03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (2798)

383. mál, símamál

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Mig langar til að rekja nokkur atriði þessa máls. Það er að vísu stuttur tími sem er til ráðstöfunar þegar um fsp. er að ræða. En ég vil í fyrsta lagi benda á að skrefatalningar eru sjaldgæfar í heiminum. Það er að vísu rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að það er dýrara hér, þar sem um margar innan bæjarstöðvar er að ræða í Reykjavík, að hringja í númer á milli stöðva. En hitt er jafnljóst, að símtalið, sem fer fram í tveimur áföngum ef svo má segja, annars vegar þegar valið er og hins vegar að halda uppteknum tveimur línum á milli tveggja símtækja, að ef það er innan sama kerfisins þá er þetta það langsamlega ódýrasta og slitminnsta fyrir símakerfið sjálft.

Í öðru lagi vil ég minna á að fjvn. Alþingis féllst ekki á að verða við beiðni hæstv. fjmrh. um að fella niður aðflutningsgjöld af tækjunum sem voru ærið dýr og keypt voru í upphafi fyrst og fremst til þess að skattleggja Reykvíkinga. En sem betur fer hefur það og gerst síðan að ákveðið hefur verið að taka upp sams konar skrefatalningu á innanbæjarsímtölum alls staðar á landinu í einu. Það er mikil framför og hefur orðið fyrst og fremst fyrir þrýsting eftir að málið fór af stað, eins og hægt er að sýna fram á.

Í þriðja lagi er ánægjulegt að heyra hæstv. ráðh. lýsa því, að skrefið eigi að vera 6 eða 8 mínútur, því að þær tölur, sem voru áður til í bréfum á milli Póst- og símamálastjórnarinnar og samgrn., voru 3 mínútur að degi til en 6 mínútur að kvöldi til og um helgar. Var látið að því liggja í bréfinu, að það væri gert til þess að hægt væri síðar að slaka á þessum nýju byrðum Reykvíkinga.

Í fjórða lagi vil ég benda á að hugmyndin um frínúmer, sem er í lögunum um póst- og símamál, er komin frá Oddi Ólafssyni upprunalega. Það væri vissulega ástæða til þess að spyrja hvernig það mál stendur, því að til er tækni sem hægt er að beita, og um það hefur nú verið flutt þáltill.

Í fimmta lagi varðandi tölvurnar, sem er tiltölulega ný röksemd í þessu sambandi, er enginn vandi — og það hef ég gert fyrirspurnir um — að skrá þessar tölvur. Það þarf hvort sem er að gera það, og þá má skrá þá síma sem þessar tölvur eru tengdar, sem eru yfirleitt á milli tveggja síma: Á milli tveggja síma innan fyrirtækis eða milli fyrirtækja. Þetta er hægt að skrá, er mér sagt, og skrá þá síma sérstaklega og hafa þá á öðru gjaldi.

Ég fagna því, að það á að taka aukið tillit til elli- og örorkulífeyrisþega. Það er samt umhugsunarvert, hvort gera á það með þessum hætti eða hækka elli- og örorkubætur. En þessi ríkisstj. virðist ekki vilja fara þá leið.

Herra forseti. Ég lýk brátt máli mínu. Ég er 2. fyrirspyrjandi að þessari fsp. og leyfi mér þess vegna, ef hægt er, að fá að syndga upp á náðina í örfáar sekúndur í viðbót.

Mjög vafasamt er að hægt sé að segja að ákvörðunin um gjaldskrármálið byggist á samþykkt Alþingis, svo ekki sé meira sagt. Það kemur nánast hvergi fram, það hefur að vísu komið fram í nefndum, sem alþm. hafa átt sæti í, en að öðru leyti er ekki hægt að sjá að skrefatalninguna hafi átt að taka upp. Þvert á móti hafa umræður gengið í þá átt að jafna símgjöldin með öðrum hætti.

Þá vil ég ítreka það í lokin, herra forseti, og fagna því, að þetta á yfir alla að ganga í einu á öllum innanbæjarsamtölum á landinu. Og ég vil óska eftir því, að haft verði samráð við þm. Reykv. og borgarstjórn um þetta mál, rétt eins og haft er samráð við þm. annarra landshluta þegar um er að ræða mál sem sérstaklega snerta þá.