03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2665 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

383. mál, símamál

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vildi mega færa fram þá beiðni eða þá ósk til hv. þm., sérstaklega Reykjavíkur eða stór-Reykjavíkursvæðisins, að þeir láti það ekki henda sig að fara að gera mjög mikinn hávaða gegn þessari sjálfsögðu aðgerð sem í undirbúningi er. Þetta er svo sjálfsagt réttlætismál — þetta er svo sjálfsagt mál að öllu leyti, að allt, sem mælt er gegn þessu, er raunverulega verið að tala á mót skynseminni. Ég vonast til þess, að menn átti sig á því þegar þeir fara að kynna sér málið, að allt tal um þessa væntanlegu skrefatalningu hefur verið blásið upp af miklum misskilningi. Fyrsta ástæðan er sú, að menn hafa í raun og veru ekki lagt sig fram um að kynna sér eðli málsins.

Ég verð að segja það við hv. 10. þm. Reykv., að fjvn. mótmælti aldrei þessari áætlun Pósts og síma að setja á skrefatalningu — aldrei, þannig að fullyrðing hans er alger misskilningur. Og þegar við heyrum hér hjá hæstv. ráðh. upplýsingar um það, hvernig áformað er að standa að þessu, þá hlýtur maður að álykta að þarna sé miklu rýmra hugsað í sambandi við þetta mál, þ. e. skrefagjald, heldur en ég hef talið fært miðað við þær aðstæður sem við búum við, miðað við óunnin verk við símakerfi landsins sem aðkallandi eru.

Ég ætla ekki að tala hér langt mál, það væri hægt að tala hér í marga klukkutíma um það óréttlæti sem landsmenn búa við einmitt í sambandi við þessa þjónustu. Og við skulum athuga það, að það er fjöldi fólks á landssvæðum hér á landi sem ekki hefur síma og hefur ekki einu sinni aðgang að honum nema 3–4 tíma á dag, og ég veit um heilar sveitir sem hafa orðið vikum saman að búa við það að geta ekki komið frá sér nauðsynlegum boðum. Ég held að það sé áríðandi að við sameinumst um að vinna að raunhæfri áætlun um að koma sjálfvirkum síma um allt landið. Það er það verðuga verkefni sem við eigum að vinna að, og með því hljótum við í leiðinni að jafna þennan sjálfsagða kostnað sem landsmenn verða að búa við og um leið að skapa það öryggi, að allir landsmenn fái aðgang að síma hvar sem þeir búa í landinu. Það er mál nr. eitt.