03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2651 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

219. mál, snjómokstursreglur á þjóðvegum

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ekki skal ég mæla gegn því, að Ólafsfjarðarmúli verði mokaður oftar en vil fyrirbyggja misskilning í sambandi við ummæli hv. 3. þm. Norðurl. e. að því er varðar Ólafsvíkurenni eða snjómokstur þar — og raunar gildir það sama um Óshlíðina, þar sem hann sagði að þessir vegir væru mokaðir daglega til þess að komast í aðalþjóðvegakerfi landsins. Þarna er ekki um það að ræða, því miður, heldur er þarna fyrst og fremst um að ræða að tryggja dagleg samskipti milli þessara byggðarlaga, eins og raunar kom fram hjá hæstv. samgrh. Um er að ræða ekki aðeins dagleg samskipti í sambandi við atvinnumál, í sambandi við að komast á flugvöll, heldur er þarna einnig um að ræða sameiginlega læknisþjónustu og margt fleira sem mætti rekja en ég geri ekki hér.

Ég vil aðeins nota tækifærið hér til að koma þessari athugasemd að og einnig benda á það, að eins og kom fram í skýrslu hæstv. ráðh. var meðalumferð, ársmeðaltalið árið 1979, um Ólafsvíkurenni 309 bílar á dag, en voru á síðasta ári komnir yfir 400. Ég vek athygli á þessu hér vegna þess, að eins og væntanlega flestir hafa fylgst með er þarna um mjög mikið vandamál að ræða á þessum vetri þar sem óvenjulega mikið er um grjóthrun og skriðuföll. Vandamál vegna þessa vegar koma væntanlega til meðferðar Alþingis í sambandi við afgreiðslu vegáætlunar á næstunni.