26.02.1981
Neðri deild: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2641 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls við þessa umr., en hv. síðasti ræðumaður hefur haldið þannig á sínum málflutningi að ég sé mér ekki fært annað en svara honum og þeim mörgu rangfærslum sem hann kom með í ræðu sinni.

Það er að vissu leyti eitt ánægjulegt við ræðu þessa hv. þm., að þdm. vita þá að hann hefur fengið málið aftur. Það er alltaf ánægjulegt að verða þess áskynja að menn séu heilir heilsu. En það hefur farið lítið fyrir þessum hv. þm. á undanförnum mánuðum, eins og allir vita. Nú grípur hann til margvíslegra blekkinga og stórlyga sem hann var fyrr á árum þekktur fyrir. Ég vil t. d. minna hv. þm. á það, að sennilega hefur íslensk útgerð aldrei staðið betur en á árinu 1978. Nú kemur hann í ræðustól hér á Alþingi og segir að útgerð og fiskvinnsla hafi öll verið stöðvuð, hann hafi þó hagað útflutningsbanninu á þann veg að það hafi ekki orðið stöðvun þess vegna. Þá voru margvíslegar ráðstafanir gerðar með því að keyra fisk á milli staða og útgerðarfyrirtækin og fisvinnslufyrirtækin urðu fyrir stórum útlátum og fjártjóni vegna skemmdarstarfsemi þeirra manna sem að banninu stóðu.

Útgerðin á árinu 1978 stóð með blóma. Fiskvinnslan stóð aftur mjög erfiðlega vegna þeirra gífurlegu verðhækkana og kauphækkana sem urðu á árinu 1977. Það vissu allir þá, að boginn var spenntur of hátt. Það vissi hver einasti maður, líka þeir sem voru að gera kröfurnar. Þær kröfur voru gerðar í þeim tilgangi að koma verðbólguhjólinu aftur af stað. Hvað gerði svo ríkisstj. sem tók við, vinstri stjórnin? Hvað gerði hún? Hún lækkaði gengið. Ég lagði til í ágústmánuði, þegar stjórnarmyndunarviðræður vinstri flokkanna töfðust lengi, að framkvæma þá gengislækkun, en sumir ráðh. í þeirri ríkisstj. vildu bíða. Þetta var eina aðgerðin. Það var hægt að gera þetta hvenær sem var. Það var ekkert annað gert en það, að samtímis þeirri aðgerð íþyngdi vinstri stjórnin atvinnurekstrinum í landinu um leið, öllum atvinnurekstri. Það fer lítið fyrir fullyrðingum hv. þm. í þessum efnum eins og öðrum.

Hann kom inn á ráðstafanir ríkisstj. með lögum í febr. 1978 og talaði þar um skerðingu launa. Ég hef margoft tekið fram, að það getur verið nauðsynlegt hjá hvaða stjórn sem er, ef þannig er ástatt í efnahagsmálunum, að skerða laun ef það væru samræmdar aðgerðir til þess að ná árangri í þeirri viðleitni að veita viðnám gegn verðbólgu. En lögin í febr. 1978 voru miklu viðameiri en frv. sem við erum að ræða hér. Eftir standa í þessum brbl. aðeins kaupskerðingarákvæðin en í lögunum frá 1978, áður en til aðgerða var gripið, var miðað að því að lækka verðbólgu í 36 úr 40 miðað við ársmeðaltal eða í 30% úr 36%. Ef miðað er við verðlag frá upphafi til loka árs var búist við að kaupmáttur ráðstöfunartekna 1978 yrði 7% hærri á mann frá árinu áður. Aðgerðirnar gerðu ráð fyrir því, að hinir tekjulægstu bæru ekki verðbótaskerðingu á við aðra, og fólu þar með í sér launajöfnun. Þessu sleppti hv. þm. alveg. Það var gert ráð fyrir að laun vegna vísitölu 1. mars hækkuðu um 10%. Ákveðið var að helminga hækkun verðbóta og verðbótaauka sem koma áttu til framkvæmda 1. mars, 1. júní, 1. september og 1. desember. Láglaunafólk átti að bera minni skerðingu þannig: Hækkun lægstu kauptaxta miðað við dagvinnu rúmlega 8%, hækkun meðaldagvinnukauptaxta um 7.5% og hækkun allra annarra launa 5–7.5%. Þetta þýddi að launþegi með 88 þús. kr. fengi fullar verðbætur og engin skerðing fyrr en við 100 þús. kr. laun, sem um áramót voru sama og 330 þús. gkr., og átti þá kauphækkun að vera hjá þessum hópi 8800 kr. Síðan áttu verðbætur að skerðast þannig, að laun sem næmu 176 þús. kr., um áramót tæplega 600 þús. kr., áttu að fá hálfar verðbætur eða 5%. Þá voru ráðstafanir til þess að styrkja kaupmátt ráðstöfunartekna. Barnabætur voru hækkaðar um 5%, vörugjald var lækkað úr 18 í 16%. Tekjumissir ríkissjóðs af því var áætlaður um 1000 millj. kr. Niðurgreiðslur voru auknar um 1300 millj. á ári. Það var álitið jafngilda 1% í kaupmætti ráðstöfunartekna. Auk þessa voru hækkanir almannatrygginga, tekjutryggingar og heimilisuppbótar.

Ég sagði hér í dag — þá var hv. þm. ekki kominn — að á tímabili þeirrar ríkisstj. hækkaði elli- og örorkulífeyrir um 263.5%, tekjutrygging hækkaði um 495.2%, tekjutryggingarmarkið og viðbætur elli- og örorkulífeyris við tekjutryggingar hækkuðu um 345.3%. Ég þarf ekki að endurtaka þær tölur sem ég fór með í dag, en ég get alveg kinnroðalaust og minn flokkur, Sjálfstfl., horft framan í hvaða mann sem er og fulltrúa hvaða flokks sem er án þess að blygðast mín fyrir ráðstafanir sem gerðar voru á þessu tímabili, sérstaklega gagnvart þeim sem minnst máttu sín. Eins og ég sagði í dag hækkaði tekjutryggingin á þessu tímabili hvorki meira né minna en úr 53% í rúmlega 89% .

Þessi hv. þm. segir: Við metum og metum þessa skattalækkun. — Meta fulltrúar ASÍ skattalækkanir út frá fjárlögum? Jú, það var gripið fram í fyrir honum og hann játaði: Það gerum við út frá fjárlögum. — Þar er sökin. Sökin felst í afgreiðslu fjárlaga. Það er ekki tekið tillit til þeirrar hækkunar launa sem hefur orðið á milli ára og að því „blöffi“ stóð Guðmundur J. Guðmundsson. M. ö. o.: Það var verið að afgreiða fjárlög með skattvísitölu 145 í staðinn fyrir skattvísitölu 151–152 til að fá fleiri milljarða kr. í auknar tekjur inn í fjárlögin og segja svo aftur eftir áramót eða í febr.: Nú skulum við gefa yður gjafir, launþegar í landinu. — Fyrst taka þeir of mikið, meira en þeir eiga að gera og þeir hafa leyfi til, af skattborgurum í þessu landi, og þegar þeir eru búnir að afgreiða það kalla þeir í Guðmund J. Guðmundsson, sem afgreiddi fjárlög með skattvísitölu 145 í staðinn fyrir skattvísitölu 1 5 1 eða 152, og segja: Þú stóðst með okkur, Guðmundur minn, að því að afgreiða fjárlögin með miklu hærri sköttum en við þurftum á að halda. Nú ætlum við að gefa þér fyrir umbjóðendur þína í Verkamannasambandi Íslands og Alþýðusambandinu nokkrar milljónir til baka. — Og þá sagði Guðmundur J. Guðmundsson og hneigði sig fyrir Ragnari Arnalds: Þakka þér óskaplega vel fyrir, Ragnar minn. Ég vissi að þú ert höfðingi. — Þetta er sannleikur málsins.

En svo kemur þessi þm. fullur hræsni. Hann kemst ekki núna fyrir í vestisvasa orkumálaráðherrans. Hann fyllti alveg út í stólinn núna. Það var ekki nokkur leið á því augnabliki að koma honum í vestisvasa orkuráðh. eða í vasa fjmrh. þegar hann belgdi sig út. Hann kom ekkert inn á það sem máli skiptir og ég drap á í minni ræðu. Það var: Hvar er stefna Alþb.? Hvar eru núna fyrirheitin um að stéttasamtökin skuli hafa fullt frelsi til samninga um kaup og kjör félaga sinna? „Gerða kjarasamninga ber skilyrðislaust að virða,“ segir í skrautútgáfu Alþb., sem þeir fengu kosningasigur út á 1978. Allt hafa þeir svikið. Vitaskuld eru það þeir sem ráða ferðinni.

Að síðustu: Mér finnst nú ekki skipta höfuðmáli brotthvarf hæstv. forsrh. í gær. Ég setti út á það, að umr. væri haldið áfram þegar hæstv. forsrh. hefði farið frá, og ég sagði í gamni að hann hefði þá alveg eins getað verið, fyrst hann vildi halda umr. áfram, og sent félmrh. fyrir sig á fundinn. En það þarf hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson ekki að óttast, að „flokksbrotið“ í Sjálfstfl. biðji kommana að koma til þess að tala á fundi yfir Sjálfstfl. Það er langt í land að slíkt eigi sér stað. — Ég vildi ekki á nokkurn hátt setja því stólinn fyrir dyrnar að hæstv. forsrh. kæmist á fund. Hitt fannst mér óeðlilegt, að halda þessum umr. áfram á meðan, en þó alveg sérstaklega vegna þess að haft var eftir ráðh. á þessum fundi að við værum að halda hér uppi málþófi. Það voru aðeins búnar að vera umr. í tæpa tvo tíma og síðar í einn tíma og korter í gærdag í þessum málum.