04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa furðu minni á því, að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. eru báðir horfnir héðan úr salnum við framhaldsumræður um gjaldmiðilsbreytingu og klukkan ekki enn orðin fjögur síðdegis. Til þeirra var áður á fundinum beint fsp. Ég hlýt að skilja það svo, að hæstv. viðskrh. hafi tekið að sér að svara fyrir þeirra hönd.

Ég ítreka þá spurningu, sem ég kom með fyrr í dag: Munu Alþ. ekki verða kunngerðar þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hyggst gera samfara þeirri myntbreytingu sem fram fer um áramótin, og verða kunngerðar þessar breytingar áður en Alþ. fer heim í jólaleyfi?

Það eru síðustu forvöð að kunngera Alþ. og þjóðinni ráðstafanir samfara myntbreytingu áður en hún á sér stað. Ég trúi því ekki að hæstv. viðskrh. komi hér aftur upp og segi: Þingmenn og þjóðin verða að bíða. — Hann verður sjálfsagt að bíða, ég geri ráð fyrir því, en þingið og þjóðin gera kröfu til þess að fá svar við þessum spurningum eftir að ráðh. hefur svarað fsp. um að ekki sé að hans dómi hægt að fresta myntbreytingunni.