26.02.1981
Neðri deild: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2625 í B-deild Alþingistíðinda. (2772)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér skildist á hádegisútvarpinu í dag að hæstv. forsrh. væri mjög í mun að heyra hvað flokksbræður hans hér í deildinni segðu. Í gamalli vísu segir:

Hrekkja spara má ei mergð,

manneskjan skal vera

hver annarrar hrís og sverð,

hún er bara til þess gerð.

Þegar maður rifjar upp stjórnmálaþróunina hér á landi s. l. þrjú ár og hvernig viðsjár hafa aukist, ekki aðeins í þeim þrönga heimi, sem er hér inni á Alþingi, heldur líka í heimi fjölmiðlunar hér á landi og innan verkalýðshreyfingarinnar, þá er ekki kynlegt þótt vísa af þessu lagi komi upp í hugann.

Ég hygg einnig að það hafi vakið athygli afskaplega margra manna, hvað það var sem Eysteinn Jónsson, sá gamalreyndi stjórnmálamaður lagði mesta áherslu á þegar hann var spurður um skoðanir hans á þingræðinu í landinu og hvaða breytingar væri æskilegt að gera til að treysta það. Eysteinn Jónsson sagði þá, að við þyrftum að treysta og styrkja stjórnmálaflokkana. Hann undirstrikaði að lýðræði og þingræði gæti ekki haldist í landinu nema þessar stofnanir fólksins hefðu sterka innviði, þessar stofnanir væru lausar við spillingu og að þeir menn, sem þar hefðu valist til mests trúnaðar, vildu axla þá byrði, sem því fylgir að komast til hárra metorða í skjóli fjöldans, og freistuðust ekki til þess eftir á að sigla beggja skauta byr á fölskum forsendum.

Eysteinn Jónsson, sá gamli stjórnmálamaður, mátti reyna það í upphafi síns stjórnmálaferils að Framsfl. klofnaði og var raunar við það að klofna aftur í þann mund sem hann varð fyrst ráðh. Hans fyrstu verk í stjórnmálabaráttunni beindust að því að treysta innviði Framsfl. Eysteinn setti síðan mikið svipmót á störf Alþingis, barðist trúlega og trúverðuglega fyrir sínum skoðunum á því, hvernig þingtími ætti að lengjast og bæta ætti stöðu alþm. Það var eftirtektarvert, þegar hann komst á sjötugsaldurinn, hversu umhugað honum var um að skilja vel við sinn flokk og sína samherja. Síðustu störf hans á Alþingi voru einmitt í því fólgin að treysta innviði Framsfl., efla ungan mann í flokki sínum til dáða, og kaus hann það fremur en að þjóna hégómagirnd sinni eða metnaðargirnd.

Ég hygg að það hafi vakið mikla eftirtekt á sínum tíma þegar faðmlögin heitu urðu fyrir rúmu ári milli hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh. og hæstv. sjútvrh., í þann mund sem þeir undirskrifuðu leyniplaggið sem Alþingi má ekki einu sinni fá nasasjón eða nasaþef af. Í Hávamálum segir:

Eldi heitari

brennur með illum vinum

friður fimm daga,

en þá slokknar,

er hinn sétti kemur,

og versnar allur vinskapur.

Það er enginn vafi á því, að mörgum hafi komið þetta í hug þegar þeir hafa m. a. hlýtt á ástarjátningar hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. En þeirra viðskipti eru ekki ný. Á sínum tíma, þegar hæstv. félmrh. var ritstjóri Þjóðviljans, á árinu 1975, þá á vordögum, setti hæstv. þáv. félmrh. og núv. forsrh. brbl. þar sem verkföll voru bönnuð í ríkisverksmiðjum. Þá skrifaði þáv. ritstjóri Þjóðviljans, Svavar Gestsson, leiðara, hinn 31. maí, sem bar fyrirsögnina: „Ólög að engu hafandi“, en þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Og enn, 1975, reynir afturhaldsstjórn að brjóta verkalýðshreyfinguna niður, því þótt verkfallsbanninu sé beint gegn verkfallinu í ríkisverksmiðjunum er hér um að ræða tilraun ríkisstj. til þess að mylja niður þá samstöðu, sem skapast hefur innan verkalýðshreyfingarinnar, í því skyni að veikja slagkraft hennar í komandi átökum um almennt kaup og kjör fólksins í landinu. Í þetta sinn er það Gunnar Thoroddsen, einn misvitrasti foringi Sjálfstfl., erindreki auðmannastéttarinnar í landinu, sem forustuna hefur. Honum fylgja eins og druslur tveir ráðh. Framsfl., sem alltaf og ætíð gegna fyrirskipunum íhaldsins og unnt er að etja á hvaða forað sem er hvenær sem er. Ekki er minnsti vafi á því, að þessi brbl. Gunnars Thoroddsens eiga fullri andstöðu að mæta meðal flestra fylgismanna Sjálfstfl., þannig að það er alveg víst að það er enginn þjóðarmeirihluti á bak við lögin, aðeins brotabrot þjóðarinnar gæti sætt sig við slíka óhæfu, örfáir ófyrirleitnustu spámenn íhaldsins.“

Enn fremur skrifaði þáv. ritstjóri Þjóðviljans, Svavar Gestsson, af þessu tilefni um núv. hæstv. forsrh. með leyfi hæstv. forseta:

„Samningaviðræður voru í eðlilegu horfi þegar gerðardómslögin voru sett. Samningafundur hafði staðið alla liðlanga nóttina, en upp úr kl. níu tilkynnti sáttasemjari, Logi Einarsson, öllum að óvörum að samningafundinum væri lokið. Hafði þó verið gert ráð fyrir því af hálfu sáttasemjara nokkrum klukkustundum áður að samningum yrði fram haldið uns sæist fyrir endann á þeim. Gunnar Thoroddsen félmrh. ákvað hins vegar að nota aðstöðu sína, meðan Geir Hallgrímsson var erlendis, til þess að gefa út brbl., burt séð frá því ástandi sem var í samningunum, til þess að upphefja sjálfan sig þær örfáu klukkustundir sem hann átti eftir að sitja í embætti forsrh. í fjarveru Geirs.“

Enn fremur segir í Þjóðviljanum hinn 3. júní, að vísu ekki eftir núv. hæstv. félmrh. að því sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Og Gunnar Thoroddsen var auðvitað áfjáður að vinna þetta verk meðan hann sat í þeim stóli sem hann telur sér einum sæma, á hægindi forsrh.

Það dylst engum manni, sem heyrir þennan vitnisburð í Þjóðviljanum um núv. hæstv. forsrh., að sú heita vinátta, sem tekist hefur með þeim mönnum sem nú hvíslast á, er algerlega ný af nálinni, kemur algerlega á óvart, en nærist á því að koma fyrrverandi samherjum hæstv. forsrh. á kné. Og það, sem gerir auðveldara en ella að brjóta niður einkaframtakið í landinu, er það, að nú er stimpill varaformanns Sjálfstfl. á aðgerðum vinstri stjórnarinnar og það eru sumir — því miður — svo skyni skroppnir að þeir líta aðeins á stimpilinn. Það er t. d. ekki ónýtur stimpill á því plaggi, sem ég held hér á, sjálft skjaldarmerki Íslands, og á því stendur: Fréttatilkynning frá ríkisstj., dags. 12. nóv. 1980, útgefin af forsrh., sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Vísitala framfærslukostnaðar hækkaði um 10.86% frá ágústbyrjun til októberloka samkv. niðurstöðum Hagstofu Íslands og Kauplagsnefndar í dag. Verðbólgan hefur því verið um 51% á ársgrundvelli síðustu þrjá mánuði. Verðbólgan var um 61% frá upphafi til loka árs í fyrra og um eða yfir 60% á þeim tíma er núv. ríkisstj. var að hefja störf. Verðbólgan hefur þannig hjaðnað úr rúmlega 60% í 51% á starfstíma ríkisstj. reiknað á ársgrundvelli. Ríkisstj. mun vinna að áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu misserum og stuðla að því að tryggja sem best kaupmátt launa.“

Svo mörg voru þau orð. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. forsrh. hvað hafi gerst frá þeim tíma sem hann gaf þessa fréttatilkynningu út og hélt jólakökuveisluna uppi í forsrn. með blaðamönnunum til að segja þeim ósatt fram að áramótum. Allur þingheimur, allur landslýður vissi á sömu stundu og þessi fréttatilkynning var gefin út að þar var að hefjast eitt mesta sjónarspil í stjórnmálasögunni á síðustu misserum, mesta verðbólguæðið var að hefjast. Og á sama tíma og verðbólgan gaus upp úr öllum hæðum, 80–90–100% á næstu tveim mánuðum, gefur hæstv. forsrh. út fréttatilkynningu um að hann hafi komið verðbólgunni niður. Hann gefur það í skyn. Og ef hann var búinn að koma verðbólgunni niður í 51% á ársgrundvelli 1. nóv. 1980 og úr því að hæstv. ríkisstj. hafði tök á þessu öllu saman, af hverju þurfti hann þá að koma fram fyrir þjóðina 31. des., skírskota til orða hreinlynds manns, Einars Benediktssonar, og segja: „Vilji er allt sem þarf,“ ef erindið þá var það að taka tíundu hverja krónu úr vasa hvers einasta launamanns á landinu til að reyna að halda verðbólgunni einhvers staðar milli 50 og 60%, að hún færi ekki miklu hærra?

Á sínum tíma, þegar stjórnarmyndunarviðræður stóðu yfir fyrir rúmu ári, var reynt að gera lítið úr orðum okkar: „Leiftursókn gegn verðbólgu,“ og sagt að á bak við það stæði löngun til að búa til atvinnuleysi, til að skerða kaupmátt verkafólksins. Við sjálfstæðismenn, sem störfum samkv. samþykktum okkar flokks og virðum þær leikreglur, sem við höfum sjálfir sett okkur, sögðum í ársbyrjun 1980: Það er ekki svigrúm til grunnkaupshækkana á árinu 1980. Ef verkalýðshreyfingin vill geta menn náttúrlega haldið samningaviðræðum gangandi, en ef menn raunverulega vilja koma verðbólgunni niður verða þeir að fallast á þá grundvallarstaðreynd, að svigrúm til grunnkaupshækkana er ekki til. — Það vildi enginn maður í þingflokki Sjálfstfl., fyrir utan þá sem styðja núv. hæstv. ríkisstj. eða sitja í henni, gefa þjóðinni falskar vonir um það fyrir rúmlega ári að það væri hægt að semja um grunnkaupshækkanir á árinu 1980 og bæta kjörin með þeim hætti. Þetta var á þeim tíma sem formaður Verkamannasambandsins talaði um það ásamt hæstv. félmrh., sem ég hygg að sé kominn út úr húsinu, að undir engum kringumstæðum mætti skerða kaupmáttinn. Síðan fór í hönd margra mánaða samningaþóf. Hæstv. ríkisstj. reið á vaðið með verulegar grunnkaupshækkanir, sem voru miklu meiri en þær sýndust vera ef menn gá að því, hvernig starfsmannafjöldi ríkisins og starfsmannafjöldi innan Alþýðusambands Íslands dreifist eftir störfum, eins og mönnum er kunnugt. Þegar þessir samningar höfðu verið gerðir voru gerðir samningar á hinum almenna vinnumarkaði, sem fólst í um 10% kauphækkun. Í millitíðinni hafði hæstv. forsrh. lýst yfir að samningarnir, sem gerðir voru við opinbera starfsmenn, væru innan þess ramma sem efnahagskerfið þyldi, og það voru ýmsir launamenn, láglaunafólk í landinu, sem trúði því að forsrh. meinti það að hann vildi koma til móts við þess þarfir. En afmælisræðan var haldin og í henni var þetta kjarni málsins: Við ætlum að taka til baka hverja einustu krónu, sem samið var um við Alþýðusambandið, og heldur meira en við sömdum um við BSRB. Mennirnir, sem sögðu við hv. 1. þm. Reykv. á árinu 1978 að það væru svik, það væri siðferðilega rangt af ríkisstj. að rifta samningum sem hún hefði sjálf gert, og áttu þá við samningana við opinbera starfsmenn á haustmánuðum 1977, — sögðu að það væri siðferðilega rangt, — sömu menn sitja nú hér í þingsölum og eru reiðubúnir að greiða atkv. með því að rifta samningum um kauphækkun sem eigin ríkisstj. þeirra reið á vaðið með. Og ef menn halda að það sé einhver vegur að telja ungu fólki trú um að lýðræðið sé betra þjóðskipulag en annað þjóðskipulag, að einhver trygging sé í þingræðinu fyrir unga fólkið til þess að eignast betri veröld, sækja fram á veginn, þá getum við a. m. k. ekki bent þessu unga fólki á þá menn sem stjórna landinu núna og fóru bakdyramegin inn í Stjórnarráðið, og við getum ekki heldur sagt við þetta unga fólk að það, sem sagt sé við það í ríkisfjölmiðlum, sé þann veg vaxið að það sé traustvekjandi. Það er jafnvel orðið að fréttaefni að hæstv. forsrh. bregði sér upp á Akranes, en hitt ekki, að með því komi hann í veg fyrir, með þessu þarflausa flakki upp á Skaga, að hægt verði að afgreiða frv., sem hér liggur fyrir, með eðlilegum hætti.

Það þarf vissulega að gera úttekt á því, hvaða áhrif fjölmiðlar hafa í þessu landi, og það þarf ekki síður að gefa gaum að því, hvernig t. d. pantaðar skoðanakannanir eru fjármagnaðar og hverjir við þær vinna, því að svo mikið veit ég um þau efni að þessar svokölluðu skoðanakannanir, sem gerðar hafa verið hér á undanförnum misserum, svara ekki þeim lágmarkskröfum sem til slíks eru gerðar í menningarlöndum. Væri þarflegt að setja lög um þau efni til þess að menn losni við þennan óskapnað.

En svo er það í þriðja lagi sjálf verkalýðshreyfingin. Það eru ekkert litlar tekjur sem renna í hennar vasa yfir árið — eða hvað skyldu menn í verkalýðshreyfingunni hafa til ráðstöfunar um ársins hring? Ætla má að á s. l. ári, ef ég man rétt, hafi launatekjur verið einhvers staðar um 1500 milljarðar kr. Það þýðir þá að það skiptir milljörðum sem til verkalýðshreyfingarinnar rennur. Ég þori ekki að nefna tölur um heildargreiðslur, en algengt er að 1% af launum sé tekið í félagsgjöld. Það er ekki mælt í þúsundum kr. eða milljörðum sem til verkalýðshreyfingarinnar rennur. Nú skulum við aðeins athuga hvernig hún stendur sig.

Ég hef hér fyrir framan mig fréttabréf Alþýðusambands Íslands, sem út var gefið á árinu 1978, og fréttabréf Alþýðusambands Íslands, sem út hefur verið gefið á þessu ári. Á þessu ári eru það tveir sneplar. Efnisyfirlit er hér að vísu. Ályktun um efnahagsráðstafanir ríkisstj. frá 30. jan. s. l. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnvöld hafa nú ákveðið með lögum að skerða verðbætur hinn 1. mars n. k. um sjö prósentustig. Með því er gengið þvert á mikilvæg samningsákvæði, sem eitt sér er fordæmanlegt. Á móti þessu kemur ákvörðun um að síðar á árinu verði ýmsir skerðingarliðir verðbótavísitölu afnumdir og skattar lækkaðir um 1.5% á meðaltekjum og lægri. Ríkisstj. telur að þegar tillit sé tekið til þess, að verðbólga muni minnka úr 70% í innan við 50% nægi þessar gagnráðstafanir til þess að halda þeim kaupmætti sem yrði ef ekkert væri að gert.

Í aðgerðum stjórnvalda er ýmislegt óljóst og niðurstaða því óviss. Þetta á enn frekar við um þau atriði sem til lengri tíma lúta, og af öllu er ljóst, að aðgerðirnar eru tilraun til þess að vinna tíma til varanlegrar stefnumótunar.

Alþýðusambandið hefur á allan fyrirvara um þessar ráðstafanir stjórnvalda og áskilur sér fyllsta rétt til nauðsynlegra aðgerða til þess að tryggja umsaminn kaupmátt. Samtökin ítreka, að jafnmikilvægt og það er að draga úr verðbólgunni er nauðsynlegt að sjá svo um að atvinnuöryggi og kaupmætti fólks með meðaltekjur og lægri verði ekki fórnað. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands leggur á það höfuðáherslu, að staðið verði við þá yfirlýsingu að kaupmáttur haldist óskertur, og er ljóst að til þess að ná þeim árangri í þróun verðlagsmála, sem að er stefnt, verður fleira að koma til en þær ákvarðanir varðandi launa- og gengismál sem þegar hafa verið teknar. Verðlagi verður að halda í skefjum. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands leggur áherslu á að hraða verður ákvörðunum um framkvæmd aðgerðanna jafnt til langs og skamms tíma, og þess verður að krefjast, að verkalýðssamtökin fái aðild að undirbúningi þeirrar ákvarðanatöku þegar á frumstigi, þannig að boðað samráð verði framvegis meira en orðin tóm.“

Svo mörg voru þau orð. Síðan er hér ályktun um hækkun opinberrar þjónustu, ályktun um samningamál sjómanna, ályktun um úrskurð Kjaradóms, útgáfa bæklings um vinnuvernd, svo er eitt sem heitir Krían, ný stjórn MFA, Thorstein Bergman á Íslandi, og efni bréfs sem kom út 20. febr. s. l. er hvíldarákvæði vinnuverndarlaganna, verðbætur á laun 1. mars 1981. Og nú skyldi maður verða forvitinn. Hvað skyldi standa um það? Þá er það bara fréttatilkynning, bara útreikningur og tölur. Nefnd um lánaþörf og lánveitingar, nefnd um dagvistunarmál, — kannske fyrir þreytta verkalýðsleiðtoga, — skólanefnd Tækniskóla Íslands, miðstjórnarnefnd um efnahagsmál, MFA, námskeið um skrifstofuhald stéttarfélaga, norræni MFA-skólinn. Meira er það nú ekki.

Ef menn kynna sér hvað Verkamannasamband Íslands hefur gefið út á þessu ári af VMSÍ-fréttum, þá hefur ekki eitt einasta blað komið út. En það var nokkuð öðruvísi að verki staðið 1978. Fyrirsögn þá er: „Ólögin“ — og fjallað hér um, ef ég man rétt, útflutningsbannið líka og annað eftir því. Þá þótti hv. 7. þm. Reykv. þörf að sýna dugnað í sínu starfi, efna til ólöglegs verkfalls, sem hann hefur í gæsalöppum, 1. og 2. mars. Ég man eftir að hann sendi framkvæmdastjóra sinn norður til Akureyrar þá til að undirbúa þetta ólöglega verkfall — og hann hélt sig ríkmannlega. Ég hitti þennan sama framkvæmdastjóra fyrir norðan í febrúarmánuði s. l. Ég held að þar hafi verið einhvers konar námskeið, sem Verkamannasambandið ætlaði að halda, um fundarsköp.

Hér er útflutningsbannið. Hér er það bara á forsíðu 1978. Þannig var nú staðið að þessum málum þá. Og það var ekki aðeins að skrifað væri mikið og menn væru sendir út um allt land. Það voru send línurit, eins og þetta hérna, þar sem var sýndur kaupmáttur í des. 1977 — des. 1978 stendur hér, — svo er sýnt hvernig kaupið hefði orðið ef skerðingarlögin hefðu ekki orðið og hvernig kaupið yrði af því að það var vond ríkisstj. í landinu. Hér stendur undir, með leyfi hæstv. forseta: „1. des. 1978 yrði kaupmáttur 8% lægri en 1. des. 1977“ — 12% lægri en samkv. samningi í des. 1978.

Þennan sama vetur gáfu launþegasamtökin: Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Samband ísl. bankamanna og Bandalag háskólamanna — út í tveim litum a. m. k. dreifibréf sem hét: „Hverju tapar þú? Fyrsta skrefið 5–6 vikna kaup.“ Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

Þvingunarlög ríkisstj. þýða í reynd, að hver einasti launþegi í landinu tapar á einu ári meira en mánaðarlaunum. Miðað við 35% verðbólgu lítur dæmið þannig út, miðað við heildartekjur: Dagvinna, eftirvinna plús bónus plús álög, og þú tapar á einu ári. — Auðvitað er yfirvinnan tekin með því að hún átti að skerðast. En það var reynt að halda uppi láglaunabótum. Formanni Verkamannasambandsins þótti nú ekki gott að það ætti að reyna að hugsa um þá sem verst voru staddir í þjóðfélaginu. — Þetta er allt teiknað upp og síðan er sagt: „Tap á mánuði, miðað við 200 þús. í febr.: 11 þús., 19 þús., 29 þús. og 49 þús.“ stendur hér.

Nú hef ég látið reikna út hverju launþegar tapa ef dæmið er reiknað með sama hætti nú. Þá er reiknað með 55% verðbólgu og reiknað með mánaðarlaunum. Ég hygg að menn geri sér grein fyrir því, að 400 þús. kr. laun núna eru síður en svo neitt sambærileg við þau 200 þús. kr. laun sem formaður Verkamannasambands Íslands talaði mest um vorið 1977 að þyrfti að ná. Það er miklu verri hagur manna á fyrstu mánuðum þessa árs en hann var 1977. Lífskjör í landinu fóru þá batnandi, kaupmáttur jókst eftir því sem á árið leið. Maður með 4000 kr. í febr. 1981–400 þús. kr. gamlar — tapar 28 þús. gkr. í mars, 28 þús. gkr. í apríl og maí, 32 600 gkr. í júní, aftur í júlí og aftur í ágúst, 35 900 gkr. í september, aftur í október og svo í nóvember, 39 600 gkr. í des., janúar og febr. — samtals 400 083 gömlum eða 4083 nýjum. Maður sem hefur 500 þús. kr. mánaðarlaun, mun eftir þessari reikningsaðferð tapa 5100 nýkr. eða hálfri milljón gamalli rúmlega eftir þessi skerðingarlög, sem nú eru sett á, eftir þeim reikningi sem Alþýðusambandið gaf út 1978. Maður með 6 þús. kr. nýjar eða 600 þús. gamlar mundi tapa 611 700 gkr. á þessum tíma, 6117 nýjum, — meira en mánaðarlaunum sínum. — Atburðir eins og þessir snerta ekki formann Verkamannasambands Íslands meira en svo, að hann sér ekki ástæðu til þess að gefa út fréttabréf hvað þá meira í tilefni af þessu. Eftir höfðinu dansa limirnir.

Ég gerði grín að því, þegar ég var yngri, þegar sagt var: Heimur versnandi fer. — Má vera að hann geri það á öllum tímum. Ég er hræddur um að siðferðið verði orðið rotið um aldamótin ef svo fer fram sem horfir, að siðferðishnignunin er jafnvel meiri hér á landi en verðbólguhraðinn — og er þá mikið sagt.

Það var efnt til mikilla fundahalda hér á s. l. hausti. Þá var haldið 34. þing Alþýðusambands Íslands. Í plaggi, sem þar var lagt fram og ber yfirskriftina: „Þróun kauptaxta og kaupmáttar 1972–1980“, segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í apríl 1979 voru sett lög um stjórn efnahagsmála og fleira, Ólafslög. Með lögum þessum var áður gildandi verðbótaákvæðum breytt. Breytingarnar fela m. a. í sér frádrátt eða viðbót við verðbætur vegna breyttra viðskiptakjara og frádráttarlið vegna breytinga á tóbaks- og áfengisverði, auk þess sem afnuminn var verðbótaaukinn sem bætti upp tafirnar sem eru á verðbótahækkununum. Á sjö fyrstu verðbótatímabilunum eftir setningu Ólafslaga hefur viðskiptakjaraákvæðið mætt verðbótaskerðingu í sex skipti, en aldrei viðauka á verðbætur. Með rýrari verðbótaákvæðum en áður lækkaði kaupmáttur allmikið, einkum eftir mitt ár 1979. Þessi þróun hefur haldið áfram á yfirstandandi ári allt þar til nýir kjarasamningar voru gerðir 27. okt. s. l. Áætlanir benda til þess, að kaupmáttur taxtakaups verkamanna verði á árinu 1980 4% lakari en á fyrra ári og er þá miðað við ársmeðattal. Októbersamningarnir stefna að því, að kaupmáttur taxtakaupsins verði á fyrri hluta næsta árs svipaður og á árunum 1973 og 1979, en á árinu í heild svipaður og á þessu ári“.

Nú er kannske ekki úr vegi að rifja upp hvað átt er við með kaupmætti kauptaxta. Þá kemur í ljós, að á árinu 1977 batnaði kaupmáttur kauptaxta um 11.8% og á árinu 1978 um 7.6%. Á árinu 1979 var hann á hinn bóginn mínus 1%. Og samkvæmt þessu plaggi, sem Alþýðusamband Íslands lagði fram eða hagfræðingur þess á síðasta þingi sambandsins, versnaði kaupmáttur taxtakaups um 4% á s. l. ári. Munurinn núna og 1978, þegar talað var um „samningana í gildi“, er sem sagt sá, að þá vorum við að reyna að fóta okkur í þjóðfélagsþróun sem var jákvæð, þegar atvinna var mikil, þegar kaupmáttur fór batnandi, þegar bjartsýni ríkti í landinu, þegar beinir skattar voru miklu, miklu lægri en hæstv. forsrh. ætlar núna að rausnast til að hafa þá, jafnvel eftir loforðin, jafnvel eftir að hann tók tíundu hverja krónu úr buddu verkamannsins nú um áramótin eða ætlar að gera það 1. mars. Þá voru beinu skattarnir miklu lægri. Þá var jákvæð þróun í þjóðfélaginu. Við höfðum m. ö. o. ekki nokkurn skapaðan hlut við verkalýðshreyfingu að gera. — Og ef ég má rifja upp aðeins meira: Á árinu 1978 var samið um grunnkaupshækkanir á nokkurra mánaða skeiði, og ef ég man rétt kom sú síðasta til framkvæmda 1. des. 1978. Þó að verðbótavísitalan væri þannig skert í mars mátti vænta þess, að það yrði aftur bætt upp síðar meir með umsömdum grunnkaupshækkunum, ef ég man rétt tveim eða þrem, það sem eftir var af þessu ári. Það er engum slíkum grunnkaupshækkunum til að dreifa á þessu ári. Launþegar eiga ekki von á því að fá neina 3% grunnkaupshækkun 1. júlí, enga 3% grunnkaupshækkun 1. sept. eða 1. des. Þess er því ekki að vænta að sú kjaraskerðing, sem hér er efnt til, verði bætt upp með þeim hætti, og það er ekki hægt að þvo hendur sínar Pílatusarþvotti í skjóli þess.

Þegar sagt var á þingi Alþýðusambands Íslands, að stefnt sé að því að kaupmáttur taxtakaups verði á fyrri hluta þessa árs, sem nú er, svipaður og á árunum og 1973 og 1979, en á árinu í heild svipaður og á s. l. ári, þá var vitaskuld út frá því gengið að ekki kæmi til þeirrar skerðingar á kauptöxtum sem brbl. ákveða. Þau orð, sem ég vitnaði í, standast því ekki lengur. Samkv. töflu sem ég er með hér frá Þjóðhagsstofnun og dags. er 18. febr. 1981 kemur m. a. fram, að á 2. ársfjórðungi núna eigi kaupmátturinn að fara niður í 94.7 innan Alþýðusambandsins, niður í 94.8 á 3. ársfjórðungi og niður í 92.2 á 4. ársfjórðungi. Hann á m. ö. o. að vera lægri en á öllum ársfjórðungum ársins 1980. Í lok þessa árs verður sem sagt búið að koma lægst launaða fólkinu niður fyrir það sem það hafði lakast á s. l. ári, þegar kaupmátturinn rýrnaði um 4% miðað við það sem hann var 1979, en þá hafði hann rýrnað um 1% miðað við það sem hann var 1978. — Það er ekki nema eðlilegt að menn hafi gaman af því að fá jólaköku uppi í forsrn. Einu sinni voru það pylsur. Já, sá pylsusali, sem þar á í hlut, hefur forframast mjög síðan.

Hæstv. fjmrh. gaf út yfirlýsingu. Þær eru orðnar margar yfirlýsingarnar, sem hann gefur út, og allar gefnar af góðum hug. Hann er þar að lýsa einhverjum skattalækkunum og skattahækkunum. Þá komum við að einni mjög skemmtilegri áráttu hjá þessari ríkisstj. Það minnir á gamla sögu. — Það var einu sinni svo, að maður gyðingatrúar kom til rabbína síns og sagði honum að nú væri illt í efni, það væri vont samkomulag á heimilinu, þau hjónin væru ásamt tengdaforeldrum sínum öldruðum og sjö börnum í einu herbergi og sambúðin færi versnandi dag frá degi, þetta væri alveg óþolandi ástand. Og hann spurði rabbínann: Hvað á að gera? Farðu með geit inn í herbergið, sagði rabbíninn, og komdu svo til mín eftir viku og segðu mér hvernig þér líkar þá. Maðurinn kom eftir viku alveg niðurbrotinn. Hann sagði, að ofan á allt það sem fyrir var væri nú geitin skítandi og mígandi og fnykur af henni, og undi sér hálfu verr en áður. Þá sagði rabbíninn við hann: Farðu með geitina út úr herberginu og komdu svo til mín eftir viku. Maðurinn kom eftir viku og var himinlífandi og sagði að nú liði öllum vel, helvítis geitin væri farin út og nú væri þetta allt í stakasta lagi.

Þessi ríkisstj. hefur síðan hún settist að af og til verið að leiða alls konar geitur inn í íslenskt efnahagslíf. Svo heldur hún að menn séu alls hugar fegnir þegar hún leiði geiturnar út aftur og allt sé við það sama. Hún býr til vandræði á pappírnum, hún býr til sundurþykki út af frönskum flökkustrákum. Svo þegar eitthvert málamyndasamkomulag er komið á þetta, þetta er strikað út, heldur hún að það sé allt í stakasta lagi og hún hafi gert eitthvað ógurlega mikið jafnvel komið verðbólgunni niður í 51% í nóvember. Ég hygg að það sé nú ríkisstyrkur á geitum. Það getur vel verið að hún ætli að ná sér í einhvern sparnað. Ja, ég sé það nú ekki. Það ber náttúrlega eyðslustefnunni gott vitni.

En þessi geitahneigð ríkisstj. er satt að segja orðin hálfhvimleið og hún lýsir sér vel í síðustu fjárlögum. Þá kepptust stuðningsmenn ríkisstj. við að fella allar skattalækkunartillögur stjórnarandstöðunnar. Það var talað hér með miklum ábyrgðarþunga um að ríkissjóður yrði að vera með greiðsluafgangi. Hvernig var það á s. l. ári? Var ekki greiðsluhalli á ríkissjóði? Af hverju fáum við ekkert að frétta um það? Það var greiðsluhalli á ríkissjóði s. l. ár þrátt fyrir skattheimtuna. En á jólaföstu létu menn í veðri vaka að svo yrði ekki og töluðu um að áfram yrði að halda ábyrgri stefnu. Umfram allt yrði ríkissjóður að afla meiri tekna en hann eyddi. Þess vegna varð að hækka tekjuskattinn svo og svo mikið. Það tókst afskaplega vel. Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef í höndum, fara álagðir skattar í hlutfalli við tekjur fyrra árs upp í 22.6% samkv. fjárlögum og hækka úr 22.2 upp í 22.6. Síðasta árið, sem 1. þm. Reykv. var forsrh., voru álagðir skattar 16.3% af tekjum fyrra árs. Svo kemur þessi ríkisstj. hér og er að tala um að það ætti að lækka skatta. Hún er með fjárlögum sínum búin að pína skattana hærra en þeir hafa verið nokkru sinni. Og þó að hún gefi eftir nokkrar krónur um leið og hún skerðir launin um 9–10% á maður að líta á hana sem einhverja dýrlinga. Það á að vera eitthvað guðsþakkarvert. Og ýmsir verkalýðsleiðtogar eru að lýsa því yfir í blöðunum, sér til skammar, að ríkisstj. hafi gert eitthvað fyrir verkalýðinn í landinu. En hvernig er þetta ef dæmið er reiknað út? Það kemur í ljós að 2 milljarða 820 millj. gkr. vantar eða í nýjum krónum 28 millj. og 200 þús til þess að beinu skattarnir verði 1.5% lægri en þeir voru í fyrra. Þá miða ég við rauntölur frá árinu 1980, en áætlanir á árinu 1981, en allur þingheimur veit að skattar eru aldrei áætlaðir of hátt í fjárlögum, það er engin hætta á því, enda var í því hangið við fjárlagagerðina, að launahækkanir á milli ára væru ekki nema 45%, þó nú sé komið í ljós að launin hafi hækkað um 52.3% eða eitthvað um það bil. En ef út frá þessu er gengið vantar þarna rúmlega 2 milljarða gamla upp á til þess að skattbyrði einstaklinga verði sambærileg og á s. l. ári.

Ég hef hér fyrir framan mig samanburð Þjóðhagsstofnunar á skattbyrði einstaklinga á árunum 1964 til 1981. Á þessari töflu eru einungis sambærilegar tölur frá árunum 1974 til 1981. Tvö ár skera sig úr, árin 1980 og 1981, um mikla skattbyrði, ásamt með árinu 1979. Öll þessi ár, árið í ár og tvö s. l. ár, fer skattbyrði einstaklinga, álagðir skattar í hlutfalli við tekjur fyrra árs, upp fyrir 20% og aldrei endranær. Þetta talar auðvitað sínu máli um að beinir skattar eru síður en svo að lækka í landinu. Hvernig má það líka vera, á sama tíma og þjóðartekjur dragast saman og ríkissjóður tekur meira í sinn hlut að auki, — hvernig má þá vera að skattaálögur minnki? Vitaskuld halda þær áfram að þyngjast og versna. Skattaálögurnar þyngjast og versna enn meir en þessar tölur benda til, ef það er jafnframt haft í huga að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa dregist saman þannig að nú verður að greiða skattana af minni efnum en áður.

Skýrasta dæmið um hvernig ástandið er orðið í landinu er að núv. ríkisstj. varð að skipa nefnd til að breyta óreiðuskuldum húsbyggjenda í föst lán. Hvað fór formanni Verkamannasambands Íslands, forseta Alþýðusambands Íslands, varaforseta Alþýðusambands Íslands og ríkisstj. á milli um þetta fólk? Það er búið að leggja fram tillögur í húsnæðisnefnd. Þær liggja uppi í Stjórnarráði. Í hverju eru þessar tillögur fólgnar? Þær eru fólgnar í því að hjálpa þessu fólki, sem nú er í standandi vandræðum, með sams konar lánum og útgerðin hafnar. Af náð sinni ætlar ríkisstj. að segja við íslenskan æskulýð: Þið megið fá lán með lánskjaravísitölu og 2.5% vöxtum að auki. — Á sama tíma og verkalýðsforingjarnir lýsa yfir ánægju yfir þessari samvinnu í blöðunum gera þeir ráðstafanir til að skerða kaupgjaldsvísitöluna um 9%. En í leiðinni eru ekki gerðar ráðstafanir til að skerða lánskjaravísitöluna með sama hætti, þannig að sami taktur haldist í kaupgjaldsvísitölunni og lánskjaravísitölunni. Ráðstafanir ríkisstj. núna bitna því með tvöföldum þunga á þessu fólki og það því fremur sem við vitum að ef hlutfallshækkunin kemur strax, eins og núna, verður hækkunin enn meiri síðar því hún hefur margföldunaráhrif í sér.

Á s. l. vori man ég eftir því, að ríkisstj. sá sérstaka ástæðu til að hrósa sér yfir því, hversu úrræði hennar í húsbyggingarmálum væru skjót og góð, mundu breyta miklu í þessu þjóðfélagi. Þegar 1. þm. Reykv. var forsrh. var byggingariðnaðurinn á Akureyri vaxandi og mjög öflugur. Þrjú stærstu byggingaverktakafyrirtækin þá byggðu hvert um sig jafnmargar íbúðir og samtals voru byggðar á Akureyri á s. l. ári. Á þeim tíma þegar hv. 1. þm. Reykv. var forsrh. seldust íbúðirnar fyrir fram. Í dag er ekki hægt að koma út ársgömlum íbúðum. Byggingastarfsemin dregst óðum saman og hver maðurinn á fætur öðrum er að hætta rekstri: Atvinnuleysi hefur haldið innreið sína. Það er ekki skemmtilegt að koma á heimili þess fólks sem hefur selt húsnæði sitt í þeim bullandi hallarekstri, taprekstri, drápsklyfjum vaxta og vondra ríkisstj. sem verið hafa á undanförnum árum. Og starfið, allt ævistarfið, er lagt í rúst.

Við erum að tala um að alveg sjálfsagt sé og ágætt mál og upplagt að fjölga skipum. Eigum við ekki að kaupa togara? En hvernig er reksturinn þegar togarinn er kominn, þegar skipin eru komin á þessa smástaði? Það er mikið talað um Norður-Þingeyjarsýslu. Þar er verið að selja einn bát núna. Ætli það séu ekki eftir tveir? Þeir voru fimm eða sex þegar hv. 1. þm. Reykv. var forsrh. og fór fjölgandi. Hvernig er ástandið á Raufarhöfn? Ætli það sé mikill hagnaður af útgerðinni þar? Ætli atvinnuöryggið sé mikið? Hvernig er ástandið í Vopnafirði? Það var blómlegt pláss og vaxandi þegar hv. 1. þm. Reykv. var forsrh. Og hvernig er ástandið í Breiðdalsvík? Hvernig er það á Djúpavogi? Halda menn að fyrirtæki eins og Kaldbakur hf. á Grenivík yrði byggt upp í dag?

Ætli unga fólkið, sem kemur úr skólunum núna, hugsi fyrst um það af öllu hvernig það geti orðið sjálfstætt fólk og hafið rekstur? Ætli það sé ólmt í að leggja fram fé, leggja fram vinnu sína til að byggja upp sterkan atvinnurekstur?

Ég minnist þess frá þeim tímum þegar Magnús Jónsson var fjmrh., að upp komu viss vandamál fyrir norðan í tveim plássum. Og lausnin þá var sú, og hún tókst: Stofnið þið hlutafélag, leggið fram fé, leggið fram vinnu sem óafturkræft framlag í þessi fyrirtæki, og um leið og þið sýnið heima í héruðunum með vinnu ykkar með frjálsum framlögum að þið viljið byggja upp sterkan rekstur í fæðingarsveit ykkar skal ég koma á eftir og ég skal hjálpa ykkur um það sem á vantar.

Við trúðum því þá, sjálfstæðismenn, að kraftur þjóðarinnar lyfti okkur upp úr meðalmennskunni og byggi til ævintýrið mikla um þessa litlu þjóð hér norður á hjara, sem gat keppt við aðrar þjóðir, kjörorðið var einmitt þetta, að menn hefðu sanna ættjarðarást til að bera, frelsisást, og vildu leggja eitthvað af mörkum til að fegra land sitt og bæta. Við munum eftir smáíbúðahverfinu hér. Það var glæsilegur borgarstjóri sem þar hvatti menn til dáða. Þá var ekki einblínt á ríkið og sagt: Fleiri verkamannabústaði. — Það var verið að byggja. Þá voru ekki félagslegar — hvað heitir það? — félagslegar umbætur, félagsmálapakki, sem svo er ekki staðið við. (Gripið fram í.) Ég man það ekki alveg. Það er kannske hægt að fletta því upp hver var borgarstjóri þegar byrjað var á smáíbúðahverfinu. En það var gott framlag, hver sem það hefur gert. (Gripið fram í: Er hann forsrh. núna?) Það skyldi nú ekki vera að hæstv. forsrh. hafi þá verið borgarstjóri og staðið sig býsna vel. Það eru alltaf einhver takmörk fyrir vexti hvers manns. Maðurinn ræður kannske vel við eitt þó að hann ráði ekki við annað.

Við erum að velta því fyrir okkur sums staðar: Skyldu þessi togaraútgerðarfélög, sem hafa verið stofnuð núna upp á síðkastið, geta staðið sig t. d. ef „sveitarstjórinn mildi“ borgarbyggðasjóðsframlagið með hærri sköttum? Hvað skyldi þurfa að borga mikið með útgerðinni til þess að hún geti haldið áfram að starfa? Það var boðið að breyta lausaskuldum útgerðarinnar í löng lán samkvæmt frásögn Vilhjálms Jónssonar forstjóra. Eru kjörin þannig? Með leyfi hæstv. forseta:

„Um kjörin á þessum lánum er það að segja, að hvað sem hver segir hafa lán bundin lánskjaravísitölu verið óhagstæðustu lán á lánamarkaði hér. Ársvextir samkvæmt lánskjaravísitölu 1/12 1980–1/3 1981 voru 73.6%. Og ef síðasti mánuður, sem reiknaður hefur verið, er tekinn einn sér svarar það til 81.99% ársvaxta. Ef menn tala um að lán með lánskjaravísitölu verði hagstæð ef verðbólga fari niður fyrir 50%, þá gefa þeir sér þá forsendu að almenn vaxtakjör verði samt óbreytt. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða frekar þessi lánakjör, en vegna fyrirsagnar á viðtali því, sem varð orsök þessara skrifa, skal tekið fram að enginn viðskiptavinur olíufélagsins hf. hefur beðið það um skuldbreytingu. Olíufélagið hf. hefur því ekki haft tækifæri til þess að hafna verðtryggðum skuldabréfum. Hins vegar hef ég mótmælt aðferðum og kjörum varðandi þessa skuldbreytingu.“

Svo mörg voru þau orð. En þessi lán, sem engum útgerðarmanni dettur í hug að líta við, eru þau lán sem mér skilst, — ég veit ekki um það, ég er ekki trúnaðarsveinn núv. hæstv. ríkisstj., — en ætli þetta séu ekki svipuð lán og á að láta það unga fólk og þá einstaklinga, sem eru að gefast upp í óðaverðbólgunni að eignast þak yfir höfuðið, fá með vaxandi drápsklyfjum síðar? Það á að sýnast í bili og láta aðra um að leysa vandann þegar hann kemur, gefa út fréttatilkynningu, eins og gefin var út í nóvember, um að verðbólgan sé 51%, og koma svo til þjóðarinnar 31. des. og segja: „Vilji er allt sem þarf“ — því að verðbólgan er komin upp í skýin.

Meðal þeirra plagga, sem fjh.- og viðskn. Ed bárust vegna brbl. var bréf frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Ég er nú ekki með allt bréfið, en í því, sem ég er með, stendur þetta m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Þann 5. jan. s. l. ályktaði stjórn og trúnaðarmannaráð Verslunarmannafélags Reykjavíkur um brbl. ríkisstj., sem sett voru á gamlársdag. Í þeirri ályktun mótmælti félagið harðlega, að stjórnvöld skyldu hafa ógilt nýgerða kjarasamninga með setningu brbl., sem skerðir verðbótavísitöluna um 7% þann 1. mars n. k. Verður ekki séð að brýna nauðsyn hafi borið til þess að setja brbl. á gamlársdag varðandi þetta atriði, sem ekki kemur til framkvæmda fyrr en 1. mars n. k., það er löngu eftir að Alþingi hefur komið saman til fundar.

Verslunarmannafélag Reykjavíkur vill leyfa sér að benda á, að stór hluti launþega innan ASÍ tekur laun, sem eru á bilinu frá 3000–5000 kr., samkvæmt þeim samningum, sem verkalýðshreyfingin undirritaði við vinnuveitendur þann 27. okt. s. l., eftir um tíu mánaða samningaþóf.

Sá fjöldi launþega, sem verður að sætta sig við að taka laun samkvæmt þessum launatöxtum og hefur orðið að þola mjög tilfinnanlega kaupmáttarskerðingu að undanförnu vegna ákvæða laga nr. 13 1979, má illa við því að missa af þeirri 7% launahækkun, sem kjarasamningarnir áttu að tryggja þeim frá 1. mars n. k., en eru nú afnumin með enn nýrri lagasetningu.

Félagið skorar því á Alþingi að fella það ákvæði úr frv. Benda má á þá staðreynd, að á s. l. tveimur árum hefur skerðing verðbóta á laun, að meðtöldum áhrifum brbl., numið tæplega 25% miðað við það ef samningarnir hefðu verið í gildi allan þennan tíma.

Það er þó til bóta, að skerðingarákvæði laga nr. 13 1979 er afnumið frá 1. júní n. k. í meginatriðum.“

Í ályktun VR er því einnig harðlega mótmælt, að stjórnvöld ógildi með lagaboði kjarasamninga, sem verkalýðshreyfingin gerir við viðsemjendur sína. Síendurtekin íhlutun stjórnvalda í gildandi kjarasamninga er orðin hrein ógnun við frjálsan samningsrétt launþega, sem verkalýðshreyfingin getur ekki unað við.

Þá er því einnig mótmælt, að engin samráð voru höfð við samtök launþega um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, þrátt fyrir fögur loforð stjórnvalda um að það yrði gert.

Þessi ummæli eru afskaplega skýr og afdráttarlaus. Við vitum að lög eins og þessi snerta mjög fólk einmitt innan Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Ég var satt að segja mjög undrandi þegar ég las viðtal bæði við forseta og varaforseta ASÍ í blöðunum í dag, sem eru fulltrúar þessa fólks og komust í krafti þess inn á síðasta Alþýðusambandsþing, að þeir skuli ekki reyna að standa sig betur og í samræmi við óskir umbjóðenda sinna. Vitaskuld segir það ekki neitt fyrir fólk með 3000 kr. á mánuði þótt 1.5% sjúkratryggingagjald verði lagt niður á móti 7% í launum.

Ég er ekki einn þeirra manna sem halda að ógæfa Íslands sé í því fólgin að við gerum of vel við okkar minnstu og smæstu bræður sem verstu kjörin hafa. Ég er í engum vafa um það, að eyðslan og sóunin í þjóðfélaginu er á allt öðrum stöðum. Og kjaraskerðing af því tagi, sem hér er miskunnarlaust og undanbragðalaust beitt gagnvart þeim mönnum sem lægst kaupið hafa á landinu, er ekki af því tagi að maður geti við unað, allra síst undir þeim kringumstæðum sem nú eru, að engar áætlanir eru uppi um það, svo séð verði, hjá stjórnvöldum að snúa þróuninni í atvinnumálum við.

Herra forseti. „Ef þú vin átt, þann er þú illa trúir, viltu af honum gott geta, fagurt skaltu við þann mæla, en flátt hyggja og gjalda lausung við lygi.“ — Við höfum lesið og heyrt ummæli og orðræður einstakra ráðh., hvernig þeir tala hver um annan, hvernig þeir tala um virkjunarmálin, hvernig þeir hafa talað um togaramál Þórshafnar, hvernig þeir hafa talað um eitt og annað. Og við finnum að á sama hátt og sú gamla vísa um hina heitu ást á við þessa ríkisstj., þá á ekki síður við hana þessi síðari, að í núv. hæstv. ríkisstj. er goldin lausung við lygi. Það, sem tengir þessa menn saman, er ekki að þeir hafi vissu fyrir því, að þeir geti látið gott af sér leiða. Ef þeir hefðu vissu fyrir því hefðu þeir ekki skrifað undir leyniplaggið fræga sem ekki má nefna frekar en snöru í hengds manns húsi. Ef þeir treystu hver öðrum þyrftu þm. ekki að vera að eyða tím Alþingis hvað eftir annað til þess að þráspyrja einstaka ráðh. hverjar séu meiningar ríkisstj. í hinum ýmsu málum. En þótt svo sé, þótt þessi skyndilega vinátta og þetta litla traust, sem þarna ríkir þó í öllum þessum kærleikshita, sé ekki trúverðugt, þá skuli menn samt vara sig á því að halda að það geti ekki enst eitthvað.

Hæstv. félmrh. talaði um hægindi í Þjóðviljanum forðum. Þar vilja sumir vera. Og nú er hann kominn í þá sveit.