03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2656 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

383. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 10. þm. Reykv. borið fram fsp. til hæstv. samgrh. Þessi fsp. tengist máli sem vakið hefur allmikla athygli að undanförnu og margir bera kvíðboga fyrir hvernig framkvæmt verður. Ég vil rifja upp í þessu sambandi að á s. l. ári, það var liðið undir lok þingtíma, bar ég fram fsp. til hæstv. samgrh. um þetta sama mál. Sú fsp. komst ekki á dagskrá, en henni var svarað skriflega, og þóttu mér þá svör hæstv. ráðh. ærið ófullkomin og gerði aths. við það úr þessum ræðustól. Nú er liðið næstum ár síðan þetta mál var hér á dagskrá, og sannast sagna hefur málið mjög lítið skýrst í hugum almennings eða hugum þingmanna, enda engin tilraun gerð af hálfu Pósts og síma né hæstv. ráðh. að skýra þetta mál fyrir fólki og gera grein fyrir því, hvað raunverulega væri fyrirhugað í sambandi við uppsetningu þessara tækja. Hér er ekki eingöngu um tæknilegt mál að ræða — ég vek athygli á því — heldur er hér um pólitískt mál að ræða, þ. e. hæstv. ráðh. verður að taka pólitískar ákvarðanir í sambandi við þetta mál. Ekki síst til þess að reyna að fá fram hver sé stefna ráðh. og vilji hans í þessu máli er þessi fsp. borin hér fram. Hún hljóðar svo:

„Í tilefni af ákvörðunum Pósts og síma um að setja upp tækjabúnað til að mæla lengd símtala og innheimta afnotagjöld í samræmi við það er spurt:

1. Hver tók ákvörðun um að setja upp þennan tækjabúnað og á grundvelli hvaða heimilda?

2. Er fyrirhugað að búnaður til mælinga á lengd símtala verði settur upp víðar í landinu og þá hvar og hvenær?

3. Hvaða meginsjónarmið koma til með að ráða í þeirri endurskoðun gjaldskrár, sem þessi búnaður mun hafa í för með sér?

4. Í svari samgrh. við fsp. á síðasta þingi um lengd skrefa segir: „Hæstv. samgrh. mun að sjálfsögðu velja réttláta lengd innanbæjarskrefa og skrefagjald.“ Hver verður „hin réttláta lengd innanbæjarskrefa“ og hvert verður skrefagjaldið?

5. Hyggst ráðh. láta stýra gjaldtöku þannig að ekki verði þungbært fyrir fólk, sem notar síma mikið af félagslegum ástæðum, t. d. elli- og örorkulífeyrisþega?“

Ég vil minna á að ekki alls fyrir löngu fékk Alþingi veglega heimsókn. Hingað komu konur sem sátu þing Bandalags kvenna í Reykjavik, sennilega um hundrað konur, á fund okkar þm. Reykv. til að láta í ljós áhyggjur sínar yfir þessu máli, ekki síst vegna síðasta eða fimmta töluliðar í þessari fsp., þ. e. hvernig líklegt sé að þessu máli verði beitt gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum. Afhentu þær okkur þm. Reykv. sérstakt bréf um það mál, og það er ekki síst í tilefni af því sem þessi síðasti liður í fsp. er borinn fram.