03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

219. mál, snjómokstursreglur á þjóðvegum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði, að engum þykir nóg gert. Ég hef síður en svo á móti því að hafa samráð við þm. um snjómokstur. En þegar fyrir mig var lagður óskabunkinn, sem er æðiþykkur alls staðar af landinu um meiri snjómokstur, þá ræddi ég það nokkuð við þá vegagerðarmenn og þeir sögðu að enginn samgrh. hefði lagt í að taka þau mál þannig upp við þm. Við skulum sjá hvort ég legg í það við aðra endurskoðun, ef ég gegni þá þessu embætti. Ekki vil ég lofa því.

Hér hafa menn talað mikið um það, að allir sitji við hið sama, og það væri ákaflega æskilegt ef einhver formúla fyndist til þess. Nú er opnað tvisvar í viku frá Reykjavík og reyndar á köflum oftar allt norður um land, alla leið til Akureyrar og Húsavíkur og töluvert út frá eim meginvegi, vestur á Snæfellsnes, Stykkishólm, til Ólafsvíkur og þar reyndar allvíða, um allt Suðurlandið og reyndar víða oftar, alla leið austur á Höfn og þaðan norður um að Egilsstöðum, en ekki er opnað einu sinni í viku inn á Vestfirðina. Hverjir hafa borið skarðan hlut að þessu leyti? Haldið þið að kröfurnar um að opna inn á Vestfirðina séu ekki háværar? Menn hafa ekki treyst sér — ekki ég heldur — til að verða við þeim kröfum. Ég óttast að matið á því, hvenær sé jafnt gert, verði í fyrsta lagi ákaflega erfitt og ekki víst að þeir, sem tala hæst um það, beri mest úr býtum við slíkan samanburð.

Eins og kom fram hjá mér áðan — og reyndar hjá hv. þm. sem hér töluðu áðan — er töluvert önnur aðstaða í Óshlíð og Ólafsvíkurenni heldur en í Ólafsfjarðarmúla. Í Óshlíð hefur reyndar verið opnað meira eða minna hvern dag alllengi. Þar teppist vegur mjög sjaldan af snjókomu, heldur af snjóflóðum, sem eru stundum að vísu mörg, en yfirleitt ekki eins stór — þó þau geti verið stór — og í Ólafsvíkurenni og yfirleitt hefur verið reynt að fjarlægja slík snjóflóð þegar þau hafa verið lítil. Samt kemur fram að kostnaður við opnun Óshlíðar var árið 1979 aðeins 9 millj. gkr., en 47 millj. við Ólafsfjarðarmúla. Og ef ég man rétt var það innan við 17 millj. kr. við Ólafsvíkurenni, þannig að þarna er gífurlegur munur á.

Ég verð að taka undir það sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði, að vitanlega er eina lausnin á þessu máli, að lagfæra þá staði sem eru erfiðastir að þessu leyti. Ef við ætlum að mæta þeim fjölmörgu óskum sem fram eru bornar um meiri snjómokstur, þurfum við að auka snjómokstursfé gífurlega. Tvöföldun þess efa ég að nægði til að fullnægja öllum þeim óskum sem fyrir liggja.