03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2672 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

383. mál, símamál

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er virðingarverð viðleitni hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni að reyna að rétta hlut þeirra hv. þm. Friðriks Sophussonar og Birgis Ísl. Gunnarssonar í þessari umr. En það er spurning hvort þessi liðveisla er ekki flutt til þess að óska eftir liðveislu þeirra á öðrum vettvangi. En við skulum ekki leiða neinum getum að því. Niðurstaða hv. þm. var sú, að óska eftir að samgrn og fjvn. tækju þetta mál til könnunar svo að við þm. Reykv. gætum fengið að fylgjast með málinu. (GeirH: Svo að við fengjum enn fremur að fylgjast með málinu.) Já, já, svo að við fengjum enn fremur að fylgjast með málinu.

Það vill nú svo skemmtilega til, að við þm. Reykv. eigum einn fulltrúa í fjvn. og það er flokksbróðir hv. þm., Friðrik Sophusson. Það hefur verið upplýst hér í umr., að hann gegndi svo illa hlutverki sínu sem þm. Reykv. í þessari nefnd þegar þetta mál kom þar fyrir — hv. þm. Eiður Guðnason upplýsti það m. a. hér áðan — að hann einfaldlega tók ekki eftir þessu stóra hagsmunamáli Reykvíkinga — tók ekki eftir því. Þetta mál sýnir þess vegna að það dugar okkur lítt, þm. Reykv., að senda inn í fjvn. jafnvel svo vaska menn eins og hv. þm. Friðrik Sophusson, þegar það er svo upplýst hér í umr., að þeir hafa ekki hugmynd um það þegar stór hagsmunamál Reykvíkinga — að þeirra eigin dómi og dómi Geirs Hallgrímssonar — eru afgreidd í þessari nefnd. Þeir láta það fram hjá sér fara án þess að veita því hina minnstu athygli, láta okkur hina þm. Reykv. ekki vita af þessu stóra hagsmunamáli.

Friðrik Sophusson hefði getað fyrir tæpum tveimur árum látið okkur félaga sína, þm. Reykv., vita af þessu stóra hagsmunamáli. En hann gerði það ekki. Þess vegna er það, að ef einhver einn maður ber ábyrgð á því umfram aðra að þm. Reykv. hafa ekki vitað af þessu máli og íbúar Reykjavíkur ekki vitað af þessu máli, þá er það hv. þm. Friðrik Sophusson sem hefur verið kjörinn af Alþingi til þess að vera eini fulltrúi Reykvíkinga í fjvn. Það er þess vegna rétt, ef hv. þm. Geir Hallgrímsson hefur einhvern sérstakan áhuga á því að stuðla að því, að hagsmunamálum Reykvíkinga sé betur gaumur gefinn hér í nefndum þingsins, að hann gefi þessum eina fulltrúa okkar í fjvn., Friðrik Sophussyni, tiltal um það að standa sig betur eftirleiðis en hingað til.