03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2661 í B-deild Alþingistíðinda. (2799)

383. mál, símamál

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það hefur mikið veður verið gert úr þessu skrefatalningarmáli öllu saman, allt of mikið. Menn hafa miklar áhyggjur af því, að gamalt fólk hér í Reykjavík skuli þurfa að borga tvö skref fyrir 10–12 mínútna samtal, en það sama fólk sem hefur áhyggjur af þessu hefur engar áhyggjur af því, að gamalt fólk á Akureyri, Vestfjörðum eða Austurlandi þurfi að borga 70 skref fyrir 10 mínútna samtal. (FrS: Í innanbæjarsamtöl?) Við ættingja sína hér á Reykjavíkursvæðinu. Margt af þessu fólki, flest af því kannske, á ættingja sína hér á Reykjavíkursvæðinu, og þetta fólk verður að standa undir þessum mikla kostnaði.

Það hefur lengi staðið til að þessi skrefatalning verði á öllum sjálfvirkum stöðvum. Það hefur aldrei verið neitt vandamál.

Kaupin á tækjabúnaði eru gerð fyrir Reykjavík, það er rétt, vegna þess að hinar stöðvarnar eru allar byggðar með þetta í huga, þær eru allar byggðar þannig, að þetta er afskaplega auðvelt, það þarf ekki nema eina klukku, sem síminn smíðar sjálfur, til þess að setja á allar hinar stöðvarnar, klukku sem kostaði á síðasta ári 300 þús. kr. eða þar um bil. Það er því ekkert vandamál og hefur aldrei verið.

Það eru margir kostir sem fylgja skrefatalningunni. Í fyrsta lagi léttir á álagi, það dregur úr óþarfanotkun. Það geta ekki verið nema einhvers staðar á bilinu 16–18% af símnotendum á tali í einu. Við hringjum og hringjum og hringjum, annaðhvort fáum við ekki són eða við fáum ekki samband þó að við náum sóni. Það er af því að álagið er of mikið. Það er líka afskaplega hvimleitt ef maður þarf að hringja og hringja lon og don, kannske heilu og hálfu klukkutímana, án þess að ná sambandi vegna þess að það er alltaf á tali, þannig að það er sjálfsagt að reyna að draga úr því.

Aðalatriðið er þó jöfnunin. Það er ekkert vit í því, að fólk úti á landsbyggðinni skuli þurfa að borga 50, 60 eða 70 sinnum meira þegar það þarf að ná í kaupstað heldur en fólk á þéttbýlissvæðunum, ekkert vit í því af þeirri einföldu ástæðu, að þessi mismunur á langlínusamtölum og innanbæjarsamtölum er margra áratuga gamall, frá þeim tíma þegar það þurfti vír alla leið á milli, tvo víra og stúlkur á báðum endum ef ekki á tengistöðvum líka. Nú er með tiltölulega ódýrum radíósendum hægt að senda 400–500 samtöl á einu radíósetti frá Skálafelli til Akureyrar, þannig að kostnaðurinn á langlínusamtölum er ekki miklu meiri en á innanbæjarsamtölum. Þess vegna mæta engin rök með því, að langlínusamtöl séu miklu meira en 4–5 sinnum dýrari, jafnvel 70 sinnum dýrari eins og þau eru í dag.