar ég er að tala um að lækka skatta á launafólki og þá fyrst og fremst á láglaunafólki er ég að tala um skattbyrðina, skattana sem heild, ekki einhvern hluta af sköttum. Með því, sem nú hefur verið lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstj. að verði skattalækkun, lækkar skattbyrði innan við 1% milli ára 1980 og 1981. Því fer víðs fjarri að fullnægt hafi verið því loforði hæstv. ríkisstj. í yfirlýsingu, sem fylgdi brbl., að lækka skatta á launafólki — fyrst og fremst þeim lægst launuðu — um a. m. k. 1.5%. Þar vantar æðimikið á enn. Það er auðvitað augljóst mál að það er ekkert vandamál að hækka skattana fyrst mikið frá því sem þeir voru til þess svo að geta lækkað eitthvað frá toppnum. Mér sýnist það einmitt það sem hér er verið að leika, verkalýðshreyfingin eigi að kaupa aftur og aftur hinar sömu skattalækkanir. Það er a. m. k. ekki sá skilningur sem ég hef lagt í kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar um að skattar verði lækkaðir hjá launafólki. Það er skattbyrðin, það er pyngjan sem skiptir máli þar fyrst og fremst, eins og í öðru, og það er að því sem þarf að hyggja. Ég tel því, eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið og eftir því sem þetta mál blasir við mér og eftir þeim grundvallarskilningi sem ég legg í kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar um að skattar verði lækkaðir, að ekki hafi verið fullnægt því loforði hæstv. ríkisstj. að skattar verði lækkaðir sem svarar 1.5% af launatekjum, þar þurfi nokkuð til viðbótar að koma til þess að það verði gert, auk þess sem ýmislegt annað er gersamlega óljóst í sambandi við framkvæmd á ýmsum yfirlýsingum í hinni svokölluðu efnahagsmálastefnu sem fylgdi brbl.

Það er svo auðvitað sérkapítuli út af fyrir sig, sem ég skal ekki eyða töngum tíma í að ræða hér, hvernig að þessu máli er staðið. Viku eftir viku og mánuð eftir mánuð allt fram undir jól urðu hér ítrekaðar umr. um efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj. og spurst fyrir um hver hún væri. Aldrei fengust nemar upplýsingar. Síðan er þing sent heim um 20. des. brbl. gefin út á gamlársdag. Þetta eru auðvitað ekki eðlileg vinnubrögð í lýðræðislandi, að stjórnvöld hagi sér með þessum hætti, hvaða stjórnvöld sem þar ættu hlut að máli. Auðvitað átti þingið að fá að fjalla um þetta, því að meiri hluti þingsins var hér staddur a. m. k. flesta daga milli jóla og nýárs ef ekki sjálfar hátíðarnar, til þess að komast að samkomulagi um þessi efni. Það eitt út af fyrir sig er ámælisvert að stjórnvöld skuli með þessum hætti taka í raun og veru valdið af Alþingi.

Eitt er það atriði sem tiltölulega lítið hefur verið rætt um í sambandi við þessi mál öll, og það er sú ákvörðun ríkisstj. að leyfa 10% hækkun á allri þjónustu ríkisstofnana áður en ráðstafanir hennar kæmu til framkvæmda. Skyldi þetta ekki hafa í för með sér einhverja kjararýrnun hjá launafólki almennt, a. m. k. 10% hækkun á allri vöru og þjónustu hjá ríkisstofnunum og allt yfir 20%, eins og hér hefur komið fram í umr., og tvöföld verðstöðvun í gildi? A. m. k. Alþýðusambandið hefur harðlega mótmælt þessu. Þar ofan í kaupið er með þessari ákvörðun gengið á gefin loforð, svikin gefin loforð við verkalýðshreyfinguna um ákveðna meðferð á hækkunum hjá ríkisstofnunum á ákveðnum tímum. Hér er auðvitað um að ræða beina kjaraskerðingu hjá launafólki áður en 7% kjaraskerðingin kemur til framkvæmda. Og ég segi enn og aftur: Mig undrar ekki þó að enn fleiri innan stjórnarliðsins fari að lýsa yfir pólitísku náttúruleysi að þurfa að búa undir þessu. Það kæmi mér ekki á óvart þó að þeim fjölgaði heldur af báðum kynjum sem lýstu því yfir. Það hlýtur að öllum líkindum að framkalla stórkostlegt pólitískt náttúruleysi að búa við slíkt sem hér um ræðir, yfirlýsingar og síðan í kjölfarið framkvæmdir þvert á gefnar yfirlýsingar. (Gripið fram í: Hvaða ofsi er þetta) — (Fjmrh.: Pólitískur kynofsi.) Pólitískur kynofsi, sagði hæstv. fjmrh. Hvar skyldi hann nú eiga upptök sín? Það er spurning sem hæstv. fjmrh. ætti að ýja að í sínum eigin flokki, hvar pólitískt náttúruleysi eða pólitískur kynofsi á fyrst og fremst upptök sín. Ég fel hæstv. fjmrh. að kanna hvar það hefur fyrst komið fram.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð. En það er ljóst, að eftir að þessi brbl. voru gefin út getur ekki lengur sá pólitískur flokkur á Íslandi, sem lengst af hefur viljað vísa því frá að hann ætti hlut að skerðingu á löglega gerðum kjarasamningum, Alþb., skýlt sér á bak við slíkt. Það er staðreynd að nú liggur það ljóst fyrir, að hvað sem fyrri yfirlýsingum, hvað sem fyrri loforðum og hvað sem fyrri heitstrengingum líður, að Alþb. leggur til að breyta gerðum kjarasamningum með lögum, skerða löglega gerða kjarasamninga sem Alþb.menn sjálfir töldu hógværa og allt í lagi með fyrir röskum tveimur mánuðum. Þarna má segja að sé kannske brotið í blað í íslenskri pólitík. Menn geta villt á sér heimildir tímabundið á fölskum forsendum og með fölskum klæðaburði, en það er ekki hægt til lengdar. Kannske hefur þetta verið hægt á þeim tíma sem almenningur í landinu var ekki nægilega upplýstur, fjölmiðlar komu fréttum ekki nægilega vil til skila, en sá tími er liðinn. Nú er ljóst að þeir hinir sömu geta ekki lengur hafið sig undir þessum tilvitnuðu orðum, hvorki undir fölskum loforðum né öðru slíku. Alþb. er bert að því nú að hafa beinlínis forustu um að breyta þeim kjarasamningum sem gerðir voru 27. okt. s. l.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð. En það er ljóst að í þessu frv. til staðfestingar brbl. margnefndu er einvörðungu um að ræða skerðingu á launum frá því sem búið var að semja um. Þess atriðis þurfa hv. þm. að taka afstöðu til þegar þeir greiða atkv. um það frv. sem hér liggur fyrir, hvort þeir samningar, sem gerðir voru í lok okt., hafi verið með þeim hætti að þeir stefni þjóðarbúinu í voða og því beri brýna nauðsyn til, eins og hæstv. ríkisstj. orðar það, að rifta þeim með löggjöf. Það er það sem Alþb., Framsókn og sá hluti Sjálfstfl., sem í ríkisstj. er, leggja til. Á öðrum tímum hefur hinn hluti Sjálfstfl. lagt svipað til, þannig að þessir aðilar eru allir á sama báti að því er þetta varðar.