15.10.1980
Efri deild: 3. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

3. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þetta frv. er vissulega, eins og hæstv. ráðh. gat um, ekki nýtt hér á þingi, heldur hefur í ýmsum myndum komið hér hvað eftir annað til umr. án þess þó að hljóta afgreiðslu. Hér er þó vissulega um brýnt mál að ræða, því það er ekki aðeins misbrestur á því, að almenningur eigi nægilegan aðgang að upplýsingum hjá almannastofnunum svo og fjölmiðlar og um það gildi fastmótaðar reglur, heldur er líka verulegur misbrestur á því, að t.d. þingnefndir fái þær upplýsingar sem þurfa þykir frá rn. og ýmsum öðrum stjórnvöldum. Um þetta vil ég gjarnan mega nefna eitt dæmi.

Um það hafa staðið nokkrar deilur nú á haustdögum, hvernig staðið var að kaupum þyrlu til handa Landhelgisgæslunni. Ekki er um það deilt, hvort Landhelgisgæslan þurfti þyrlu eða hvernig þyrlu hún skyldi festa kaup á, heldur einungis um það, hvernig að málinu var staðið. Ég tel sjálfsagt, rétt og eðlilegt að Landhelgisgæslan hafi yfir að ráða björgunarþyrlu til notkunar hér. Um það er alls ekki deilt, heldur eingöngu það, hvernig staðið var að málinu.

Í sumar, nánar tiltekið 22. júlí, var haldinn fundur í undirnefnd fjvn. þar sem mætti ráðuneytisstjóri dómsmrn., einn af höfundum þessa ágæta frv., ef mér skjátlast ekki, og með honum forstjóri Landhelgisgæslunnar. Þá óskaði undirnefnd fjvn. eftir að fá í sínar hendur öll gögn og bréfaviðskipti er vörðuðu þessi frægu að endemum þyrlukaup. Því var svarað að þetta væri alveg sjálfsagt. Síðan gerðist ekki nokkur skapaður hlutur. Hinn 1. okt. s.l. mætti ráðuneytisstjóri dómsmrn. enn, og nú á fund fjvn. fullskipaðrar, og enn var óskað eftir því, að n. fengi í hendur gögn er vörðuðu þessi kaup, þ. á m. fyrrgreind bréfaskipti, — og enn hefur ekkert gerst. — Ég veit í rauninni ekki hvað það er sem þarf að gerast til þess að þingnefndir geti aflað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru frá rn. og ríkisstofnunum ef tregðulögmálið er allsráðandi hjá þeim embættismönnum sem þar sitja að völdum.

Það er auðvitað gjörsamlega óviðunandi, að þingnefndir skuli ekki fá þær upplýsingar sem óskað er eftir, og þess vegna hlýtur að vera brýnt að setja um það löggjöf og fastar reglur. En kannske mætti líka hafa þessa löggjöf nokkru víðtækari og fjalla þar um upplýsingaskyldu ríkisstjórnar gagnvart Alþingi. á þetta minni ég vegna þess að fimmtudaginn 18. sept. birtist viðtal í Morgunblaðinu við hæstv. dómsmrh. um þetta margumtalaða þyrlumál og hvernig að þeim kaupum var staðið, þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„„Kaupin eru löngu ákveðin sem kunnugt er,“ sagði dómsmrh., „hugmyndin er frá árinu 1974 og kaupin síðan ákveðin árið 1976. Þá var greitt inn á vélina og aftur síðar. Ekki varð því aftur snúið með þessi kaup, — og ekki í rauninni áhugi heldur á að hætta við þau.““ Síðan segir— og taki nú hv. dm. eftir: „„En er lánsfjáráætlun fyrir 1980 var gerð var af eðlilegum ástæðum reynt að hafa hana sem lægsta og þyrlukaupin ekki færð þar inn á.““

Hér sé ég ekki betur, ef þessi ummæli eru rétt eftir hæstv. ráðh. höfð, — og ég hef ekki séð þau leiðrétt á neinum vettvangi, — en að hér hafi Alþ. beinlínis verið blekkt og lögð fram lánsfjáráætlun þar sem 800 millj. kr. fjárfestingu í þyrlu handa Landhelgisgæslunni var sleppt svo að lánsfjáráætlunin yrði ekki of há. Þetta hljóta líka að verða gjörsamlega óviðunandi vinnubrögð.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að hér er ekki verið að deila á það, að þessi þyrla skuli hafa verið keypt, heldur eingöngu það, hvernig að kaupunum var staðið. Þau voru aldrei borin undir fjvn. og að því er ég best veit samþykkt fyrst formlega í ríkisstj. þegar þyrlan var í þann veginn að leggja af stað hingað til landsins með varðskipi. — Þetta er ekki í fyrsta skipti sem flugvélakaup ríkisstofnunar ber að með svona hætti. Auðvitað eru þetta líka fullkomlega óeðlileg vinnubrögð.

Ég vona að frv. það, sem hér er til umr. og fjallar um aðgang að upplýsingum hjá almannastofnunum og rétt almennings og þá væntanlega líka rétt þingnefnda og Alþ. til að fá upplýsingar hjá ríkisstjh. og ráðh., fái hér ítarlega umfjöllun og verði sent þeim aðilum til umsagnar sem málið snertir, eins og t.d. Blaðamannafélagi Íslands, sem á hér verulegra hagsmuna að gæta, svo og þeim aðilum öðrum sem rétt þykir að málið skoði. En mikilvægt held ég sé að þetta frv. gangi ekki enn einu sinni aftur hér á Alþ., heldur verði nú undinn bráður bugur að því að afgreiða það ásamt því frv. sem hæstv. dómsmrh. mælti hér fyrir á undan.