03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

219. mál, snjómokstursreglur á þjóðvegum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég varð fyrir verulegum vonbrigðum þegar snjómokstursreglur birtust á s. l. hausti, því að ég var búinn að gera mér vonir um að þeim yrði breytt á þann veg, að Ólafsfirðingar fengju tvo mokstursdaga í viku. Hins vegar fagna ég því, að þessum reglum var breytt á þann veg, að það má segja að það sé háð mati Vegagerðarinnar hvort þessi mokstur fer fram einu sinni eða tvisvar. Það er matsatriði hvenær þeir telja að ekki sé snjóþyngra en svo, að forsvaranlegt sé að moka tvo daga vikunnar.

En í sambandi við snjómokstursreglur sitja landsmenn alls ekki við sama borð. T. d. við Eyjafjörð er þjóðvegur í gegnum líklega fimm hreppa báðum megin fjarðarins sem er alltaf mokaður. Aftur á móti verða aðrir að borga helminginn af mokstrinum í hvert sinn sem er mokað til þeirra. Þetta gerir það að verkum, að þarna ríkir mikið ósamræmi sem verður líka að líta á í sambandi við þessar snjómokstursreglur.

Ég held að það þurfi að gera heildarathugun á þessum málum, þannig að landsmenn búi við svipaða þjónustu að þessu leyti eftir því sem við verður komið.